#menntaspjall um “Kennarar í 1:1 – eitt tæki á mann” 18.05.14

Á sunnudaginn, 18. maí, kl. 11-12, verður síðasta #menntaspjall fyrir sumarfrí. Umræðuefnið að þessu sinni er “Kennarar í 1:1 – eitt tæki á mann”.

Áhrif tæknivæðingar hefur haft mikil áhrif á kennarastarfið en oft er erfitt að sinna verkefnum heimavið ef kennarinn hefur ekki tæki/tölvu til þess. Þegar við segjum “eigin tölvu” er ekki endilega verið að tala um að kennarar komi með heimilistölvuna í vinnuna heldur að hver kennari hafi eitt tæki (fartölvu/spjaldtölvu) í kennslu og fái að fara með tækið heim. Það er undir hverjum skóla komið hvort kennarar noti sín persónulegu tæki eða skólinn veiti þeim slíkt tæki og er útfærslan á því ekki umræðuefnið heldur áhrif þess (eða það gæti haft) að allir hafi sitt persónulega tæki í sínu starfi.

Þegar hver kennari hefur sitt tæki (fartölvu/spjaldtölvu) til afnota í sínu starfi bæði heima og í skólanum hefur það áhrif á hvernig hann getur unnið starf sitt. Með því að fá tækið með sér heim getur hann sinnt ýmsum verkefnum, bæði yfirferð, rafrænum samskiptum og undirbúningi kennslu með auðveldari hætti. Vinnugögn eru vistuð á öruggari stað í stað þess að vera í samnýttum tölvum eða á heimilistölvunni. Áður fyrr notuðu kennarar borðtölvurnar í skólanum og fóru svo heim og unnu verkefnin í heimilistölvunum en nú hafa margir skólar látið kennarana sína fá sín eigin tæki (spjaldtölvu/fartölvu) til þess að vinna starf sitt hvar og hvenær sem er. Þessi breyting hefur og mun hafa áhrif á hvernig kennarar geta sinnt starfi sínu bæði í skóla og heima.

Við viljum heyra hvaða áhrif þið teljið að allir kennarar fái tölvu (eða noti sína eigin) hafi á starfið og möguleika í námi og kennslu.

Áhugafólk hvaðanæva af landinu sem og utan landsteinanna, hafa nýtt sér að hittast annan hvern sunnudag og ætlunin er að halda því áfram á örbloggvefnum Twitter og vonumst við eftir að sjá enn fleiri núna á sunnudaginn klukkan 11.00 undir umræðumerkinu #menntaspjall (Hægt er að læra á #menntaspjall á 5 mínútum hér)

Gestastjórnandi er Lára Stefánsdóttir, skólastjóri Menntaskólans á Tröllaskaga. Lára hefur verið viðloðandi þróun upplýsingatækni til náms og kennslu allt frá níunda áratug síðustu aldar þegar hún m.a. kom að stofnun Ísmenntar, sem segja má að hafi markað upphaf upplýsingatæknivæðingar í skólum landsins. Lára átti einnig sæti í nefnd á vegum Menntamálaráðuneytisins sem hafði umsjón með fyrstu markvissu stefnumótun um upplýsingatækni í námi og kennslu, sem birtist í skýrslu með yfirskriftinni, Í krafti upplýsinga: Tillögur menntamálaráðuneytisins um menntun, menningu og upplýsingatækni 1996-1999.

Lára byggir umræðuna að einhverju leyti útfrá Masters-rtigerð sinni í Menntunarfræðum. Ritgerðina má nálgast hér: Lara_Stefansdottir_MEd.pdf

Eins og vanalega birtum við spurningar fyrirfram til þess að hvetja þátttakendur til að undirbúa svör svo þeir fái meira tíma í að lesa, skoða og bregðast við því sem aðrir segja.

Spurningar verða:

  1. Hvaða áhrif hefur það á starf kennarans að hafa stöðugan aðgang að vinnutölvu?
  2. Hvaða áhrif á samskipti kennara og nemenda hefði það ef allir kennarar hafa stöðugan aðgang að vinnutæki?
  3. Hvaða áhrif hefur það á nýtingu kennara á upplýsinga- og samskiptatækni í kennslu að hafa stöðugan aðgang að vinnutæki?
  4. Hvernig myndi breytingin, að hver kennari hafi eitt vinnutæki heima og í skólanum, hafa áhrif á vinnumagn kennara?

Skjáumst á sunnudaginn, Ingvi Hrannar, Tryggvi og Lára.

—–

Mynd: http://i.huffpost.com/gen/1394493/thumbs/o-COMPUTER-YOUNG-PERSON-facebook.jpg

Ingvi Hrannar Ómarsson

Creator | Educator | Designer | Everything I produce is work in progress | Stanford Alumni in Learning, Design & Technology Twitter: @IngviOmarsson / @IngviHrannar

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *