#menntaspjall um farsæla skólagöngu og framtíð nemenda

Áhugafólk hvaðanæva af landinu sem og utan landsteinanna, hafa nýtt annan hvern sunnudag til þess að ræða menntamál á örbloggvefnum Twitter undir umræðumerkinu #menntaspjall (Hægt er að læra á #menntaspjall á 5 mínútum hér).
Í #menntaspjalli sunnudaginn, 4. október kl. 11-12 stýrir Margrét Arnardóttir (@margretba), náms-og starfsráðgjafi, umræðu um hvernig skólar takast á við og búa nemendur undir áskoranir framtíðarinnar.
Ljóst þykir að í framtíðinni verða mörg þeirra starfa sem til eru í dag horfin af vinnumarkaðnum. Eins má gera ráð fyrir töluverðum samfélagsbreytingum og segja má að miklir fólksflutningar víða um heim undanfarin ár séu merki um það sem koma skal. Þessar breytingar og fleiri munu marka þá framtíð sem skólasamfélaginu er ætlað að búa nemendur undir. Hvaða kröfur gerir fyrirsjáanleg framtíð til skóla og hvaða hæfni og þekkingu þurfa nemendur til að færa samfélagið áfram?
Spurningar sem lagðar verða til grundvallar á þessari klukkustund verða:
-
Hvaða færni er nauðsynleg að ykkar mati til þess að búa nemendur undir framtíðina?
-
Undir hvaða framtíð eru skólar að búa nemendur í dag?
-
Hvað geta skólar gert til að auka þá færni sem nemendur þurfa til að takast á við áskoranir framtíðarinnar?
-
Hvert er hlutverk náms- og starfsráðgjafa í því að kynna framtíðarvinnumarkað fyrir nemendum?
-
Hvernig innleiðum við framtíðarhugsun í skólastarf?
-
Hver á að fylgjast með framtíðinni og miðla upplýsingum til skólasamfélagsins?
Skjáumst á sunnudaginn
Ingvi Hrannar, Tryggvi og Margrét Björk