7 atriði um nám og kennslu sem eru úrelt í skóla 21.aldarinnar

Á síðustu mánuðum hef ég tekið saman 21 atriði sem ættu að vera horfin og eru nú þegar úrelt í grunnskóla 21. aldarinnar og birti ég atriði 1-7 er snéru að tækni á sunnudaginn síðasta, atriði 8-14 um skólann og skipulag komu á miðvikudaginn og eru atriði 15-21 um nám og kennslu birt núna. Ég vona að þetta skapi líflegar umræður um skóla og menntamál, veki athygli á því sem auðveldlega væri hægt að breyta og fá skólafólk um allt land til þess að íhuga starf sitt, starfsumhverfi, aðstæður, það kerfi sem við störfum í og hvað við getum gert til að breyta því.
Að segja: „Þetta hefur alltaf verið svona” eru ekki gild rök fyrir því að við gerum það svoleiðis áfram. Við þurfum betri rök en það. Kennarar og skólastjórnendur um allt land eru að gera frábæra hluti við oft á tíðum erfiðar aðstæður, en sumt sem enn er verið að gera og nota, þrátt fyrir nýjar lausnir, rannsóknir og hugmyndir, er ótrúlegt.
Kerfið sem við störfum í þarfnast ekki endurbóta heldur endurskoðunar frá grunni.
15. Aðkeypt þjónusta í vefhönnun, bæklingum og veggspjöldum frá skólanum.
Þegar verið er að útbúa nýja heimasíðu, bækling, auglýsingu eða veggspjald fyrir skólann á ekki kaupa þá þjónustu (þó það eigi stundum við) og látið nemendur gera þetta. Í bestu skólum framtíðarinnar eru það þeir sem gera þetta sem raunveruleg viðfangsefni í íslensku, upplýsingatækni og myndlist/leiklist/tónlist.
16. Hefðbundið bókasafn
Skólasöfn sem innihalda einungis bækur og taflborð eru úrelt. Bækur eru nauðsynlegar en eiga ekki að vera það eina sem safnið hefur að geyma.
Skólasafn 21.aldarinnar á að vera hjarta skólans þar sem nemendur og starfsfólk koma til þess að slaka á, lesa, fá ráð um tæknimál, komast í öflugar tölvur til þess að klippa myndbönd, tónlist, prenta í þrívíddarprentara (FabLab) og forrita svo eitthvað sé nefnt. Bókasafnið (þó við þurfum nýtt orð fyrir þetta fyrirbæri) á að jafna stöðu fólks og gefa öllum tækifæri á að nota tæki og efni sem erfitt er að komast í annars staðar og er ekki til á öllum heimilum. Ef við einskorðum okkur við bækurnar þá breytast bókasöfn í raunveruleg söfn þar sem fólk kemur í heimsókn til þess að skoða allt það sem við notuðum einu sinni…. svona eins og byggðasöfn eru í dag.
17. Allir nemendur gera eins.
Bekkjarkerfi, þar sem allir gera það sama á sama tíma af því að þau eru fædd sama ár, eru úrelt. Skólakerfin voru sett upp á tímum iðnbyltingarinnar til þess að þjóna hagsmunum hennar. Þá þurfti að þjálfa fólk til þess að vinna í nálægum verksmiðjum og gera það sem þeim var sagt og átti í raun enginn að skara framúr í slíku umhverfi. Þetta á ekki við í dag því með því að setja alla í gegnum sama kerfið á sama tíma erum við að reyna að setja alla í sama mót, mót sem passar ekki þörfum nútímans, hvað þá framtíðar. Skólar eru margir hverjir ennþá settir upp sem slíkar færibanda-verksmiðjur.
Við eigum að auka val nemenda, veita börnum stuðning í því sem þau eru góð en ekki aðeins auka kennslu í því sem þau ná ekki. Nemandi sem er góður í listgreinum en undir meðallagi í dönsku fær stuðning í dönsku til þess að komast til jafns við jafnaldra sína en ekki listgreinum og fær hann ekki að vera framúrskarandi í neinu. Allir jafnir, allir eins!
Menntun á að vera einstaklingsmiðuð, nemendur eiga að vinna í hópum, þvert á árganga og sníða nám að sínum áhuga og þörfum í samvinnu við kennara, foreldra sína og samnemendur og sem betur fer eru nokkrir skólar nú þegar að vinna í þessum anda.
18. Endurmenntun starfsfólks þar sem allir fá eins
Skóli sem menntar starfsfólkið sitt með námskeiði einu sinni í mánuði þar sem allir fá eins er úrelt. Endurmenntun starfsfólks er vanalega ákveðin af skólastjórnendum en ekki starfsfólkinu sjálfu, svokallað “top-down management”. Það er auðveldast og einfaldast að allir, bæði nemendur og starfsmenn, fái bara eins menntun. Því að það að allir læri það sem þeir vilja þegar þeir vilja kostar tíma, peninga, samvinnu og gríðarlegan undirbúning.
Með tækni eins og Twitter, Pinterest, greinum á netinu, bókum, myndböndum, samvinnu og samtölum geta starfsmenn einstaklingsmiðað sína endurmenntun. Þeir skólar sem gefa starfsfólki sínu tíma og tækifæri á að mennta sig sjálft með því sem þau þurfa þegar þau þurfa eru allavega á réttri leið. (Hægt er að lesa nánar um Einstaklingsmiðaða Endurmenntun hér)
19. Nærumhverfið ekki nýtt í námi og kennslu
Þeir skólar sem nýta ekki umhverfi skólans til náms og kennslu eru úreltir. Það er ekki lengur hægt að halda því fram að nám einskorðist við skólastofuna. Með tækni dagsins er menntun alls staðar og með aukinni skjánotkun og minni útiveru en áður verða skólar að taka til sinna ráða og nota umhverfið til náms og kennslu.
