Out Of Our Minds: Learning to be Creative – Sir Ken Robinson

Kynning á höfundi og viðfangsefni
Ég hef ákveðið að fjalla um bókina Out of our minds: learning to be creative eftir Sir Ken Robinson.
Bókin er í stuttu máli um mikilvægi skapandi hugsunar hjá öllum og mikilvægi þess að ýta undir skapandi hugsun í skólanum, því það veganesti sem við þurfum fyrir lífið nú er ekki það sama og við þurftum fyrir 100 árum.
Sir Ken Robinson fæddist í Liverpool þann 4.mars 1950. Hann er giftur Therese Robinson og eiga þau saman tvö börn, James og Kate, og býr fjölskyldan í Los Angeles, Kaliforníu í Bandaríkjunum.
Árið 1981 hlaut Sir Ken doktorsgráðu sína frá Háskólanum í London. Frá 1985-1989 var hann stjórnandi „The Arts in schools project“ sem var verkefni sem breska ríkisstjórnin setti af stað til þess að bæta listgreinakennslu í breskum skólum.
Hann var prófessor við Háskólann í Warwick í 12 ár, eða þangað til árið 2001, og hefur hlotið margs konar heiðursgráður frá háskólum um allan heim. Sir Ken Robinson var aðlaðaður af Elísabetu II Englandsdrottningu árið 2003 fyrir framúrskarandi árangur sem rithöfundur, fyrirlesari og sem frumkvöðull í mikilvægi skapandi hugsunar í heiminum.
Hann er þekktur sem frumkvöðull í þróun nýmyndunar og sköpunar og eftirsóttur fyrirlesari um þau skapandi tækifæri sem fyrirtæki og skólar standa frammi fyrir í hinum síbreytilega heimi.
Out of our minds var fyrst gefin út árið 2001 og hefur fengið góða dóma. Bókinni er skipt í sjö kafla og er bókin 226 blaðsíður í heild.
Aðalatriði bókarinnar
Eins og áður sagði er bókinni skipt í sjö kafla auk stuttrar kynningar í upphafi og mun ég fara í aðalatriði hvers og eins.
Orðið Creativity er notað margoft í bókinni og mun ég þýða það sem skapandi hugsun eða sköpunargáfa eftir því hvort eigi við hverju sinni.
Kynning
Að vera kennari er erfitt og vandasamt verk því heimurinn er síbreytilegur og hefur breyst hratt á síðustu 100 árum. Börn sem útskrifast úr grunnskóla 2010 munu væntanlega hætta að vinna í kringum árið 2060. Við vitum ekki hvernig heimurinn verður eftir 5 ár, hvað þá 50 ár, og samt eigum við að undirbúa nemendur fyrir hann.
Á næstu 30 árum munu fleiri útskrifast úr skóla en samanlagt öll árin þar á undan. En þó svona margir útskrifist vantar samt fólk sem er gott í samskiptum, getur unnið vel í teymum og hefur skapandi hugsun. Skólar leyfa nemendum oft ekki að njóta sín í því sem þau eru góð. Margt fólk uppgötvar ekki hæfileikana sína og fer í gegnum skólakerfið án þess að verða fyrir áhrifum eða fá að njóta sín. Það finnst það oft vera misheppnað og er hrætt við að gera mistök og telur sig jafnvel vera vitlaust. Þau fá ekki að nýta sína hæfileika í skólanum, hæfileika eins og leiklist, tónlist, dans og myndlist.
Börn eiga að fá menntun sem gefur þeim færi á að þroska hæfileika sína og tækifæri til þess að kljást við viðfangsefni sem þeim finnst áhugaverð.
Kafli 1 – Bursting the banks
Ríkisstjórnir og menntastofnanir halda oft að besta leiðin til þess að undirbúa okkur fyrir framtíðina sé að gera meira af því sem við gerðum áður, bara hækka viðmiðin. Það er í raun ekki lausnin heldur vandamálið í sjálfu sér. Fyrirtæki velta fyrir sér af hverju skólar séu ekki að „búa til” einstaklinga sem hafa þá eiginleika sem fyrirtæki vilja sjá í sínu starfsfólki. Fyrirtæki og stofnanir vilja ráða fólk sem hefur: ímyndunarafl, skapandi hugsun, hæfileika í mannlegum samskiptum og að vinna í teymum og hefur trú á sjálfu sér.
Í mörg ár og áratugi hefur ungu fólki verið stýrt frá því að velja eða gera eitthvað með þeim rökum að þau eigi aldrei eftir að fá vinnu við það. Skólarnir skipta greinunum vanalega í tvo flokka sem metið er eftir notagildi og öðrum hópnum gert hærra undir höfði. Stærðfræði, tungumál og vísindagreinar eru nothæfar en listir, tónlist og leiklist eru ónothæfar. Sem dæmi um það var höfundur bókarinnar 14 ára þegar hann var kallaður til yfirkennarans sem tjáði honum að það væri vandamál með valgreinarnar hans. Hann valdi þýsku og listgreinar og hann gæti ekki farið í það bæði því það stangaðist á í stundartöflunni. Þá spurði hann yfirkennarann hvað hann ætti að velja og hann svaraði: „Þýsku, því það nýtist þér betur”.
Þetta er algengt viðhorf og í raun gömul hugsun sem kom upp í kjölfar iðnbyltingarinnar. Skólar þurftu að „framleiða“ fólk sem gat verið í þeim störfum sem þá voru í boði. Þetta á ekki við lengur því nú eru störfin mun fjölbreyttari og ólíklegt að fólk sé aðeins í einni starfsgrein alla sína ævi. Nú er heimurinn alltaf að minnka í vissum skilningi og getur fólk nú starfað langt frá heimili sínu, jafnvel í öðru landi með hjálp internetsins og betri samgangna. Samkvæmt rannsóknum ferðaðist fólk að meðaltali 8 kílómetra á dag árið 1950, 50 kílómetra árið 2000 og talið er að það muni ferðast að meðaltali tæplega 100 kílómetrar á dag árið 2020.
Verðbólga menntunar (e. academic inflation) er eitthvað sem við erum að sjá nú. Hugsunin virðist vera að með því að allir hafi doktorsgráðu hafi allir starf og atvinnuleysi verði ekki til lengur. En það er ekki svoleiðis því markaðurinn breytist eins og allur markaður eftir framboði og eftirspurn.
Áður fyrr var það þannig að ef þú varst með háskólagráðu, þá hafðir þú starf. Núna er það ekki öruggt, því gráðan er bara byrjunarreitur vegna þess hve margir eru komnir með gráðu. Mastergráðu þarf nú í störf þar sem Bachelorgráða dugði áður og nú þarf Doktorsgráðu þar sem Mastersgráða dugði eitt sinn. Þetta er svokölluð verðbólga menntunar. Því gráður og skírteini eru gjaldmiðill á vissan hátt, við notum það til þess að fá starf eða til þess að geta fengið meiri menntun og eins og allir gjaldmiðlar fer virði þeirra upp og niður.
Kafli 2 – The septic focus
Eitt af stóru vandamálunum sem við stöndum frammi fyrir er að fólk ruglar saman námshæfileikum (e. academic ability) og greind (e. intelligence). Námshæfileikar segja í raun hversu mikla hæfileika þú hefur munnlega og rökfræðilega. Þessir hæfileikar eru mikilvægir en langt í frá að þeir séu þeir einu sem fólk þarf til þess að geta talist greint. Ef námshæfileikar væru það eina sem við leggðum áherslu á væri ekkert til sem héti hagnýt tækni, listir, tónlist, leiklist, dans, hönnun, arkitektúr, tilfinningar og ást. Námshæfileikar eru þó góðir á vissan hátt en eiga alls ekki að vera það sem allt skólakerfið okkar byggist á. Það gerir hærra undir höfði margra greina og lítið úr öðrum sem ekki eru taldar jafn mikilvægar, greinar sem eru mikilvægari og mikilvægari með hverjum deginum.
Áhersla okkar á iðnvæðinguna og hið bóklega (e. academicism) hefur haft með sér miklar afleiðingar, bæði góðar og slæmar:
- Góðar:
- Ótrúlegar framfarir í læknavísindur og lyfjafræði sem hefur lengt lífslíkur og gæði lífs.
- Framfarir í tækni.
- Mun þægilegra að ferðast og auðveldara að eiga samskipti við fólk í gegnum netið og síma.
- Ótrúlegur skilningur á alheiminum.
- Slæmar:
- Uppskipting (e. division) á listum og vísindum.
- Þrengri sýn á hugtakið greind, sem sýnir sig í því að sá sem skrifar um listaverk er oft talin greindari en sá sem gerði listaverkið sjálft. Að spila tónlist, mála myndir, semja ljóð, leika og svo framvegis er oftast ekki tengt við námshæfileika.
Kafli 3 – Knowing your mind
Fólk spyr stundum spurningarinnar: „Hver er greindarvísitalan þín?“. En í raun ætti spurningin frekar að vera: „Hvernig ertu greindur?“ eða „á hvað sviði ertu greindur?“. Sumir eru góðir að rökræða, aðrir í stærðfræði, enn aðrir skilja tónlist betur og svo er til fólk sem er gott að hanna og búa til hluti svo dæmi séu nefnd.
Rannsóknir sýna fram á það að frá fæðingu er heilinn að þroskast gríðarlega og er mjög móttækilegur fyrir nýjum hlutum. Börn læra það sem fyrir þeim er haft. Sem dæmi um það eru mörg ung börn sem búa hjá Suður-Kyrrahafi góð í kafsundi og þroska hæfileika sína með því að synda eftir perlum sem er mikilvægur hluti í lífi þeirra og snýst oft á tíðum um afkomu fjölskyldunnar. Það er ekki að búast við því að mörg börn í New York eða Texas séu frábær í kafsundi því ytri aðstæður kalla líklega ekki á þá hæfileika. Heilinn gerir óvirkar þær stöðvar sem ekki eru notaðar og virkjar hinar.
Howard Gardner segir greind vera hæfileikann til þess að leysa vandamál í gefnu samhengi. Gardner segir að við höfum öll fjölgreindir og erum mis góð í hverri greind. Sumt fólk er samt sem áður greindara en annað, þ.e. það hefur mikla hæfileika í mörgum greindum, t.d. í tónlist, stærðfræði, rökfræði og svo framvegis. Miklir hæfileikar í einni greind þýða ekki endilega miklir hæfileikar í annarri. Stærðfræðingur er ekki endilega góður málari né að gott ljóðskáld sé líklegt til að vera hæfileikaríkt í dansi.
Það er algengur misskilningur að námshæfileikar séu mikilvægari en aðrir hæfileikar og fyrir vikið er mikið af fólki sem veit ekki hversu klárt það er í raun og veru.
Kafli 4 – Being creative
Það er algengur misskilningur að skapandi vinna fari aðeins fram í sumum greinum, sérstaklega listgreinum. Skapandi hugsun kemur fyrir í alls kyns vinnu og geta allir verið skapandi í sínu starfi.
Það er oft sagt að það sé ekki hægt að kenna skapandi hugsun þetta kemur frá þeirri hugmynd að sumt fólk sé skapandi en flestir séu það ekki og að sköpunargáfa sé eitthvað sem fáir fæðist með, en þessi hugmynd er alröng.
Picasso sagði eitt sinn:
„Öll börn fæðast sem listamenn, vandamálið er að halda áfram að vera listamaður þegar þú eldist.“
Hvað er þá skapandi hugsun?
- Kraftur ímyndunaraflsins: Við getum ímyndað okkur hluti, aðstæður og tilfinningar, hvort sem við höfum séð það/lent í því eða ekki.
- Að vera einstakur (e. original): Að vera skapandi þýðir að koma með nýjar hugmyndir. En það þýðir ekki að einhverjum hafi aldrei dottið það í hug áður heldur er það líka skapandi hugsun ef einstaklingur finnur nýja leið til þess að láta eitthvað nýtast einstaklingi, samfélagi eða heiminum.
- Gildi: Skapandi hugmyndir eru meira en að gera eitthvað nýtt, þær verða að hafa gildi. Að segja að einhver sé skapandi þýðir það að viðkomandi hafi gert eitthvað sem hafi gildi og að það nýtist.
„Creativity is an imaginative process with outcomes that are original and of value.“ -Sir Ken Robinson
Margir einstaklingar halda að þeir séu ekki skapandi einstaklingar, en það er vegna þess að þau hafa ekki fundið sinn rétta miðil (e. medium). Að finna rétta miðilinn er mjög mikilvægur þáttur í lífi hvers einstaklings. Það getur verið hljóðfæri, blýantur, skrif, talva eða hvað sem er sem sýnir sköpunargáfu viðkomandi og þá nýtur hann sín til fulls.
Sköpunargáfunni getur verið ýtt niður af röngum miðli. Sir Ken Robinson vann með konu sem ritstýrði bók hans fyrir nokkrum árum. Hún var að hans sögn frábær í því sem hún gerði en hann gleymir aldrei sögunni sem hún sagði honum um af hverju hún byrjaði að fást við bækur. Það gerðist ekki fyrr en hún var komin vel á fimmtugsaldurinn. Fyrir þann tíma hafði hún verið píanóleikari en eftir eina tónleikana fór hún út að borða með tónlistarstjóra í London. Hann þakkaði henni fyrir tónleikana og hrósaði en spurði hana svo: „Þú hafðir ekki gaman af þessu, var það nokkuð?“. Henni brá töluvert, því það hafði ekki hvarlað að henni fyrr. Hún viðurkenndi það að hún hefði ekki haft neitt gaman af þessu, og hefði í raun aldrei gert það. „Af hverju ertu þá að þessu?“ spurði hann. Hún sagði það vera af því að hún væri góð í þessu og að hún hefði verið fædd inn í mikla tónlistarfjölskyldu. Fór hún því að læra á píanó ung, hélt áfram því hún hafði hæfileika og gerði þetta af atvinnu fyrir vikið. Enginn hafði spurt hana áður hvort hún hefði áhuga á þessu eða vildi gera þetta yfir höfuð. Hún var bara góð í þessu og því var þetta aldrei spurning. Tónlistarstjórinn sagði þá: „Þó þú sért góð í einhverju er það ekki næg ástæða til þess að eyða öllu lífinu í það.“ Hún tók nokkrar vikur í að hugsa málið og komst að loks að þeirri niðurstöðu að hann hefði rétt fyrir sér. Hún kláraði tónleikaferðina, lokaði píanóinu og snéri sér að bókum, þeim miðli sem hún hafði virkilega gaman af.
Kafli 5 – Feeling better
Sköpunargáfa er ekki eitthvað sem sumir hafa en flestir ekki. Hana má finna á öllum sviðum lifsins og getur átt upptök sín í öllum greindum mannsins. Sköpun kemur af innsæi og tilfinningu en líka þekkingu og hæfileikum.
Daniel Goleman talar um tilfinningagreindina og sýna rannsóknir hans að ný kynslóð sé andlega verr stöddar en kynslóðin sem kom á undan henni. Hún sé meira einmanna og þunglyndari, reiðari, stressaðri, áhyggjufyllri, árásargjarnari og hvatvísari.
Á síðastliðnum árum hefur sú þörf að þróa hæfileikann til að skilja, sýna og nota tilfinningar og innsæið verið viðurkennd víða. Goleman segir að fólk með þá hæfileika sé tilfinningagreint. Tilfinningagreint fólk stjórnar sér sjálft (e. self-directed), er frábært í samskiptum og fullt af innblæstri. Til að verða farsæl þarf frumleika, en ekki eingöngu. Það snýst um persónulega hæfileika, að geta verið innan um fólk, að geta tjáð sjálfan sig og fylgt sífellt breytilegu samfélagi okkar og þess vegna er tilfinningagreint fólk líklegt til þess að lenda efst í okkar samfélagi.
En það er vandamál sem hindrar það að fólk geti orðið mjög tilfinningagreint. Börn nú til dags eru ekki eins mikið með öðrum börnum og áður fyrr. Þau eyða miklum tíma fyrir framan sjónvarp og tölvu en ekki úti á leikvellinum að leika við önnur börn. Fyrir vikið missa þau af mikilvægri lífsleikni (e. life-skills) eins og að leysa deilur og stjórna reiði sinni. Það er lítil sem engin áhersla á að börn læri að stjórna reiðinni, tala við aðra, hlusta, sýna tilfinningar og tengjast öðru fólki í skólunum okkar í dag heldur er meiri áhersla lögð á greinar sem nýtast landinu betur hagfræðilega.
Kafli 6 – You are not alone
Í heiminum í dag er mikil fjölgun sérfræðinga, þ.e. fólki sem veit mikið um lítið. Það er mikilvægt að þessir sérfræðingar fái að ræða saman því bestu hugmyndirnar koma einmitt þegar fólk úr mismunandi áttum með mismunandi bakgrunn kemur saman og ræðir hugmyndir.
Það er algengur misskilningur að skapandi fólk fái hugmyndir sínar algerlega upp úr þurru. Við fáum ekki skapandi hugmyndir í tómarúmi. Þær koma frá vinnu, hugmyndum og afrekum annarra sem við tengjum við reynslu og hugmyndir okkar og stöndum þannig í raun á öxlum annarra til þess að sjá lengra.
Kafli 7 – Balancing the books
Í þessum kafla er talað um fyrirtæki en ég tel að orðinu fyrirtæki geti verið skipt út í mörgum tilvikum fyrir orðið skólar og starfsfólk geti verið skipt út fyrir orðið nemendur þar sem það á við ef lesandinn vill lesa kaflann frá sjónarmiði skólamála og geta þannig notað hugmyndirnar í skólum.
Hvað geta fyrirtæki gert til þess að ýta undir sköpun og nýmyndun (e. innovation) hvers og eins:
- Greina á kerfisbundinn hátt hvert sköpunar- og hæfileikasvið hvers og eins sé.
- Skapa aðstæður þar sem sköpun geti orðið til.
- Setja skapandi lausnir sem lykilmarkmið í félaginu og nota þær góðu hugmyndir sem koma.
Það á að ýta undir það að fólk skiptist á skoðunum, velta fyrir sér og taka áhættur. Ein leið til þess er að minnka múranna á milli deilda í fyrirtækinu og minnka „pýramídanna“ svokölluðu (e. hierarchi). Hægt er að draga úr skapandi hugmyndum í fyrirtæki ef „pýramídinn” er of hár. Þá telur fólk að hugmyndir þeirra muni aldrei ná á toppinn í fyrirtækinu og verða að veruleika.
Það á að ýta undir flæði og hugmyndir og starfsfólki á að vera ljóst að hugmyndir þeirra eru vel þegnar, virtar og notaðar.
Fyrirtæki sem ætlar sér að vera framsækið og ýta undir skapandi hugsun verður að vera staður sem:
- Gefur starfsfólki tækifæri og aðstæður til þess að taka áhættur.
- Leyfir starfsfólki að uppgötva og þróa þeirra eigin náttúrulegu greindir.
- Það eru engar „heimskar” spurningar eða „rétt” svör.
- Hvetur til þess óvænta, metur kraft starfsfólksins og vill að það sé líflegt.
Skapandi umhverfi gefur fólki færi á að prófa sig áfram, hafa rangt fyrir sér, reyna aftur, spyrja spurninga, leika sér og tengja saman mismunandi hugmyndir. Nánast allar skapandi hugmyndir koma eftir það að fólk var að leika sér og prófa hluti. Stundum virkar þessi tími tilgangslaus en hann er í raun kjarninn í skapandi starfi.
„If you’re not prepared to be wrong, you’ll never come up with anything original“. -Sir Ken Robinson
Sköpun er ein af grunnþörfum þess sem vill tækifæri til þess að þroskast. Frelsi til þess að læra, taka áhættur, spyrja spurninga, halda áfram, mistakast og þroskast er mikilvægt í þessu ferli.
Hugsanlegt hagnýtt gildi bókarinnar í íslenskum skólaveruleika
Ég tel að bókin geti átt vel við íslenskan skólaveruleika. Ég tel hana nauðsynlega lesningu fyrir fólk sem vinnur að námskrárgerð sem og fræðslustjóra, skólastjóra, kennara og foreldra. Hún getur einnig nýst stjórnendum fyrirtækja og stofnanna sem vilja verða framsæknari og fremri á sínu sviði.
Sir Ken Robinson bendir á mörg atriði sem nýta mætti í íslenskum skólum. Mikilvægi þess að hver og einn fái að nýta sína hæfileika og að hver einstaklingur finni sinn sköpunarmiðil. Til þess að hver og einn geri það þurfum við að auka vægi ýmissa greina og auka val í skólanum. Skólar og foreldrar stýra nefnilega, eins og áður sagði, börnum oft frá því að velja það sem þau hafa áhuga á og eru góð í vegna þess að þau telja þau ekki líkleg til þess að fá vinnu á því sviði.
Tengsl hugmynda Sir Ken Robinson við fjölgreindakenningu Gardner og einnig tilfinningagreind Goleman eru mikilvæg hugtök sem foreldrar og menntafrömuðir ættu að skoða betur. Mikilvægi lífsleikninnar í skólanum kemur sem mikilvægur þáttur í þjálfun tilfinningagreindarinnar en fjölgreindirnar og hugmyndirnar um skapandi hugsun eiga að mínu mati að vera miðpunktur alls skólastarfsins.
Í nútímasamfélagi eru kröfurnar allt aðrar en þær voru þegar kennsluhugmyndir og námskrár voru fyrst settar fram í upphafi iðnbyltingarinnar. Þá var verið að undirbúa fólk fyrir vinnu í verksmiðjum en hlutirnir hafa breyst hratt síðan þá og hafa skólarnir að mörgu leyti ekki fylgt með. Við getum ekki mætt kröfum framtíðarinnar með kennsluhugmyndum fortíðarinnar og verðum að stuðla að því að nemendur okkar hafi ímyndunarafl, skapandi hugsun, hæfileika í mannlegum samskiptum, hæfileika til þess að vinna í teymum og trú á sjálfu sér sem veganesti inn í framtíðina.
Mat á bókinni (kostir og gallar)
Í heildina litið sé ég ekki marga galla á bókinni. Mér finnst hún frábær lesning og nauðsynleg fyrir alla þá sem láta sig uppeldi, skólamál eða rekstur fyrirtækja varða og líka fólk sem vill lesa skemmtilega hugvekju.
Helstu gallarnir eru að mínu mati að ekki er gert nægilega vel grein fyrir því hvað myndi gerast ef listgreinum yrði gefið aukið vægi. Hann bendir á kostina við það en tíminn í skólanum er takmarkaður og meiri tími í leiklist, tónlist, dansi og myndmennt yrði til þess að minni tími væri gefinn í öðrum greinum, væntanlega verulega á kostnað tungumálakennslu og stærðfræði. En að mínu mati þarf þó að jafna þetta bil í skólanum verulega en gott væri að heyra hina hliðina á málinu.
Kostirnir við eru hins vegar mun fleiri en gallarnir. Sir Ken Robinson tengir hugmyndir sínar við hugmyndir Gardner og Goleman sem gerir hana að enn áhugaverðari lesningu og gefur aðra vídd á rannsóknir þeirra. Bókin vekur mann til umhugsunar um hvað hlutverk skólans sé og hvort að verið sé að sinna því. En það má ekki gleymast að hlutverk uppalendans er einnig mikilvægt og því er þessi bók einnig frábær fyrir foreldra.
Mikilvægi þess að fólk finni sinn miðil er mikið og skemmtilegt að bent er á það að jafnvel einhver sem var að gera eitthvað sem við teljum skapandi, eins og að spila á píanó, fann það að píanóið var ekki hennar rétti miðill og snéri sér að öðru og segir hann þar að listgreinar henti ekki endilega öllum og því engin töfralausn í skólakerfinu.
Það sem bókin gerir einnig er að víkka skilgreiningu okkar á hugtakinu greind og ef hugmyndir hennar verða nýttar rétt ættu mörg börn, sem ekki eru mjög sterk námslega og þar með ekki talin mjög greind, að blómstra.
Bókin er yfir heildina algerlega frábær og mæli ég eindregið með henni.
Ingvi Hrannar Ómarsson
www.twitter.com/ingvihrannar
———-
Heimildaskrá
Bækur:
Robinson, Ken. 2001. Out Of Our Minds: learning to be creative. Capstone Publishing Limited. Oxford
Heimildir af veraldarvefnum:
Heimasíða Principal Voices. Vefslóð: http://www.principalvoices.com/voices/ken-robinson-bio.html (sótt af vefnum þann 25.nóvember 2009)
Heimasíða Sir Ken Robinson. Vefslóð: http://sirkenrobinson.com/skr/who (sótt af vefnum þann 25.nóvember 2009)
Heimasíða Washington Speakers Bureau. Vefslóð: nciia.org/conf08/assets/RobinsonKen.pdf (sótt af vefnum þann 25.nóvember 2009)