Að vinna eftir markmiðum en ekki námsbókum – gjöf ársins til kennara

Þegar ný Aðalnámskrá grunnskóla kom út með almennan hluta árið 2011 og greinahluta árið 2013 (með uppfærslum 2016) var ljóst að það gat þýtt mikla breytingu fyrir skipulag náms og kennslu kennarar áttu nú að vinna með hæfni nemenda. Þó námskráin sé frábær þróun á skólastarfi fylgdi þó lítið með henni, hvorki fjármagn né tól til þess að vinna eftir henni. Eins og ég sagði frá í bloggi í janúar, mars og apríl þá er ég að vinna nú í mánuð með hverjum árgangi og aðstoða kennara að færa sig í átt að markmiðum og breyttum kennsluháttum í takt við Aðalnámskrá grunnskóla (ANG). Eitt fyrsta verk okkar er að skoða markmið námskrár en ekki hvaða kafli er næstur í kennslubókinni. Almennt stýra bækur skólastarfi of mikið. Þú sérð það þegar þú skoðar kennsluáætlanir þar sem í viku 1 er kenndur kafli 1, vika 2 er kafli 2 og svo framvegis og markmiðin skoðuð í lok annar þegar það kemur að námsmati.
Það veldur kennurum vandræðum þegar þeir ákveða að kenna eftir bók en ekki markmiðum ANG (sem þeir eiga svo að meta eftir).
Til þess að gefa kennurum betri yfirsýn yfir markmið ANG og hvernig þeim gengur að útbúa verkefni til þess að mæta þeim markmiðum útbjó ég Sheets/Excel skjal og deildi með kennurum sem þeir geta notað sem vinnuskjal yfir skólaárið í hverju fagi árgangsins.
Sjá dæmi um notkun á skjalinu, við markmið í íslensku á miðstigi grunnskóla.
Hér að ofan er skjáskot af skjali fyrir miðstig. Neðst eru síðan flipar fyrir hvert fag þannig að allir kennarar sem koma að árganginum geta notast við sama skjalið (ef þið eruð með Google for Education í skólanum). Hugsun mín með þessari útfærslu og hugmynd var að gefa kennurum tól til þess að útbúa verkefni í takt við markmið ANG en einnig að fylgjast með því hve oft viðmiðið hefur komið við sögu í faginu yfir skólaárið. Hver árgangur getur síðan búið til afrit fyrir sig, endurnefnt og unnið með. Skjalið er þannig að kennari setur inn verkefni í dálkana efst og tölu á bilinu 1-3 eftir því hve mikilvægt/umfangsmikið hæfnin er í verkefninu. 1=Lítið 2=Meðal 3=Aðalatriði. Skjalið reiknar svo hve mikið (dálkur B) þetta hæfniviðmið er komið með og gefur því kennara yfirsýn yfir það hve oft viðmiðið hefur komið við sögu í verkefnum Ég ætla að gefa öllum grunnskólakennurum á Íslandi þessi skjöl sem ég hef verið að vinna því ég vona að það nýtist mun fleirum til þess að færa nám og kennslu nær hæfni en ekki kennslubókum. Þetta eru skjölin sem hefðu átt að fylgja nýrri Aðalnámskrá…
Hér að neðan getur þú sótt skjal fyrir þig/skólann þinn í Google Sheets eða Excel.
Þú getur sótt skjölin með því að smella á hlekkina hér að neðan (Google Sheets): …eða sótt þér Excel útgáfur hér: Ég vona að þessi gjöf nýtist kennurum og nemendum um allt land og gefi kennurum betri yfirsýn yfir markmið ANG, hvernig gengur að ná þeim og hvort þeir séu að útbúa verkefni sem miða að því að vinna með þessa hæfni/færni. Ég vona að kennarar horfi á markmiðin fyrst og finni svo verkefni og kennsluefni, hvort sem það er í bók, neti eða með því að taka viðtal við annað fólk. Eigið frábært skólaár og hafið samband ef eitthvað er óljóst eða eitthvað sem þarf að laga. Uppfært 30 ágúst 2019: Eftir margar spurningar um nánari útskýringar, þá bjó ég til myndband fyrir kennara sem útskýrir hvernig ég hugsa skjalið og hvernig ég myndi nota það í kennslu með t.d. 4.bekk: Skjöl fyrir hæfniviðmið og markmið – útskýring á notkun fyrir kennara https://vimeo.com/356934459 Ingvi Hrannar, kennsluráðgjafi í skólaþróun, nýsköpun og upplýsingatækni.
Ingvi Hrannar Ómarsson

Creator | Educator | Designer | Everything I produce is work in progress | Stanford Alumni in Learning, Design & Technology Twitter: @IngviOmarsson / @IngviHrannar

1 Comment

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *