Hvað við segjum eða hvernig við segjum það?


Áður en þú byrjar að lesa vil ég benda þér á að allir hlekkir í greininni birtast að sjálfsögðu í nýjum glugga og því ekki hika við að smella á, skoða og halda svo áfram að lesa hér.

Hvað við segjum eða hvernig við segjum það?

Undanfarna mánuði, ár og áratugi hefur Margrét Pála, forstjóri Hjallastefnunnar, verið ötull talsmaður róttækra breytinga á skólakerfinu. Ég hef fylgst með umræðunni nokkuð undanfarið og tekið eftir því hvernig fólk, sérstaklega kennarar, skiptast í tvo hópa í hvert sinn sem Margrét Pála opnar munninn… svolítið eins og trúarbrögð. Annað hvort er allt sem hún segir tekið sem heilögum sannleik eða hitt, sem ég sé oftar því það virðist vera auðveldara að gagnrýna en hrósa, að allt sem hún segir sé dónaskapur og árás á alla þá sem starfa við almenna skóla í landinu

Ég er talsmaður breytinga á skólakerfinu en er með því ekki að tala gegn kennurum og starfsfólki skóla um allt land. Það vinnur ótrúlegt starf og er eitthvað það besta fólk sem ég þekki. Ef ég væri að stofna fyrirtæki myndi ég ráða nánast eingöngu kennara starfandi með mér. Þetta er fólk sem vinnur af hugsjón fyrir annað fólk, nær kauplaust, miklu meira en ætlast er til af þeim og lætur hlutina ganga þrátt fyrir ótrúlegar kröfur í starfi. En ég veit líka að þetta gengur ekki mikið lengur og til þess að missa ekki fleira gott fólk úr stéttinni þarf að breyta kerfinu, hækka laun og veita kennurum meira frelsi. Kennaranám á að verða erfiðasta og eftirsóknarverðasta nám á Íslandi sem aðeins örfáir komist inn. Í júní á hverju ári væri frábært ef þetta samtal færi fram einhvers staðar á landinu: “Vá! Komst þú inn í kennaranámið?… Vel gert, ég komst bara í lækninn því ég féll á inntökuprófinu í kennarann en ætla að reyna aftur á næsta ári.”
Með auknum kröfum tel ég að við aukum virðingu stéttarinnar, getum hækkað laun og höldum fólki og þekkingu þeirra innan hennar í stað þess að missa um helming nýútskrifaðra kennara úr stéttinni innan 5 ára.

Nýlega birtist myndband frá ársfundi Samtaka Atvinnulífsins þar sem Margrét Pála hélt tæplega kortérs ræðu um skólakerfið og stiklaði hún á stóru:Margrét Pála er alla jafna mjög beinskeytt í sínum málflutningi og dregur ekkert úr skoðunum sínum (ég tel hana jafnvel bæta stundum við til að stugga við fólki). Þessi ákveðni tónn hennar, sem sumir kalla sannfæringarkraft en aðrir bæði árás og ókurteisi verður til þess að það sem hún segir víkur oft því miður fyrir því hvernig hún segir það.

Ég dáist að henni fyrir að hafa kjark til þess að segja sína skoðun og fara gegn ríkjandi hugsunarhætti en það er leitt að stundum heyrist ekki boðskapurinn fyrir látum. Eftir að hafa horft á þetta tvisvar sinnum og ekki enn myndað mér skoðun á málflutningi hennar ákvað ég í þriðja skiptið að hlusta vel á hvað hún var raunverulega að segja, skrifa það niður, lesa það, velta því fyrir mér og skrifa hugleiðingar mínar um hverja hugmynd.

Hér kemur listinn og ég skora á þig að gera slíkt hið sama… ekki bara við þessu heldur því sem þú lest, sérð og heyrir (m.a. þessari grein).

8 meginatriði úr fyrirlestri Margrétar Pálu

1. Heimsmet í menntaeinokun og 99% barna ganga í samskonar skóla, utan samkeppni.

 9449243-large

Ég hef ekki trú á því að einkaskólar séu heppilegasta leiðin til þess að bæta menntun heldur að gefa almennum skólum og frábæru starfsfólki innan þeirra meira frelsi til þess að þróa nám og kennslu. Við erum svo heppin að eiga almenna skóla og erum ekki farin þá braut að markaðsvæða grunnskólana okkar eins og er að gerast og hefur gerst í fjölmörgum löndum (t.d. Bandaríkjunum, Bretlandi og Ástralíu). Margt menntafólk í þeim löndum er þegar farið að sjá eftir þeirri þróun því stéttaskipting eykst við þessa breytingu. Ríka fólkið og stjórnmálamenn sem stjórna almennu skólunum senda oft börnin sín í einkaskólana og bestu kennararnir (hvernig sem það er mælt) eru keyptir í þá skóla. Einkaskólar eru ekki trygging fyrir fleiri toppnemendum því í Bandaríkjunum eru nemendur í hæsta þrepi einkunnaskalans einungis um 2% borið saman við 4% íslenskra nemenda.

Berglind Rós Magnúsdóttir sagði nýlega eftirfarandi í ræðu sinni um Gæði og jafnrétti í skólastarfi á tímum markaðsvæðingar:

„Þegar markaðslögmál ráða í skólastarfi er hugmyndinni um að menntun eigi að vera almannagæði ýtt til hliðar vegna einkahagsmuna… Þegar skólar fara að stjórnast af framboði og eftirspurn skapast hætta á að einstaklingshagsmunir taki yfir heildarhagsmuni. Að fólk sem hefur sterka stöðu í samfélaginu getur nýtt sér skólakerfið í eigin þágu umfram aðra og að þeir foreldrar, sem þykja verðmætir fyrir ímynd skólans, geti beitt sér á ýmsan hátt til að fá fram forréttindi fyrir eigin börn.”

Nanna Kristín Christiansen birti nýlega pistil á vefsíðunni Krítin.is þar sem vísað er í grein The Guardian um áhrif einkaskóla á almenna skólann. Þar segir að til að tryggja góða almenna hverfisskóla þá verðum við að standa með skólunum og styðja þá til framfara í stað þess að flytja börnin í einkaskóla.  Foreldrarnir þurfa að geta treyst því að kerfið muni tryggja börnum þeirra gæði hvað varðar menntun en einnig menningarlega og félagslega. Það þarf því að leggja ríka áherslu á að ávinna hinum opinbera skóla traust. Almenni skólinn líður fyrir það þegar foreldrar taka börn sín þaðan en ef nægilega margir foreldrar  halda tryggð við opinbera skólakerfið þá mun því fara fram og ávinningurinn mun flæða, segir að lokum.

2. Samskonar kennarar, útskrifaðir úr samskonar skóla.

Eins kennarar

Að segja að kennarar séu samskonar vegna þess að þeir gengu allir einhvern tímann í Kennaraháskóla Íslands á árabilinu 1950-2013 er fjarstæða (Reyndar er hægt að útskrifast sem kennari úr HÍ, HA, LHÍ og HR en það er nú önnur saga). Ég hef ekki ennþá hitt einn einasta kennara sem er eins og einhver annar en þeir eiga það reyndar allir sameiginlegt að búa yfir sjálfstæðri hugsun. Þeir starfa hins vegar í svipuðu kerfi, kerfi sem er erfitt að breyta og tekur breytingum hægt. Því þarf að breyta og þar er ég sammála Margréti Pálu sem í mínum huga er að gagrýna kerfið en ekki þá sem starfa í því.

3. KÍ 36 – Umboðsmaður barna 1

 KI_UB_ingvihrannar

Að stilla KÍ og umboðsmanni barna upp gegn hvoru öðru er fáránlegt því þau vinna ekki gegn hvoru öðru rétt eins og félag íslenskra útfararstjóra og heilbrigðisráðuneytið vinna ekki gegn hvoru öðru.

Kennarar (í leik-, grunn-, framhaldsskólum auk skólastjórnenda) greiða Kennarasambandinu sínu mánaðarlega af sínum vægast sagt hóflega útborguðum launum. Til þess að fjölga starfsmönnum hjá Umboðsmanni barna (sem samkvæmt heimasíðu sinni vinnur ekki einn því þar starfa ásamt honum verkefnisstjóri, sérfræðingur og tveir lögfræðingar) þýðir það ekki að það þurfi að fækka starfsmönnum hjá Kennarasambandinu. Embætti Umboðsmanns barna má vissulega fá frekari stuðning en það hefur ekkert með Kennarasambandið að gera.

4. Öllum kennt það sama, allir læra allt og eiga að standa jafn vel að vígi í öllu við lok skólans. Aukatímar ef þú ert slakur í einhverju, gera bara meira af því sem þú ert nægilega slakur í.

Matura2005_ILOSzczecin

Þarna er ég hjartanlega sammála Margréti Pálu og hef skrifað um þetta áður (Atriði 17 í grein minnu um 21.atriði sem er úrelt í skóla 21.aldarinnar) og hér gríp ég niður í greinina þar sem segir:

Við eigum að auka val nemenda, veita börnum stuðning í því sem þau eru góð en ekki aðeins auka kennslu í því sem þau ná ekki. Nemandi sem er góður í listgreinum en undir meðallagi í dönsku fær stuðning í dönsku til þess að komast til jafns við jafnaldra sína en ekki listgreinum og fær hann ekki að vera framúrskarandi í neinu. Allir jafnir, allir eins!

Menntun á að vera einstaklingsmiðuð, nemendur eiga að vinna í hópum, þvert á árganga og sníða nám að sínum áhuga og þörfum í samvinnu við kennara, foreldra sína og samnemendur og sem betur fer eru nokkrir skólar nú þegar að vinna í þessum anda. 

5. Bara bætt við námsskrána og ekkert tekið út.

school20books

Þessi punktur er hárréttur að mínu mati. Það er alltof mikið efni, farið yfir á hundavaði og lítil dýpt. Mér finnst Aðalnámskrár og skólnámskrár líka virka oft sem plögg sem alltof fáir raunverulega lesa og velta fyrir sér því þau eru alltof yfirgripsmikil og litlar breytingar frá ári til árs. Aðallega finnst mér það orðalagið sem breytist en ekki innihaldið… en það skiptir svosem ekki öllu því þeir sem lesa hana gera það með sínum gleraugum.

6. Allir eiga að útskrifast úr framhaldsskóla, húsasmiðir sem lesa og greina fornbókmenntartexta og fólk þarf að fá að finna sína hillu, hvort sem það er sem gröfustjóri eða mannfræðingur.

Group

Algjörlega sammála þessum punkti. Það er alltof mikil áhersla á bóklegt nám eins og það sé örugg leið í að gera fólk bæði ríkt og hamingjusamt. Þeir sem fylgja sínu áhugamáli og sannfæringu eiga oft á tíðum erfitt með að klára nám í sinni grein vegna einhverra stærðfræðiáfanga eða áfanga í fornbókmenntum sem er skylda að klára svo eitthvað sé nefnt. Vissulega hentar það mörgum að fara í bóknám og að sjálfsögðu eiga þeir að gera það… ég veit til dæmis ekki hvað ég hefði gert ef fjölskyldan mín hefði ætlað sér að ná mér í gegnum bifvélavirkjann. Ég veit ekki hvað stýrisgangur, öxulhosur, reimar eða vindskeiðar eru en ég er ánægður með að einhver gerir það því annars væri bíllinn minn ekki ganghæfur. Við þurfum alls konar fólk sem fær að rækta alls konar áhugamál, annars verðum við mörg bæði vansæl og atvinnulaus. (Grein Margrétar Pálu um málefnið)

7. Ná börnunum áður en skólinn drepur áhuga þeirra og frumkvæði og nær að eyðileggja þau.

School children showing thumbs up.

Eins og ég var nú búinn að vera sammála Margréti Pálu í undanförnum setningum þá fer þessi langt yfir strikið og er beinlínis árás á það góða starf sem verið er að vinna í skólum landsins. Við getum í fyrsta lagi bent á gleði í skólastarfi sem samkvæmt nýjust niðurstöðum PISA erum við í 2.sæti í heiminum yfir góða líðan nemenda í skóla. Ég er sammála því að skólinn gerir oft á tíðum ekki nægilega vel í að virkja frumkvæði og vekja áhuga barna en að halda því fram að börnum þurfi að bjarga úr skólunum áður en hann skemmir þau er svo fáránlegt að ummælin dæma sig sjálf.

8. Nýir skólar og námsbrautir. Fagna fjölbreytni og hún treystir ekki kerfinu til þess.

Varmahlid_ih

Þarna er ég sammála henni Margréti Pálu. Við þurfum meiri fjölbreytni í menntaflóruna en varla er hún að leggja til að í Varmahlíð í Skagafirði verði stofnaðir margir skólar fyrir þá 113 nemendur sem eru þar við nám eða að í Borgarnesi verði settir upp margir grunnskólar fyrir ólíka nemendur. Ég tel að besta leiðin sé að auka sjálfstæði skóla og gefa þeim svigrúm til þess að skapa leiðir sem hentar þeirra samfélagi án þess að þurfa að fylgja öllum vinnuheftum og stundarskrám uppá mínútu.

 Nidurstada 4-4

Það er of ríkjandi að við tökum við efni án þess að melta það (og það skaltu ekki gera við þessa grein heldur). Skólakerfið hefur kennt okkur það að til þess að ná prófi er nóg að muna og endurtaka. Það á hins vegar ekki við í dag í raunveruleikanum. Gagnrýnin hugsun og það að velta fyrir sér og ræða það sem við heyrum og sjáum er það mikilvægasta. John Dewey sagði eitt sinn: “We do not learn from experience… we learn from reflecting on experience” og það er sannara nú en nokkru sinni áður. Með öllum þeim upplýsingum sem dynja á okkur á degi hverjum, fréttum, sögum, slúðri, greinum og sjónvarpsefni svo eitthvað sé nefnt er einn okkar nauðsynlegasti eiginleiki að geta meðtekið upplýsingarnar, velt þeim fyrir okkur og myndað okkur skoðun. En skoðunin skal aldrei vera svo ákveðin að henni megi aldrei breyta ef nýjar upplýsingar koma fram.

Fögnum fjölbreytileikanum, virðum skoðanir annarra en það þýðir ekki að við þurfum að vera sammála þeim.

Takk Margrét Pála fyrir áhugavert erindi sem fær fólk til umhugsunar. Nú er það okkar að hlusta á hvað er raunverulega sagt, velta því fyrir okkur og grípa til aðgerða. Annars breytum við engu og vonandi verðum við öll í sama liðinu.

Ingvi Hrannar Ómarsson,
grunnskólakennari, nemi í frumkvöðlafræðum við Háskólann í Lundi og áhugamaður um skóla framtíðarinnar.

—–

Myndir:

http://www.vb.is/media/video_photo/Arsf-SA-4.jpg
http://news.olemiss.edu/wp-content/uploads/2013/08/Mississippi-Excellence-in-Teaching-Freshamn-Group.jpg
http://upload.wikimedia.org/wikipedia/commons/a/a6/Matura2005_ILOSzczecin.jpg
http://blogs.roanoke.com/backcover/files/2009/06/school20books.jpg
http://www.masterroute.com/user-files/images/Group.jpg
http://autisminchildrenhelp.com/wp-content/uploads/2013/09/Happy-Kids.jpg
http://sweetclipart.com/multisite/sweetclipart/files/neighborhood.png

Ingvi Hrannar Ómarsson

Creator | Educator | Designer | Everything I produce is work in progress | Stanford Alumni in Learning, Design & Technology Twitter: @IngviOmarsson / @IngviHrannar

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *