7 atriði um skóla og skipulag sem eru úrelt í skóla 21.aldarinnar

Ég hef tekið saman 21 atriði sem ættu að vera horfin og eru nú þegar úrelt í grunnskóla 21. aldarinnar og birti ég fyrstu 7 atriðin á sunnudaginn síðasta. Atriði 1-7 snéru að tækni, þessi 7  (nr.8-14) eru um skólann og skipulag og atriði 15-21 eru um nám og kennslu. Ég vona að þetta skapi líflegar umræður um skóla og menntamál, veki athygli á því sem auðveldlega væri hægt að breyta og fá skólafólk um allt land til þess að íhuga starf sitt, starfsumhverfi, aðstæður, það kerfi sem við störfum í og hvað við getum gert til að breyta því.

„Þetta hefur alltaf verið svona” eru ekki gild rök fyrir því að við gerum það svoleiðis áfram. Við þurfum betri rök en það. Kennarar og skólastjórnendur um allt land eru að gera frábæra hluti við oft á tíðum erfiðar aðstæður, en sumt sem enn er verið að gera og nota, þrátt fyrir nýjar lausnir, rannsóknir og hugmyndir, er ótrúlegt.

Kerfið sem við störfum í þarfnast ekki endurbóta heldur endurskoðunar frá grunni.

8. Gangar

hallway

Heilmikið pláss í hverjum skóla er notað í ganga sem aðeins eru notaðir í örfáar mínútur á dag. Vanalega eru þeir troðfullir í 10 mínútur og galtómir í 40-80 mínútur.

Ef skólar væru hannaðir í kringum sameiginlegt námssvæði (svæði eins og bókasafn 21.aldarinnar, sem verður nánar rætt í atriðum 15-21) væri hægt að sleppa göngum, allavega fækka þeim. Beinir gangar með örvum hvorum megin nemendur mega ganga eru úreltir og vannýtt svæði en samt eru nýir skólar byggðir með þá í huga.
Ef þú ert með gang hjá þinni stofu skaltu ekki hika við að nota hann sem óformlegt námsumhverfi og stækka þar með stofuna, þangað til skólarnir verða betur hannaðir án þeirra.

9. Foreldraviðtöl í 15 mínútur 2x á ári.

dv1940034

Sú hugmynd að það nægi foreldrum að koma í foreldraviðtal í 15 mínútur fyrir áramót og 15 mínútur eftir áramót til þess að taka við einkunnarblaði og taka í höndina á kennaranum er úrelt.

Foreldrar eiga að vera stór hluti af skólastarfinu og koma reglulega í kennslustundir. Til þess að það sé hægt er ekki nóg fyrir kennara að segja á skólasetningunni: ,,…og svo eru foreldarar alltaf velkomnir” og gefa þeim svo aldrei raunverulegt tækifæri til þess að koma í skólann. Til dæmis er hægt að auka þátttöku foreldra með opnari dögum þar sem foreldrar fá boð frá skólanum einu sinni í mánuði um að koma á ákveðnum degi þegar þeim hentar en einnig með því að fylgjast með starfinu í gegnum bekkjarblogg, Twitter frá bekknum og fleira (atriði 6 og 7 í síðustu færslu).

10. Óhollur mötuneytismatur

UnhealthySchoolLunch_SM_large

Mötuneyti sem líta út og starfa nánast eins og skyndibitastaðir þar sem börn og starfsfólk fá ódýran og oft óhollan, fljótlegan og/eða aðkeyptan mat er úrelt.

Nokkrir skólar, sérstaklega leikskólar, á Íslandi hafa farið í lífrænt fæði og hugsað meira um innihald matarins heldur en kostnað til skamms tíma. Sjálfur heimsótti ég skóla í Vellinge í Svíþjóð þar sem 90% af matnum var lífrænn. Í skólum eiga börn að skammta sjálf á diskinn sinn og þrífa eftir sig, jafvel vaska upp eða setja í vélina ekki vegna þess að það sparar vinnuafl í skólanum heldur vegna þess að það er hluti af uppeldi, umgengni og ábyrgð. Þar að auki ættu allir skólar að rækta sitt eigið grænmeti sem nemendur vökva og læra um sem verkefni í náttúru-og heimilisfræði. Best væri að smíða gróðurhús hjá skólanum en ef það er ekki hægt er tilvalið að setja upp nokkuð sem svipar til “windowfarm” í einhverjum gluggum skólans.
4-column_1
Markmið með hollum mat innan skólans er ekki einungis að gefa börnum góða næringu til þess að takast á við verkefni dagsins heldur einnig til þess að venja þau á hollt mataræði og að hugsa um hvað þau borða, eitthvað sem mun nýtast þeim allt lífið.

11. Deginum skipt í 40 mínútna lotur og einangruð fög.

timetable_fin

Þó við þurfum að fylgja áætlun er það úrelt hugmynd að tengja ekki námsgreinar og skipta þess í stað öllum deginum niður í 40 mínútna lotur. Það er gert til þess að henta kerfinu og þannig er lífið ekki því ef þú ert að gera eitthvað sem þú hefur áhuga á gleymir þú oft stað og stund. Lífið fyrir utan skólann er ekki þannig og starf innan skólans á ekki að vera þannig heldur.

Við ættum að auka val (atriði 17 í næstu færslu sem verður birt á laugardaginn) og leyfa börnum að móta sín eigin verkefni (sjá t.d. Genius Hour), jafnvel stundarskrá og bera ábyrgð á eigin námi… allavega í pínu stund á viku til að byrja með.

12. Steinsteyptar og “kaldar” skólalóðir

sheds

Skóli sem sendir alla sína nemendur í frímínútur á fyrirfram ákveðnum tíma á skólalóð sem hefur lítið af leiktækjum og afþreyingu fyrir börn er úreltur. Slíkur sparnaðar hverfur fljótt í kostnaði við aukna gæslu. Ekki furða að það koma upp mörg vandamál í frímínútum á slíkum skólalóðum.

Það þarf að kenna börnum leiki (sjá m.a. Vinaliðaverkefni í Árskóla og myndband hér) og gera frímínútur ekki bara að tíma svo kennarar geti fengið sér kaffi heldur tíma sem nýtist börnum til hins ítraðsta við að efla félags- og hreyfiþroska sinn, samskipti við hvort annað og umhverfið.

13. Sameiginleg salerni og sturtuklefar

public-bathroom-ideas_1jpg

Þeir skólar sem eru hannaðir með stórum salernum og búningsklefar með sameiginlegum sturtum eru ekki byggðir með nemendur (sérstaklega unglinga) í huga. Ég hef heyrt um nemendur sem forðast klósettferðir í skólanum og sturtuferðir eftir íþróttatíma eða sund af ótta við ofbeldi, stríðni eða einelt og eiga salernin því að vera fyrir einstaklinga og sturturnar einnig. Það leysir ekki eineltisvandamál eitt og sér en það kemur í veg fyrir ýmsar uppákomur.

14. Skóli sem byrjar klukkan 8.10 hjá unglingum.

Sleeping_boy_at_desk_with_books

Rannsóknir hafa sýnt aftur og aftur að unglingar standa sig betur og líður betur í skólum sem byrjar seinna en oft eru það þarfir foreldra, skólans og frístundastarfs sem halda aftur af þeirri breytingu. Rannsóknir (m.a. úr The Journal of Developmental & Behavioral Pediatrics) sýna ennfremur fram á að seinkun um 50 mínútur (og lenging skóla um 30 mín. í staðinn) hefur jákvæð áhrif á nám nemenda og þátttöku í tómstundastarfi.

Það er einfalt að seinka skólabyrjun hjá unglingum til þess að mæta þessum þörfum. Kennarar gætu nýtt tímann um morguninn til undirbúnings kennslu.

—–

Það eru vissulega mun fleiri atriði en þessi 7 sem mætti breyta varðandi skólann og skipulag og eru atriðin hér flóknari í framkvæmd en fyrstu 7 sem ég benti á (varðandi tæknina) en nokkrum væri hægt að breyta á næstu dögum. Ef þú hefur hugmynd eða ábendingu ekki hika við að hafa samband.

Áfram kennarar og starfsfólk skóla og haldið áfram að vinna ótrúlegt starf á hverjum degi.

Ingvi Hrannar Ómarsson
Grunnskólakennari og nemi í Frumkvöðlafræði við Háskólann í Lundi, Svíþjóð og áhugamaður um menntamál, tækni og skóla framtíðarinnar.
www.ingvihrannar.com


Ingvi Hrannar Ómarsson

Creator | Educator | Designer | Everything I produce is work in progress | Stanford Alumni in Learning, Design & Technology Twitter: @IngviOmarsson / @IngviHrannar

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *