Janúar í 8.bekk

Á síðustu árum hef ég starfað sem kennsluráðgjafi í upplýsingatækni, skólaþróun og nýsköpun við grunnskólana þrjá í Skagafirði (Árskóla á Sauðárkróki, Varmahlíðarskóla og Grunnskólanum austan Vatna á Hofsósi). Að mestu hefur það þýtt innleiðing á iPad 1:1 í 5-10.bekk, bekkjarsettum í 1-4.bekk, MacBook fartölvum fyrir starfsmenn (frá PC borðtölvum) og iPad-ar fyrir starfsmenn, nýtt þráðlaust net í skólana, innleiðing á G Suite for Education frá Google í alla skólana (úr Office), þróað sýndarveruleika í skólastarfi og stýrt innleiðingu á forritun í skólana 3 (sem allir hafa nú hlotið styrk frá Forriturum framtíðarinnar) svo eitthvað sé nefnt.

Þetta hefur þýtt að starf mitt á „gólfinu” hefur verið töluvert en þó ekki nægjanlegt að mínu mati.

Ég vil vinna sem mest með nemendum og sem minnst á skrifstofu.

Nú þegar við erum komin með þá tækni sem ég setti í áætlunina fyrir 4 árum taldi ég nauðsynlegt að breyta til frá því að koma inn í kennslustundir þegar kennarar óskuðu eftir því og gera „kúl” hluti í lok kaflans/bókarinnar eins og sýndarveruleika eða myndbanda-vinnu með nemendum, forrita eitthvað eða stýra Breakout þraut svo ég nefni eitthvað. Vandamálið við slíka vinnu er að það festist ekki í breyttum og bættum kennsluháttum. Það þýðir bara að ég kem inn sem einhver „skemmtikraftur” eða töframaður en með því aðstoða ég ekki kennara… ég einfaldlega sýni þeim hvað er hægt en hjálpa þeim lítið sem ekkert við það að komast þangað.

Eftir áramót breytti ég starfi mínu verulega þannig að nú starfa ég nær eingöngu í einum árgangi eða með ákveðnum kennara í nokkrar vikur í senn. Allt annað er auka.

Ég skoða stöðuna með kennurunum, fer yfir hvaða viðmið í námskrá kennarar telja sig vera að ná og hvað vanti uppá. Við eigum samtal um það hvað vanti og hvar tæknin passi inn í slíkar hugmyndir.

Í desember hitti ég þær Álfhildi Leifsdóttur, Kolbrúnu Dögg og Ólöfu Hartmannsdóttur, kennara 8.bekkjar í Árskóla til þess að undirbúa fyrstu lotuna mína í slíkri vinnu.

Eftir nokkrar umræður ákváðum við að ég kæmi inn í íslensku, stærðfræði, ensku og svo stýrði Snilldarstund (e.Genius Hour) og kæmi árganginum af stað í það.

Hér er brot af því sem við unnum saman í Janúarmánuði.

Enska

Það sem ég vildi leggja áherslu á voru samskipti, frásögn (tjáning og tal) og hlustun.

1. Það fyrsta sem þau gerðu var að kynna sig á ensku í FlipGrid. Þetta var stórt skref fyrir marga einfaldlega að þora að tala á ensku en var skemmtilegt og braut ísinn. Ég gaf þeim svo endurgjöf fyrir tjáninguna í gegnum FlipGrid.

2. Næsta verkefni var að æfa þau í hlustun en bæta smá keppni inn í það. Þá fótu nemendur á heimasíðu sem heitir LyricsTraining og fundu lög sem þeim finnst skemmtileg og áttu að fylla inn réttan lagatexta. Sjá myndband

LyricsTraining from Ingvi Hrannar on Vimeo.

Stærðfræði

Breytingin sem við gerðum í stærðfræði var að áður fengu nemendur lotublað og tóku svo allir sama próf í lok lotunnar. Nú fá nemendur hins vegar að velja sig inn í lotu eftir erfiðleikastigi. Lotublöðin eru rafræn á Google Classroom og nemendur fá það blað sem hentar þeim. Mismunandi dæmi eru tekin fyrir eftir því í hvaða lotu-styrkleika þú ert.

Lotublöðin eru ‘view-only’ þannig að ef það þarf að bæta inn kennslumyndbandi, dæmi eða útskýringu þá gerir kennarinn það og öll blöðin uppfærast.

Í lok hvers tíma skanna svo allir nemendur QR kóða í stofunni sem tekur þau beint á Google Eyðublað (e. Forms) þar sem þau segja á hvaða dæmi þau eru núna. Það gefur kennurum enn betri yfirsýn yfir hver þarf meiri hjálp, hver þarf að vinna heima og hvaða áform eru sanngjörn fyrir vikuna.

Í lok lotunnar taka nemendur próf úr efninu…. ekki allir það sama (þar sem 6.0 þýðir C) heldur C próf þar sem þú átt að fá a.m.k. 8.0 í. Þannig upplifa allir nemendur að þeir séu góðir í stærðfræði því dæmin eru við hæfi.

Þeir nemendur sem fá a.m.k. 8 í B prófinu geta fengið að taka A próf sem eru nokkur erfiðari dæmi, orðadæmi og jafnvel að gera kennslumyndband fyrir aðra nemendur.

Sphero forritun

Eitt af mínum uppáhalds verkfærum í kennslu, sérstaklega ef þjálfa á samvinnu, þrautalausn, rökhugsun og lausnaleit er það SPRK+ kúlan frá Sphero. Reyndar var ég á dögunum valinn í aðeins 18 manna hóp svokallaðra Sphero Heroes, sem er æðsti hópur Sphero í kennslu í forritun með Sphero.

Ég tísti verkefni um daginn sem ég gerði með nemendum á aðeins 40 mínútum.

Ég setti verkefnið inn í Google Classroom hjá þeim, þau voru öll að vinna inni í sama skjali.

Það var frábært að sjá þau vinna saman, pæla í vegalengdum, tíma, gráðum, hraða, forritun og leysa þessa þraut á 40 mínútum (auk þess að fara í hóp, sækja skjalið, parast kúlunni, skila inn, aftengjast Sphero og setja aftur í hleðslu)

Íslenska

Við ákváðum að vinna markvisst með þau hæfniviðmið sem liggja til grundvallar í fögunum. Það lá því beint við að setja það í Google Sheets og skipuleggja vinnuna framundan.

Hér er skjámynd af flipanum í íslensku til þess að gefa okkur betri yfirsýn:

Skapandi skil í Gunnlaugssögu

Fyrsta verkefnið sem nemendur gerðu hér voru skapandi skil í Gunnlaugssögu (sem þau kláruðu fyrir jól).

Þarna höfðu nemendur val um það hvernig þeir ætluðu að skila verkefninu. 4 hópar gerðu stuttmynd og sáu 2 kennarar um þann hluta. Þar notuðu hóparnir iPad-ana sína og margir völdu að nota grænskjá sem kom vel út (Green Screen by DoInk appið).

Ég og annar kennari vorum með þá nemendur sem völdu ekki stuttmyndir og þar voru verkefni eins og heimasíða, myndasaga, teiknimynd, teikningar og StopMotion teiknimynd með grænskjá (e.GreenScreen). Þar notuðu nemendur annað hvort iPad eða Chromebook eftir því hvers eðlis verkefnið var.

Rökræða (Opinion Paper)

Næsta verkefni kölluðum við Rökræðu. Þetta verkefni er byggt á reynslu minni frá námi mínu í High-school í Bandaríkjunum þar sem tjáning og tal var stór hluti. OP stendur fyrir ‘Opinion Paper’ þar sem tvisvar sinnum á önn þurftum við að skrifa og flytja ræðu um málefni sem skiptir okkur máli. Þetta var stórt skref og lærdómsríkt.

Í þessu verkefni var vinnuferlið þannig að nemendur áttu að:

  1. Finna sér málefni sem skiptir þau máli
  2. Setja málefnið upp í hugarkort í Popplet appinu í iPad
  3. Skrifa texta í Google Docs með rökræðunni (valfrjálst)
  4. Senda inn æfingu á rökræðunni í gegnum FlipGrid.
  5. Fá endurgjöf frá kennara um hvað þarf að laga
  6. Skila rökræðunni sinni á FlipGrid – nýtt ‘Topic’ sem heitir Lokaskil – Rökræða (1,5 mínútur)

Undur – skáldsaga

Við keyptum 55 eintök af bókinni Undur (e. Wonder) eftir R.J. Palacio til þess að lesa sem bekkur. Undur er stórkostleg saga af strák sem heitir Ágúst Pullman og er á leið í fyrsta sinn í skóla og árið hans í 5.bekk. Nýlega kom út samnefnd kvikmynd með Juliu Roberts og Owen Wilson og getið þið séð stiklu úr henni hér.

Bókinni er skipt í 8 hluta og eiga nemendur að lesa bæði í skóla og heima. Við tökum svo verkefni samhliða lestrinum en góðar kennsluhugmyndur eru m.a. hér og á Pinterest

Nokkur verkefni sem við fórum í í upphafi var að nemendur teikni sig sjálfa í Paper by 53 appinu og við munum svo vinna persónulýsingar í framhaldi á þeim sjálfum sem og persónum í bókinni.

Bókin og vinna með hana er í fullum gangi hjá kennurum árgangsins og verður gaman að fylgjast með framhaldinu á vinnunni.

Snilldarstund

Það verkefni sem ég mun fylgja árganginum að einhverju leyti áfram í er eitthvað sem ég kalla Snilldarstund en kallast á ensku ‘Genius Hour’. Ég hef lesið flestar þær bækur sem eru til um efnið og voru kennarar árgangsins spenntir fyrir að taka þetta inn í sínar kennslustundir a.m.k. 1x í viku.

Snilldarstund gengur út á það í stuttu máli að nemendur vinna verkefni sem vekur þeirra áhuga og leysir vandamál að einhverju leyti. Í fyrstu taka nemendur fyrir einföld verkefni, því fæstir eru vanir að vinna á þennan hátt. Stefnan er að verkefnin verði stærri, flóknari og áhrifameiri þegar líður á.

Við byrjuðum á innlögn um verkefnið, svo var það að finna a.m.k. 10 hugmyndir, þróa þær, kynna í gegnum FlipGrid a.m.k. 1 hugmynd, fá endurgjöf á hana og byrja svo.

Nemendur halda svo dagbók um ferlið þar sem í hverri viku skrifa þau hvað þau gerðu í dag og hvað þau ætla að gera næst.

Verkefnin eru nú þegar orðin mjög fjölbreytt… allt frá hönnun á fatnaði upp í borðspil svo eitthvað sé nefnt.


Þessi mánuður hefur verið frábær og verður gaman að sjá áframhaldandi vinnu kennaranna með þessi verkefni.

Ég er spenntur að fylgjast með og styðja þar sem þarf en nú held ég í listgreinar þar sem við munum vinna næstu vikuna með iPad Pro og Apple Pencil með 4-7.bekk.

Takk fyrir að lesa svona langt, en ég vona að þetta gagnist þér og þínum nemendum.

Ingvi Hrannar

Ingvi Hrannar Ómarsson

Creator | Educator | Designer | Everything I produce is work in progress | Stanford Alumni in Learning, Design & Technology Twitter: @IngviOmarsson / @IngviHrannar

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *