Einstaklingsmiðuð endurmenntun með Twitter

Ég ætla að byrja á því að segja að ég hef yfirgengilegan áhuga á kennslu og kennslufræði. Ég elska starfið mitt sem grunnskólakennari, vinn með yndislegu fólki sem leggur sig fram og gerir sitt allra besta og mér finnst yndislegt að mæta til vinnu á hverjum degi. Mín hugmynd um gott frí er að liggja í sólbaði og lesa fræðigreinar, blogg um menntun, góða bók eða horfa á TED fyrirlestur… og ég hef trú á því að ég sé ekki einn um þetta og ákvað því að skrifa þessa grein. Ég skrifa hana til þess að við sem höfum þennan áhuga á kennslufræði, nýjum leiðum og viljum læra eitthvað nýtt getum talað saman um það sem við höfum áhuga á, þegar okkur hentar, hvort sem við búum fyrir norðan, austan, sunnan, vestan eða jafnvel erlendis.

Við þurfum að breyta endurmenntun kennara!

Mér þykir leitt að segja það en kennarastarfið er oft einangrað og einmannalegt starf þó við séum umvafin fólki nánast allan daginn. Kennarar eru einir í flestum kennslustundum, vinnuaðstaðan er oftast inni í skólastofunni (því þar er tölvan þeirra), matartíminn er oft tekinn með nemendum og mestur tími utan kennslu fer í undirbúning kennslu, upplýsingafundi (þ.e. stigs-, starfsmanna- og teymisfundi) og skráningu á hinu og þessu inná Mentor. Tími kennara til faglegrar umræðu, skoðanaskipta og daglegrar endurmenntunar er nánast enginn í allt of mörgum skólum.

BMrjUJWCQAA5mZ7

Endurmenntunin er oft helgarferðir á sýningar eða skólaheimsóknir úti í löndum, fyrirlestrar í skólanum um málefni sem varðar oft aðeins lítinn hluta starfsfólksins eða námskeið sem allir starfsmenn eru sendir á. Í stuttu máli: Endurmenntun starfsfólks er vanalega ákveðin af skólastjórnendum en ekki starfsfólkinu sjálfu, svokallað “top-down management”. Það er auðveldast fyrir skólastjórnendur að allir (bæði nemendur og starfsmenn) fái bara eins (endur)menntun. Því að það að allir læri það sem þeir vilja þegar þeir vilja kostar tíma, peninga og gríðarlegan undirbúning.

“It’s easier to build strong children than to repair broken men” -Frederick Douglass

Af hverju fór ég að sníða endurmenntunina mína að mínum þörfum?

Á síðasta skólaári var ég að byrja með iPad þróunarverkefni í Árskóla á Sauðárkróki. Ég hafði kynnt mér iPad í kennslu frá því að iPadinn kom út árið 2010, lesið greinar, horft á myndbönd, náð í öpp og prófað og var fyrstur að fara með þá hugmynd til epli.is að fá bekkjarsett að iPad-spjaldtölvum en það var snemma á árinu 2011. Ég nýtti einstaklingsstyrk minn frá KÍ til þess að fara til Burley Elementary School í Chicago,IL. og kynna mér notkun iPad í námi og kennslu. Þegar verkefnið fór loks af stað, haustið 2012, var ég kominn með ákveðna þekkingu og það sem ég vissi ekki prófaði ég mig áfram í (semsagt; klúðraði, googlaði og reyndi aftur þangað til það tókst).

Bekkjarmynd_iPad_3IHO copy

En ég hafði örfáa til þess að ræða við, deila hugmyndum og fá eitthvað “feedback” sem gagnaðist mér beint. Umræður milli starfsfólks innan skóla eru ágætar en skila oft litlu því við erum að vinna í mjög ólíkum hlutum. Það er erfitt að skiptast á hugmyndum þegar aðrir vita ekkert hvað þú ert að gera og skilja hreinlega ekki hvað þú ert að tala um.
-Reyndar eiga Jóhanna Þorvaldsdóttir stuðningsfulltrúi í Árskóla og Ólafur Sólimann hjá epli.is heiður skilið fyrir að aðstoða mig við að leysa vandamálin eftir fremsta megni.

Hvernig breytum við endurmenntun kennara?

Það eru engar töfralausnir til. Ef fólk er ekki tilbúið að læra eitthvað nýtt þá mun það ekki læra eitthvað nýtt. Það er sama hvort þú sendir það á sama námskeiðið ár eftir ár, sendir þeim greinar til að lesa, gefur þeim heilan starfsdag til þess að lesa nýju Aðalnámskrána… ef það vill ekki læra, þá mun það ekki læra. En þessi grein er ekki skrifuð fyrir þau ykkar sem viljið ekki læra (enda ef þú ert einn af þeim ertu ekki kominn svona langt í þessari grein).

Þessi grein er fyrir þau ykkar sem viljið læra, þroskast, deila með öðrum því sem gengur vel og ekki vel. Greinin er fyrir þá sem þora að spyrja spurninga, fyrir okkur sem vitum ekki allt, fyrir þau okkar sem viljum vera betri í okkar starfi og hjálpa öðrum í að verða það líka.
Ég var einn, nánast, þangað til ég kynntist Twitter og fyrir mér opnaðist nýr heimur í faglegri umræðu, gjörbreytti því sem ég geri og kynntist ég fagfólki um allan heim sem er að kljást við sömu vandamál og ég í mínu starfi.

Ég tel að kennarar, skólastjórnendur, náms-og starfsráðgjafar, kennsluráðgjafar og aðrir sem vinna innan menntageirans sem hafa ekki kynnt sér Twitter geri það (sjá leiðbeiningar að neðan). Stóri kosturinn er að mínu mati að aðrir eru ekki að segja þér hvað þú átt að lesa eða hlusta á. Þú ræður því og er því endurmenntunin einstaklingsmiðuð og kemur frá einstaklingnum sjálfum.

Með því að  láta tæki eins og spjaldtölvu eða snjallsíma í hendurnar á starfsfólki, tíma aflögu og stuðning á fyrstu skrefunum geta þau rætt málin og deilt hugmyndum sín á milli jafnvel þó þau hittist ekki í kaffitímum lengur eða vinni í sitthvoru bæjarfélaginu. Meira að segja tölvan í skólastofunni virkar til að “tísta”, ef ekki hefur verið lokað á Twitter í skólanum, eins og sumir skólar hafa lokað á facebook (ég ætla ekki að einu sinni að byrja á því að tala um skoðun mína á því og mun því skrifa annan pistil um það málefni). Það eina sem þarf til þess að nota Twitter er net-tenging því aðgangurinn er frír. Ég mæli líka með Twitter appinu fyrir spjaldtölvur og snjallsíma sem hægt er að ná í úr App Store og Google Play.

Margir hafa heyrst talað um Twitter undanfarin ár, þónokkuð margir íslendingar eru skráðir inná þennan samfélagsvef en svo virðist sem aðeins örfáir íþróttaáhugamenn kunni að nota miðilinn. Margir þeirra sem hafa skráð sig inn og prófað að “tísta” nokkrum sinnum hafa hætt því vegna þess að þeim finnst þeir vera einir og enginn svari þeim. Twitter er mjög vinsælt meðal skólafólks um allan heim, þó sérstaklega í Bandaríkjunum. Skólar, ríki, sveitarfélög og kennarsambönd eyða á hverju ári háum fjárhæðum í endurmenntun. En með tilkomu Twitter geta kennarar, náms-og starfsraðgjafar, skólastjórar og aðrir innan skólakerfisins hins vegar endurmenntað sig með því að fylgjast með því nýjasta sem er að gerast, tekið þátt í umræðum, kynnt sér strauma og stefnur og tengst fagfólki um allan heim á einfaldan hátt ef þeir vilja það. Fólk sem vill verða betra í því sem það er að gera og hefur áhuga á því býr til tíma. Afsakanir eins og “Ég kann ekki” eða “Ég hef ekki tíma” eru ekki gildar afsakanir lengur. Hægt er að tísta þegar þér hentar og lesa greinar, horfa á myndbönd og læra nýja hluti þegar það hentar þér. Byrjum samt á grunnatriðunum…

Hvað er Twitter?

Twitter_Logo_Volt

Twitter er miðill þar sem notendur deila hugmyndum sínum, greinum, vefsíðum, myndum, upplýsingum eða fréttum með 140 stöfum eða minna. Þetta er ódýr og einföld leið til þess að deila og fá upplýsingar hvaðanæva að úr heimunum.

Allir geta skoðað þinn “prófíl” og geta lesið hvað þú skrifar (nema að þú veljir “private”). Notendur fylgja öðrum þeim sem þeir telja að geti gagnast þeim. Þannig er hver aðgangur einstaklingsmiðaður. Þú fylgir þeim sem þú vilt og þeir sem vilja fylgja þér gera það. En stofnum aðgang og komum þér af stað áður en lengra er haldið:

 1. Þú byrjar á því að fara NÚNA á twitter.com og búa til aðgang. Þú býrð til notendanafn og setur inn nafnið þitt og aðrir notendur geta leitað eftir notendanafninu (@) eða nafninu þínu. Skrifaðu svo lykilorðið þitt hjá þér…. ekki gleyma því!
 2. Þú skrifar aðeins um þig og setur inn mynd… enginn tekur einhvern alvarlega sem er með eggið sem prófíl-mynd (þ.e. myndin sem allir byrja með).
 3. Þú leitar að fólki til þess að fylgja. Hérna er listi frá edudemic um fólk innan fræðslugeirans sem gott er að fylgja: http://www.edudemic.com/2012/10/worldwide-education-twitter/ og ekki gleyma @ingvihrannar @margretba og @hannavalda (við erum geggjað góð sko…)
 4. Þú fylgist með og skoðar það sem vekur áhuga þinn og lærir inná þetta hægt og rólega.
 5. ….og ferð svo að prófa þig áfram.
 6. Síðan kíkir þú aftur á þennan pistil og skilur vonandi aðeins meira í honum.
 7. Ekki láta það koma þér á óvart þó þú skiljir þetta ekki alveg fyrst og sjáir ekki strax hvers vegna þú ert að þessu…. ég lofa því að ef þú hefur lesið svona langt í þessum pistli þá hefur þú áhugann sem þarf til þess að ná tökunum á Twitter. Atriði númer eitt er að hræðast ekki mistök og gefa sér tíma í að skilja þetta. Það tók mig nokkra mánuði að fatta þetta.

Twitter_fyrir byrjendur

Mikilvægt að vita: Á Twitter eru nokkur orð sem notendur þurfa að kannast við til þess að skilja hvernig Twitter-samfélagið virkar, hvað fólk er að skrifa og hvers vegna. Það að skilja eftirfarandi orð gerir þín tíst betri og líklegri til þess að rata til réttra einstaklinga.

 • Tweet/Tíst: 140 stafa skilaboð
 • Retweet (RT): Að endurtísta skilaboð frá öðrum notanda þannig að þínir fylgjendur sjái það.
 • Feed: Öll nýjustu tístin frá þeim sem þú fylgir.
 • Handle: Notendanafnið þitt og er merkt með @ merki (t.d. @ingvihrannar)
 • Mention (@): Þegar einhver nefnir þitt nafn í tísti notar hann @ á undan notendanafninu til þess að benda á þig eða senda viðkomandi tíst.
  • T.d.: @margretba Gaman að sjá þig hér á twitter, margt gagnlegt! #menntaspjall #namsradgjof
 • Hashtag/umræðumerki (#): Tíst eru oftmerkt með umræðumerkjum (#) og umræðuorði í kjölfarið. Með því að merkja tíst með umræðu t.d. #erurovision2013 eða #menntaspjall þá er verið að flokka tístið í ákveðna umræðu og geta notendur leitað að umræðum og séð tíst koma inn í rauntíma, jafnvel frá fólki sem þú fylgir ekki. Ef þú ert að leita að umræðum um skóla án aðgreiningar leitar þú t.d. að umræðumerkinu: #inclusion og svo fr.v.

Útskýring á tísti:

tíst

reply and retweet

Hugmyndir að því hvernig skólar geta notað Twitter:

 • Skólinn býr til umræðumerki þar sem starfsfólk tístar inn greinum, fréttum og hugleiðingum og merkir umræðuna með umræðumerkinu (#) t.d. #arskoli
 • Á starfsmannafundi er umræða um ákveðið efni: Síðan er starfsfólki skipt í hópa og hver hópur þarf að koma með 1 tíst með niðurstöðum eða hugleiðingum frá sér og merkja það með umræðumerki sem var ákveðið á fundinum (#) eða umræðumerki skólans.
 • Skólastjórnendur tísta um hvað sé í gangi eða á döfinni í skólanum, fréttir til foreldra og aðstandenda og svo fr.v.
 • Hver bekkur er með Twitter aðgang og tíst því sem þau eru að gera og velta fyrir sér. Merkja svo umræðuna með umræðumerki skólans (#)
  • Einnig er hægt að setja inn hvað eigi að læra fyrir vikuna, setja inn spurningar og svo framvegis.
 • Kennari setur inn vangaveltur og spurningar fyrir nemendur á Twitter og fær svör og vangaveltur frá þeim.
 • Nemendur tísta úr vettvangsferðum, segja frá fréttum og fleira.
 • Kennari skiptir nemendum í hópa og hver hópur fær ákveðin hluta úr sögu eða kafla í bók og á að tísta meginatriðin úr því fyrir hina (140 stafir, má setja inn mynd, myndband eða segja frá kjarna málsins)

Nú ættir þú að geta komið þér af stað á Twitter.

 • Það er allt í lagi að kunna ekki allt… mikilvægast er að reyna, mistakast og reyna aftur.
 • Byrjaðu bara a því að fylgjast með, lestu greinar, lestu svo þessa grein aftur og farðu hægt og rólega að endurtísta, svo tísta því sem þú finnur.
 • Ef þú færð ekki svar við spurningu í skólanum þínum skaltu tísta… eða tístu þó þú fáir svar, deildu hugleiðingum þínum með öðrum.
 • Deildu því sem er að virka hjá þér og því sem virkaði ekki.
 • Byggðu upp þitt PLN (personal learning network) með því að fylgja þeim sem vekja áhuga þinn.
 • Mæltu með fólki fyrir aðra með því að tísta notendanafnið (@) þeirra á föstudögum og setja umræðumerkið #ff (sem þýðir follow friday) Því föstudagar eru dagarnir þar sem fólk er að mæla með öðru fagfólki.
 • Ekki reyna að fylgjast með öllu… þú finnur það sem þú átt að finna.
 • Ef þú finnur ekki svar við einhverju þá er góð byrjuð að Googl-a það og svo máttu senda mér skilaboð á @ingvihrannar á Twitter.

Framtíðin er núna, gríptu tækifærið.

Gleðileg tíst.

Ingvi Hrannar Ómarsson

Annað gagnlegt:

umræðumerki

Ingvi Hrannar Ómarsson

Creator | Educator | Designer | Everything I produce is work in progress | Stanford Alumni in Learning, Design & Technology Twitter: @IngviOmarsson / @IngviHrannar

6 Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *