#menntaspjall um heilsueflandi skóla 5.október 2014

Áhugafólk hvaðanæva af landinu sem og utan landsteinanna, hafa nýtt annan hvern sunnudag til þess að ræða menntamál á örbloggvefnum Twitter undir umræðumerkinu #menntaspjall (Hægt er að læra á #menntaspjall á 5 mínútum hér).
Þátttakan hefur verið framar vonum og var verkefnið tilnefnt til Foreldraverðlauna Heimilis og skóla s.l. vor.
Í framhaldi af hreyfiviku “move week” höfum við ákveðið að fjalla um heilsueflandi skóla út frá hlutverki kennara og stjórnenda í #menntaspjall-i 5.október n.k. klukkan 11.00. Fjölmargir grunn- og framhaldsskólar hafa tekið upp slíka stefnu og nú bætast leikskólarnir við. Verkefnið er samstarfsvekefni embættis Landslæknis og skóla landsins. Í framhaldsskólum er höfuðáhersla á fjögur viðfangsefni, þ.e. næringu, hreyfingu, geðrækt og lífsstíl en í grunnskólunum eru þau 6, byggð á Ottawa-sáttmála Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um heilsueflingu.
Spurningar #menntaspjall þennan sunnudaginn verða (allavega):
- Hvað var gert í skólanum þínum í hreyfivikunni ‘Move week’?
- Hvernig getum við aukið áherslu á mikilvægi hreyfingar og heilbrigs lífernis í skólum?
- Hvernig getum við aukið vægi geðræktar sem þátt í heilsu og heilbrigðu líferni?
- Veist þú um áhugaverð verkefni tengdum heilsu, hreyfingu og heilbrigðum lífsháttum á einhvern hátt?
Skjáumst á Sunnudaginn 5.október klukkan 11.00 á Twitter.
Ingvi Hrannar, Tryggvi Thayer og Hulda Jóhannsdóttir.
Tweet
—-
Ítarefni fyrir spjallið:
Heilbrigði og velferð (úr Aðalnámskrá leikskóla 2011, bls. 21)
Heilbrigði byggist á andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan. Það ræðst af flóknu samspili einstaklings, aðstæðna og umhverfis.
Allt skólastarf þarf að efla heilbrigði og stuðla markvisst að velferð og vellíðan enda verja börn og ungmenni stórum hluta dagsins í skóla.
Í skólum þarf að skapa jákvæðan skólabrag og heilsueflandi umhverfi þar sem markvisst er hlúð að þroska og heilbrigði frá ýmsum hliðum. Helstu þættir heilbrigðis sem leggja þarf áherslu á eru: jákvæð sjálfsmynd, hreyfing, næring, hvíld, andleg vellíðan, góð samskipti, öryggi, hreinlæti, kynheilbrigði og skilningur á eigin tilfinningum og annarra.
Skólastjórnendur, kennarar og annað starfsfólk skóla þarf að vera meðvitað um hvað felst í heilsutengdum forvörnum og geta nýtt sér áreiðanlegar upplýsingar um þætti sem hafa áhrif á heilbrigði. Í skólum þarf að skapa börnum og ungmennum aðstæður til heilbrigðra lífshátta. Efla þarf færni þeirra í samskiptum, uppbyggingu sjálfsmyndar, ákvarðanatöku, markmiðasetningu og streitustjórnun. Nauðsynlegt er að þau öðlist skilning á þeim áhrifum sem menning, fjölmiðlar og tækni geta haft á heilsu og líðan.Markmið þess er meðal annars að styðja börn og ungmenni svo að þau geti tekið upplýstar og ábyrgar ákvarðanir í tengslum við eigið heilbrigði.
Í skóla, sem leggur áherslu á daglega hreyfingu og markvisst hreyfiuppeldi, er lagður grunnur að líkamlegri, andlegri og félagslegri velferð til lífstíðar. Veita þarf fræðslu um hreyfingu, efla hreyfifærni og skapa öruggt umhverfi sem hvetur alla til hreyfingar. Taka þarf mið af þessu í íþróttakennslu og öllu öðru skólastarfi. Í skólaumhverfinu þarf á sama hátt að stuðla að heilsusamlegu fæðuvali með fræðslu og góðu framboði á fjölbreyttum mat. Leggja þarf áherslu á uppeldis- og félagslegt gildi máltíða meðal annars með því að gefa nægan tíma til að nærast.
Mikilvægt er að skólinn taki mið af þörfum allra barna og ungmenna á einstaklingsbundinn hátt. Allir þurfa tækifæri til að njóta styrkleika sinna sem er lykilþáttur í að byggja upp jákvæða sjálfsmynd. Mörg áhugamál barna og ungmenna stuðla að heilbrigði og geta nýst í þessu samhengi. Með því að gefa áhugasviðum þeirra rými í skólastarfinu gefst tækifæri til að vinna út frá styrkleikum og áhuga, byggja upp jákvæða sjálfsmynd og efla þannig heilbrigði.
Til að mæta áherslum um heilbrigði þurfa allir sem í skólum starfa að skoða störf sín með hliðsjón af heilbrigði og vinna í sameiningu að skýrum markmiðum sem styðja jákvæðan skólabrag, bættan námsárangur og vellíðan.Þar gegnir starfsfólk skóla miklu hlutverki sem fyrirmyndir. Einnig þarf að vinna náið með foreldrum, heilsugæslu og aðilum úr nærumhverfinu því að slík samvinna er forsenda þess að góður árangur náist.
Heilsueflandi skólar
Tekið af vef Landlæknisembættisins: http://www.landlaeknir.is/heilsa-og-lidan/verkefni/item12346/Heilsueflandi_grunnskoli
Grundvallaratriðin sex varðandi heilsueflingu í skólum Hugmyndin um heilsueflandi grunnskóla er byggð á Ottawa-sáttmála Alþjóðaheilbrigðis- málastofnunarinnar um heilsueflingu. Þar eru talin upp eftirfarandi sex grundvallaratriði:
1. Stefnuviðmið um heilsueflandi grunnskóla
Þau koma skýrt og greinilega fram, ýmist í skjalfestum gögnum eða viðteknum venjum sem efla heilsu og bæta líðan. Mörg slík stefnuviðmið lúta að því að efla heilsu og bæta líðan, t.d. þau sem snúast um að taka upp hollara mataræði í skólum og þau sem eiga að hindra einelti.
2. Skólaumhverfið
Skólaumhverfið lýtur hér að skólabyggingunum, lóðinni, tækjum og búnaði í og umhverfis skólann, t.d. hvernig byggingarnar eru hannaðar og staðsettar; hvernig dagsljósið berst inn í húsin og hvort nóg er um skuggsæla staði; hvort nóg pláss er fyrir líflega leiki og hvort ráð er gert fyrir að börnin geti sinnt heimanáminu og borðað hollan og góðan mat í skólanum.
Skólaumhverfið lýtur líka að:
Grundvallarþægindum eins og salernum og þrifum á þeim til að hindra útbreiðslu sjúkdóma;
Drykkjarvatni og hvort hægt er að komast í það með hægu móti;
Hreinu lofti;
Öllum mengunarefnum, sýklum og öðru því sem skaðað getur heilsuna.
3. Félagsumhverfi skólanna
Félagsumhverfi skólanna lýtur að því hversu gott samband er milli starfsmanna og nemenda og milli nemenda innbyrðis. Samskiptin við foreldra og aðra í grenndinni hafa áhrif á félagsumhverfi skólanna.
4. Heilsuvitund nemenda og geta þeirra til breytinga
Þetta lýtur bæði að formlegri og óformlegri kennslu og verklegum viðfangsefnum í sambandi við námið. Þar öðlast nemendur þekkingu og færni í samræmi við aldur og þroska og læra af reynslunni svo að þeir geti smám saman gripið til eigin ráða til að bæta heilsu og líðan sjálfra sín og annarra í námunda við sig og bætt um leið námsárangur sinn.
5. Samfélagstengsl
Samfélagstengsl snúast um sambandið milli skóla og fjölskyldna nemenda og sambandið milli skóla og helstu hópa og einstaklinga í grenndinni. Með því að ráðgast við og fá þessa aðila til samvinnu styrkist heilsueflingarstarf skólanna og nemendur og starfsmenn öðlast stuðning við aðgerðir sínar.
6. Heilbrigðisþjónusta – skólaheilsugæsla
Hér er átt við þá þjónustu sem veitt er innan skólans eða í tengslum við hann þar sem sinnt er heilbrigði og heilsugæslu barnanna og unglinganna hvers og eins (þar á meðal þeirra sem eru með sérþarfir). Í því felst að skoða og meta nemendurna með viðurkenndum og leyfilegum aðferðum.
Veita geðheilsuþjónustu (þ.á m. viðtöl) til að bæta félags- og tilfinningaþroska nemenda til að koma í veg fyrir og draga úr tálmum sem kunna að verða á vitsmunaþroska og námi.
Draga úr og koma í veg fyrir geðrænt og tilfinningalegt álag og bæta félagsleg samskipti.
Tilgangurinn með heilsueflandi skólum
Bæta námsárangur Heilbrigðir nemendur eiga betra með að læra en þeir sem sjúkir eru. Frummarkmið skóla er að námsárangur nemendanna verði sem mestur. Framsæknir heilsueflandi skólar leggja mikið af mörkum til þess að skólarnir nái náms- og samfélagsmarkmiðum sínum.
Auðvelda aðgerðir til að bæta heilsuna með því að efla þekkingu nemenda á heibrigði og þjálfa þá í rökhugsun, félagsmálum og framkomu. Í skólanum gefast oft góð tækifæri til að flétta heilbrigðismál og heilsuumræður saman við meginviðfangsefnin, t.d. lestur og reikning, og víkka þannig sjóndeildarhring nemenda.
Aðferðir heilsueflandi skóla auðvelda kennurum að útskýra fjölmörg almenn og sérhæfðari atriði í námsefninu og þjálfa nemdendur í að finna lausnir á margvíslegum viðfangsefnum á heimavelli og á heimsvísu.
Nemendurnir geta lært og þjálfað sig í ýmsum efnum, bæði handbragði, hugsun og framkomu, og þá líka heilsuhegðun, og allt þetta getur bætt námsgetu þeirra.
Ljósmyndin er fengin af vefnum: ICanKidsChildCare