20. Bækur
Ég ætla ekki að segja að skólar sem noti bækur séu úreldir því bækur eru frábærar. Þeir skólar sem einskorða sig hins vegar einungis við bækur eru að fara á mis við ótal tækifæri sem tól eins og iBooks Author og rafbækur, sem einfalda bæði að halda utan um glósur og leita í bókum svo eitthvað sé nefnt, gefa. Þeir skólar sem ekki eru að skoða nýtingu tækninnar í námi og kennslu eru úreltir. Vissulega kostar það að setja t.d. spjaldtölvur í hendur á nemendur og verður það að vera vel unnið, þó innleiðingin til fulls taki tíma… en það er dýrara til langs tíma ef við gerum það ekki.
21. Samræmd próf notuð sem helsti mælikvarðinn á gott skólastarf
Að horfa á útkomur samræmdra prófa sem mælikvarði á það hvort skólastarf sé gott eða ekki er það vitlausasta sem við getum gert og gefur okkur þrönga sýn á menntun. Niðurstöður slíkra prófa, þó hóflega mikilvægar, mæla aðeins lítinn hluta af því sem börn eiga að læra og með því að einblína á slík próf erum við að þrengja námið (e.narrowing the curriculum). Nám á að vera heildstætt og metið útfrá mörgum hliðum. Háar einkunnir á samræmdum prófum duga ekki einar og sér til þess að telja börnin okkar menntuð og tilbúin fyrir lífið. Alfie Kohn hefur meira að segja bent á mælanleg tengsl (e.statistically significant correlation) milli hárra einkunna á samræmdum prófum og grunnra viðhorfa til náms (e.shallow approach to learning).
Í dag er heimurinn gjörólíkur því sem hann var og eru þarfir samfélagsins allt aðrar. Við erum ekki lengur aðeins að þjálfa fólk sem mun starfa í okkar samfélagi heldur einnig í alþjóðasamfélagi. Með stöðluðum prófum eins og PISA og þar með að líta á menntun útfrá þröngu sjónarhorni, eru allar þjóðir að kenna það sama. Fyrir vikið verða allir eins, svipað og í verksmiðjunum. Einfalt er, á tímum alþjóðavæðingar, að flytja störf út til einhvers sem getur gert það jafn hratt og vel, fyrir minni pening. Mikilvægustu störfin í dag eru því í skapandi greinum og iðngreinum og er mikil eftirspurn eftir starfsfólki sem getur eitthvað annað, hugsað öðruvísi og hefur fengið að rækta hæfileika sína.
Andrea Schleicher (2010) sagði eitt sinn: „Skólar verða að undirbúa nemendur undir störf sem er ekki er búið að finna upp, að nota tækni sem hefur ekki verið uppgötvuð og leysa vandamál sem hafa ekki komið upp”.
Hin hefðbundna sýn á menntun gæti hafa virkað einu sinni, en í dag er það mjög vægt til orða tekið að segja að kerfið sé bilað. Sú vegferð að búa til alþjóðlega staðla er einfaldlega til þess fallin að bæta úrelt kerfi. Niðurstöðurnar eru einmitt öfugar við þá hæfileika sem eru eftirsóttir í dag, hæfileika sem eru að mestu stjórnaðir af hægra heilahvelinu og fáir hafa. Daniel Pink (2005) hefur bent á að þessir hæfileikar séu sköpun, að segja sögur, samhygð, að geta leikið sér, búið til merkingar og setja hluti í samhengi. (e.design, story, symphony, empathy, play, and meaning).
Besta menntunin snýst um að leysa vandamál, raunveruleg verkefni og spyrja spurninga í staðinn fyrir að muna og endurtaka einangraðar staðreyndir. Árangur á fullorðinsaldri er mun meira tengdur skapandi hugsun einstaklings (e.Creativity) heldur en greindarvísitölu hans (heimild). Skólar ættu að meta nám útfrá mun víðara sjónarhorni en stöðluðum prófum og þurfum við fólk með ólíka hæfileika en ekki einungis samræmda þekkingu. Ég velti fyrir mér hvernig skólastarf myndi breytast ef samræmd próf mældu ekki aðeins stærðfræði, náttúrufræði og íslensku heldur samhygð, skapandi-og gagnrýna hugsun og samskipti. Er það slíkt próf sem þarf til þess að breyta áherslunum?
—–
Vissulega má benda á fleiri atriði sem eru úrelt. Það hefur verið frábært að sjá viðbrögð og áhuga fólks á þessari greinaröð undanfarna viku. Ef þú hefur hugmynd eða ábendingu um atriðin 21 skaltu ekki hika við að hafa samband.
Áfram kennarar og starfsfólk skóla, foreldrar og nemendur og haldið áfram að vinna ótrúlegt starf á hverjum degi.
Ingvi Hrannar Ómarsson
Grunnskólakennari og nemi í Frumkvöðlafræði við Háskólann í Lundi, Svíþjóð og áhugamaður um menntamál, tækni og skóla framtíðarinnar.
www.ingvihrannar.com
Follow @IngviOmarsson
Follow @IngviHrannar