Hafsteinn Karlsson – Skóli fyrir alla, Finnland og samræmd próf

 

Hafsteinn Karlsson er fæddur árið 1956. Hann er útskrifaðist með stúdentspróf frá Mennaskólanum í Kópavogi árið 1976, BA próf í íslensku og sagnfræði 1981, uppeldisfræði til kennsluréttinda 1984 og meistarpróf í stjórnun menntastofnana frá KHÍ árið 2007. Hafsteinn réð sig í fyrsta skipti til kennslu haustið 1979 í Þinghólsskóla í Kópavogi og starfaði við kennslu á höfuðborgarsvæðinu jafnframt því sem hann lauk nám.
Haustið 1987 var hann ráðinn skólastjóri við Villingaholtsskóla og var þar í 9 ár. Tók við Selásskóla í Reykjavík 1996 og árið 2001 var hann ráðinn skólastjóri Salaskóla sem þá var að taka til starfa í nýju hverfi í Kópavogi. Þar hefur hann verið síðan og fagnaði 30 ára skólastjóraafmæli sínu sl. haust.
Hann hefur verið verið virkur í félagsstarfi og kjaramálum kennara og skólastjórnenda. Var einn af stofnendum Samtaka fámennra skóla og formaður þess um hríð. Á starfsferli sínum hefur Hafsteinn stýrt og tekið þátt í fjölda þróunarverkefna, samið og gefið út handbækur fyrir kennara t.d. í móðurmálskennslu, upplýsingatækni og um jafnréttismál. Hefur flutt fyrirlestra og staðið fyrir námskeiðum fyrir kennara og skólastjórnendur og kennt sem stundakennari við KHÍ.

Facebook póstur Hafsteins um Samræmd próf:

Samræmdu prófin sjálf eru vandamálið

Í morgun áttu nemendur í 9. bekk að taka samræmt próf í íslensku. Það varð eitt allsherjar klúður því tæknin brást. Nemendur taka prófin í tölvum og í eina og hálfa klukkustund glímdu þeir ásamt fjölda kennara, við að reyna að opna prófin í tölvunum. Vissulega opnaðist prófið hjá flestum en lokaðist fljótlega aftur, þeir reyndu að opna aftur og svona gekk þetta allan tímann. Sagt er að 1700 nemendur af þeim 4000 sem áttu að taka prófið hafi lokið því. Margir þeirra sem luku prófinu duttu margsinnis út úr því á meðan.

Nemendum leið mjög illa yfir þessu enda var þetta mikið álag á þá. Þeir höfðu lagt hart að sér við undirbúning fyrir prófið, það er sagt geta haft áhrif á möguleika þeirra til að komast inn i framhaldsskóla og því mikið í húfi.

Það er alveg ljóst að þetta próf er ónýtt og ekki hægt að taka nokkurt mark á því.

Á morgun eiga nemendur svo að mæta í próf í stærðfræði og taka það á tölvu eins og íslensku prófið. Nemendur, foreldrar og kennarar eru eðlilega mjög uggandi um að kerfið virki. Slík spenna er ekki góður undirbúningur undir próf. Hún ýtir undir kvíða og vanlíðan og það á ekki að bjóða nemendum upp á þetta. Stærðfræðiprófið og enskuprófið eru lögð fyrir í skugga þess klúðursins í íslenskuprófinu. Það getur verið að tæknimenn Menntamálastofnunar hafi lagað vandann í prófkerfinu hjá sér en eftir sitja nemendur sárir, reiðir og alls ekki í góðu jafnvægi til að taka próf. Þeirra vandi er óleystur, hann verður jafnvel enn meiri með því að leggja það á þau að taka prófin.

Þetta mál er enn einn vitnisburðurinn um skaðsemi þessara svokölluðu samræmdu prófa á nútíma skólastarf. Nú erum við reyndar að ræða um tæknina, áður ræddum við um innihald prófanna. Það síðarnefnda var harðlega gagnrýnt af kennurum og virtum fræðimönnum. Þegar sú gagnrýni stóð sem hæst var lokað fyrir aðgang fólks að innihaldi prófanna og prófin gerð rafræn. Þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir hefur kennurum eða fræðimönnum ekki verið heimilað að sjá prófin en ekkert bendir til að tekið hafi verið tillit til þeirrar alvarlegu og faglegu gagnrýni sem sett var fram á þau.

Það er eðlilegt að spurt sé um tilgang samræmdu prófanna í dag og hvað þau eigi að mæla. Eru þau liður í að bæta skólastarf, hafa þau bætt skólastarf? Hjálpa þau okkur við að innleiða skóla án aðgreiningar, skóla þar sem öll börn fá góða kennslu við hæfi, skóla sem byggir á styrkleikum nemenda?

Ég er algjörlega andvígur samræmdu prófunum. Ég hef aldrei sannfærst um að af þeim sé nokkurt gagn í skóla nútímans. Við erum að leitast við að byggja upp einstaklinga sem hafa trú á sjálfum sér og hafa þor og áræði til að takast á við nýja hluti. Prófin eru algjörlega á skjön við það því að þau horfa til mjög fárra og einhæfra þátta. Ég hef séð marga nemendur brotna niður við að fá niðurstöður úr samræmdum prófum, ég hef orðið vitni að því að þeir hafi misst trúna á sjálfa sig sem nemendur. Ég man eftir nemanda, sem var mjög skapandi og frjór einstaklingur, einstakt náttúrubarn. Hann fékk 1 á samræmdu prófi. Þegar ég sagði honum frá því komu tárin í augun á honum og hann sagði: “En ég lagði mig allan fram.” Já hann nefnilega lagði sig allan fram, alltaf, alla daga í skólanum. Mætti alla daga glaður og tókst á við ýmis verkefni og gerði vel. Hann var vel talandi og gat sagt skemmtilega frá. En hann átti í erfiðleikum með að koma orðum á blað, var stirðlæs og stærðfræðin lá ekki fyrir honum. Mátti hann þá ekki vera nemandi? Mátti hann ekki njóta þess að vera í skóla og læra með þeim aðferðum sem hann réð yfir?

Í skóla án aðgreiningar eru samræmd próf til óþurftar. Þau eru leifar af skólastarfi fyrri tíma, eins konar forngripir sem þvælast fyrir nútíma skólastarfi. Þau eiga heima á Þjóðminjasafninu í læstum skáp.

Hugsum um öll þau glöðu og áhugasömu skólabörn sem leggja sig öll fram en fá sem bara lága einkunn á samræmdu prófunum. Hugsum um hvernig við getum ýtt undir hæfileika þeirra, áræði og dugnað. Hvernig viljum við skila þeim út úr skólakerfinu okkar?

Þeir sem véla um skólamál og ákveða hvað eigi að leggja áherslu á, er fólk sem vegnaði vel í bóklegu námi og gekk “menntaveginn”. Það fólk hefur e.t.v. litla sem enga reynslu af kennslu eða vinnu með börnum í grunnskólum. Það þekkir það ekki að fá einn í samræmdu prófi. Veit ekki hvernig það er að ströggla við lestur eða skilja ekki dæmin í stærðfræðibókinni. Þetta fólk vill samt innleiða skóla án aðgreiningar og alveg í einlægni. En gleymir því bara að það eru alls ekki allir að finna sig í hefðbundnu bóknámi, gleymir því að bóknám er ekki það eina sem skiptir máli. Hvernig væri að spyrja þá sem leggja sig alla fram en fá samt bara einn á samræmdu prófi, hvernig skóli eigi að vera?

 

 

Ingvi Hrannar Ómarsson

Creator | Educator | Designer | Everything I produce is work in progress | Stanford Alumni in Learning, Design & Technology Twitter: @IngviOmarsson / @IngviHrannar

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *