Fjarkennsla snýst ekki um að senda nemendur heim með bunka af vinnubókum

Ef til þess kemur að grunnskólum verður lokað vegna COVID-19 rétt eins og framhalds-og háskólum, þurfa grunnskólar að verða undirbúnir. Réttast væri að allir grunnskólar skipuleggi fund með öllum sínum kennurum strax á mánudaginn og þar verði gerð áætlun, og skólar verði þá tilbúnir ef ákvörðun verður tekin að loka þeim tímabundið og skólum gert að „fjarkenna” grunnskólabörnum.

Sumir skólar munu líklega telja það vera nóg að þá skuli „nemendur taka vinnubækur og stærðfræðibókina með sér heim vera búinn með kaflann um X í vinnubókinni í ensku og kaflann um X í vinnubókinni í samfélagsfræði og klára niður blaðsíðu x í kafla x í stærðfræðibókinni fyrir föstudag og…, og…, og….” 

Þetta er hins vegar ekki það sem við ættum að gera!

Við skulum ekki senda heim heimavinnuáætlun með fyrirfram ákveðnum blaðsíðum í vinnubókum! Annars vegar af því að nemendur okkar hafa mjög ólíkar forsendur, ólíkan stuðning heima fyrir og ólíkar aðstæður í þessu ástandi en líka af því að skólastarf snýst um meira en bara lestur og stærðfræði. 

Nemendur munu hafa ólík hlutverk heima hjá sér á meðan á þessu stóra verkefni stendur. Margir þurfa líklega að passa yngri systkini og geta því ekki sinnt skóla frá 8-14 eins og aðra skóladaga. Sumir hafa ekkert foreldri heima yfir daginn, sumir munu vilja sofa út og vinna seinnipartinn, sumir nemendur hafa báða foreldra heima og mikinn stuðning og svo framvegis… við þurfum að muna þetta þegar við skipuleggjum fjarnám grunnskólabarna.

Við megum heldur ekki gleyma að maður lærir oft mikið þegar maður hefur ekkert fyrir stafni, þá finnur maður uppá einhverju. Isaac Newton þurfti að flýja London þegar plága skall á árið 1665. Það ár kallaði hann “the year of wonders”. Hann sat einmitt aðgerðarlaus undir eplatré fyrir utan herbergið sitt þegar í kollinn hans flaug hans merkilegasta uppgötvun.

“Having time to muse and experiment in unstructured comfort proved life-changing for Isaac Newton — and no one remembers whether he made it out of his pajamas before noon.”

Hér er það sem ég tel að við ættum að gera.

Ég er með þá hugmynd að kennarar hvers árgangs leggi frekar til áskoranir/tilraunir til nemenda sinna í hverju fagi sem þau geta ráðið hvort og þá hvenær þau sinna í vikunni. Þetta eiga ekki að vera ákveðnar blaðsíður í vinnubókum heldur opin og skemmtileg verkefni. Þetta getur átt jafnt við 1.bekk eins og 10.bekk.

Hugmyndin er að kennarar hvers árgangs setji niður lista af skemmtilegum áskorunum/tilraunum til nemenda fyrir næstu viku og þau sendi þeim hugmyndalistann. Nemendur og foreldrar fari yfir það saman hvað þau ætli að gera (mega bæta sínum eigin við), setji saman áætlun fyrir vikuna og stýri þannig náminu sjálf.

Hægt væri að senda vikudagskrá útprentaða heim (og líka rafrænt) og kennari getur fylgst með ferlinu með því að skoða ‘dagbók’ hvers og eins. Drög að slíkri einfaldri dagbók má finna hér en þar gætu nemendur skrifað inn verkefnin sín fyrir daginn/vikuna og sett inn myndir fyrir kennarann að fylgjast með (í gegnum t.d. Google Classroom) sem gæti sett inn ‘komment’. Skjalið gæfi góða yfirsýn fyrir bæði kennarann, nemandann og foreldrana.

Kennarafundur strax á mánudaginn væri frábær fyrir kennarana til að setja niður nokkrar skemmtilega áskoranir/tilraunir fyrir nemendur í stað þess að ákveða niður hvaða blaðsíðu börnin eiga að vera komin fyrir mánudag.

Hér að neðan eru dæmi um áskoranir/tilraunir sem mér datt í hug. Nemendur setja sér síðan markmið, eigin áskoranir og reyna að ná þeim fyrir vikuna eftir bestu getu.

 • Frá skólanum: Reyndu að vakna fyrir klukkan 9.00.a.m.k. á a.m.k. 4 virkum dögum af 5 í þessari viku
 • ⛟ Mánudagur ⛟ Þriðjudagur ⛟ Miðvikudagur ⛟ Fimmtudagur ⛟ Föstudagur
 • Íþróttir: Veldu eina æfingu á dag af þessum og gerðu sjálf/-ur eða með systkinum og/eða foreldrum: https://vimeo.com/397719114
 • Íslenska: Hvað er að gerast á þessari mynd? Skoðaðu myndina í skjalinu vel. Þú getur skrifað hans sem frétt í dagblaði, sögu sem þú býrð til, frásögn persónu á myndinni eða hvernig sem þér dettur í hug. 
 • Skil fyrir fimmtudag, en þá kemur í ljós hvað var í raun og veru að gerast á myndinni.
 • https://docs.google.com/document/d/1GQhW82xE9YMdwUSCdUIjraEJEhDQH0qOAPwwJ5T4jI0/edit?usp=sharing 
 • Lestur: Finndu bók sem þig hefur alltaf langað til að lesa. Þú þarft ekki að klára hana í vikunni en þú þarft að lesa eitthvað í henni á hverjum degi. 
 • Heimilisfræði: Hjálpaðu til við hádegismatinn (eitthvað sem við höfum gert í heimilisfræði) og vaskaðu upp/settu í vélina eftir kvöldmatinn a.m.k. einn dag í vikunni.
 • Náttúrufræði: Gerðu eina vísindatilraun af þessum (https://www.youtube.com/watch?v=Mvz7sS2-cic) og taktu mynd af því. Segðu í dagbókinni þinni frá því hvað gerðist.
 • Áhugasviðsverkefni: Finndu eitthvað sem þú hefur áhuga á eða vilt læra. Settu þér markmið um að æfa það á hverjum degi. Skrifaðu um ferlið í dagbókina þína.
 • Myndlist: Farðu á Google og skrifaðu “Picasso kid art” og veldu svo Myndir/Images. Þar ættir þú að finna innblástur fyrir listaverki. Útbúðu listaverk í anda þessa mikla meistara. Þetta má vera teiknuð mynd, máluð, listaverk, skúlptúr eða hvað sem er. Taktu mynd af verkinu og skrifaðu smá um það í dagbókina þína.

….og svo framvegis… Þetta eru bara hugmyndir. Hver skóli ætti að búa til svona lista fyrir hvern árgang í hverri viku.

Hér er blað sem skóli getur afritað fyrir hvern árgang og kennarar fylla inn skemmtilegar áskoranir/tillögur fyrir nemendur:

https://docs.google.com/document/d/1YIs7ebZFvm_IDy7SgcXrZ8OP3lTCnaNv5aqnU-hvjP4/edit?usp=sharing

Hér er afrit af skjali sem kennarar á unglingstigi í Norðlingaskóla hafa gert. Þar verður dagbók fyllt af verkefnum á hverjum degi og send heim í gegnum Google Classroom þar sem ‘Each Student Gets A Copy’ og vinna nemenedur beint inn í bókina. Kennari getur fylgst með framgangi í gegnum Google Classroom. Ef skóli myndi taka þetta sniðmát ætti hann að fylla inn verkefni fyrir sig í blaðsíðurnar fyrir hvern dag. Þar sem stendur ‘Dagurinn minn’ og ‘…dagsins’ eiga nemendur að setja inn nokkuð frjálst af því sem þeir gerðu þann daginn, þó sniðugar hugmyndir geti komið frá skólanum. Í Norðlingaskóla eru nemendur (allavega fyrst um sinn) með daglega viðveru sem þeir nota m.a. til að skipuleggja sinn dag. Þannig að verkefni sem á að vinna í hverri viku fara inn undir verkefni vikunnar. Nemendur setja svo sjálfir inn verkefni hvers dags:

Skoða Dagbók UllóNolló með því að smella hér: https://docs.google.com/presentation/d/1JQBAmnxiBYogyr1_ZGhzW3YEotEzgdq0CLxSTY_JHw0/view

Búa til afrit af þessu skjali í Google Drive hjá þér með því að smella hér: https://docs.google.com/presentation/d/1JQBAmnxiBYogyr1_ZGhzW3YEotEzgdq0CLxSTY_JHw0/copy

Vinnum þetta verkefni saman!

Þar sem mér finnst ekki einungis nóg að benda kennurum bara á eitthvað “app” sem verkfæri sem þeir geti notað (margir hverjir í fyrsta skipti) ef skólar loka, tel ég miklu gagnlegra að við setjum saman heilan hugmyndabanka yfir verkefni (með eða án tækni) sem nemendur geta unnið. Þetta á svo sannarlega að nýtast okkur núna en líka í framtíðinni.

Ég bjó til skjal sem við setjum inn tillögur að verkefnum hvert fyrir annað. Líka þú! Þetta þurfa ekki að vera fullkláruð verkefni heldur kannski bara hugmynd. Þú mátt líka setja inn verkefni og hlekk á verkefnið (view-only) fyrir aðra að nota en það er ekki nauðsynlegt. Endilega skelltu inn einni hugmynd fyrir okkur.

https://docs.google.com/spreadsheets/d/1dJbitfEZzgYNac9ir4n0-VI9Lspsxk7AkX8tLWGbYdw/edit?usp=sharing

Hvort sem skólum verður lokað tímabundið eða ekki tel ég tilvalið að við söfnum saman nokkrum verkefnum á einn stað hvert fyrir annað. Á Íslandi eru einhverjir flottustu kennarar í heimi! Við eigum að hjálpast að núna og setja hugmyndir okkar saman. 

Að hringja í alla nemendur í hverri viku og athuga stöðuna.

Það væri svo tilvalið fyrir kennara að taka upp tólið og hringja stutt í hvern umsjónarnemanda á milli 10-14 einu sinni í viku og taka stöðuna. Spyrja hvernig gangi, hvernig þeim líði, hvernig verkefnin gangi. Það væri líka hægt að skrifa þeim bréf og minna þau á hvað þau skipta miklu máli fyrir bekkinn, skólann og þig sem kennara.

Að mæta öllum þar sem þeir eru

Ég tel að með þessari útfærslu getum við mætt öllum nemendum og fjölskyldum þar sem þau eru. Við erum ekki að setja óþarfa pressu á foreldra og nemendur, nemendur læri að setja sér markmið, fylgja rútínu, bera ábyrgð og vinna eftir skipulagi. Kennari tekur stöðuna einu sinni í viku ásamt því að fylgjast með rafrænt daglega. Nemendur velja sér verkefni eftir áhuga og getu, sumir hafa nægan tíma, áhuga og stuðning, aðrir bara örlítinn tíma. Með þessu getum við mætt nemendum og fjölskyldum þar sem þau eru. Við gefum þeim lágan þröskuld en hátt þak og allir gera sitt besta.

Frí ráðgjöf til skóla og einstakra kennara

Ef einhverjir skólar eða einstaka kennarar hafa áhuga á að hafa samband við mig þá mun ég veita ókeypis ráðgjöf í mars, apríl og maí 2020 eins og ég get á meðan á þessu ástandi stendur. Best er að senda tölvupóst beint á ingviomarsson(hja)gmail.com ef einhver kennari eða skóli vill fá aðstoð hvort sem það tengist tækninotkun í skólastarfi eða almennri kennsluráðgjöf.

—–

Þessi grein birtist fyrst á vef Skólavörðunnar hjá KÍ þann 15.mars 2020. 

Ingvi Hrannar Ómarsson

Creator | Educator | Designer | Everything I produce is work in progress | Stanford Alumni in Learning, Design & Technology Twitter: @IngviOmarsson / @IngviHrannar

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *