Real Talk For Real Teachers – Rafe Esquith

Ég setti mér það markmið að skrifa um eina bók á mánuði og heitir bók jánúarmánaðar 2014: Real Talk for Real Teachers: Advice for Teachers from Rookies to Veterans: “No Retreat, No Surrender!” og er eftir Rafe Esquith.
Rafe Esquith fæddist árið 1954 og hefur kennt við Hobart skólann í Los Angeles, Kaliforníu frá 1984, næst-stærsta grunnskóla í Bandaríkjunum. Hann hefur kennt 5.bekk nær allan tímann í hverfi sem er frægara fyrir glæpi, klíkum og ofbeldi en góðum skóla. Hann hefur verið nefndur “the most interesting and influential classroom teacher in the country” af The Washington Post. Skólastofan hans, oft nefnd: ‘Room 56’ er ólík venjulegum skólastofum þar sem megin áherslan er á uppsetningu á Shakespeare leikriti ár hvert og eru nemendur hans oft nefndir The Hobart Shakespeareans.
Í þessari fjórðu bók Rafe; Real talk for Real teachers, talar hann frá hjartanu um kennarastarfið og þann raunveruleika sem kennarar og skólafólk býr við. Hann hefur kennst sama aldri í næstum 20 ár og er skólaárið hjá honum mjög niðurnjörfað. Hann segist bæta um það bil einu nýju verkefni á ári en annars haldi hann í það sem hann hafi gert undanfarna áratugi. Það auðveldi honum með undirbúning og hann sé öruggari.
Bókinni er skipt í 3 flokka eða meginkafla: Once Upon a Time (Fyrstu 5 árin í kennslu), Growing Up (næstu 20 ár) og Master Class (Að vera öðrum fyrirmynd og bæta sig áfram þrátt fyrir langan kennsluferil). Ég ætla að hlaupa á hundavaði yfir nokkra hluta bókarinnar og vitna hér á eftir í Rafe beint. Þetta gefur aðeins smjörþef af öllum þeim fróðleik sem Rafe segir frá og mæli ég með henni fyrir alla kennara, unga sem aldna:
Once Upon A Time:
Eftir 30 ár er ég einn af þeim fáu sem eru ennþá í kennslu, ég er ekki að segja þetta til þess að gagnrýna þá fjölmörgu starfsfélaga mína sem hafa yfirgefið skólastofuna fyrir stjórnunarstörf, heldur til þess að benda á það þrekvirki að kennari haldist í skólastofunni í öll þessi ár. Í samfélagi okkar þar allt verður að gerast núna, reyndir kennarar eru áminning um að enginn er frábær kennari í upphafi. Það er hægt að vera góður kennari en að vera frábær kennari tekur áratugi. Að verða framúrskarandi í einhverju, kennslu, íþrótt, tónlist, bókhaldi eða listgrein þarftu æfingu, mikla.
Á þessari leið gerum við öll mistök. VIð eigum að taka þeim fagnandi, læra af þeim og verða betri með einu skrefi í einu. Þú verður frábær með því að íhuga starf þitt, mistakast og aðallega með því að skilja að ÞAÐ ERU ENGAR AUÐVELDAR LEIÐIR AÐ ÁRANGRI.
Í skólanum þínum eru hetjur, reyndir starfsmenn sem hafa verið þar sem þú situr nú, gert mistök, lært og lifað til að segja frá því. Þeir eru ein mikilvægasta auðlind sem skólinn og skólasamfélagið á. Þeir hjálpa þér í gegnum erfiða daga. Þegar þú ferð með erfiðleikana þína til reyndari kennara þá munu þeir virða þig meira, ekki minna, fyrir vikið. Þeir virða hreinskilni þína og vilja til að gera betur.
Það er eitt sem þú skalt þó varast í skólanum þínum. Flestir kennarar sem þú hittir eru yndislegt fólk. Umhyggjusamir, klárir og einstakar manneskjur sem virði er ekki mælt á samræmdum prófum. En það eru kennarar sem þú skalt varast. Því miður eru þeir í hverjum skóla, hanga á kaffistofunni eins og þeir geta og kvarta yfir öllu, kennslunni, nemendunum, öðru starfsfólki, skólastjóranum og oft hvoru öðru. Þetta fólk þrífst ekki í einrúmi og þau bjóða ungum kennurum að ganga til liðs við sinn eymdarhring starfsfólks. Haltu þig frá þessu fólki, þau eru ekki góð fyrir þig, hvað þá nemendurna.
Þegar þú verður reyndari kennari kemur þú þér upp hefðum sem nemendur fylgja og kannast við. John Wooden, sögufrægur háskóla-körfuboltaþjálfari lét leikmenn sína alltaf gera sömu æfinguna á hverjum degi í upphafi æfingar. Það sem leikmennirnir gerðu á fyrstu æfingu ársins voru sömu og þeir gerðu kvöldið fyrir úrslitaleik í háskólaboltanum. Það er samræmi einnig í því sem við gerum í skólastofunni okkar og það hjálpar börnunum að vera örugg.
Þrátt fyrir að flestir setji upp reglur í skólastofunni sinni gerum við það ekki. Hvergi hanga reglur á veggjum. Samt sem áður eru nemendur mínir kurteisir og til fyrirmyndar. Okkar regla er ‘Be Nice’ og setningin okkar er: ‘There are no shortcuts’
Við sýnum frumkvæði, tökum ábyrgð á gjörðum okkar, hugum að stað og stund, erum aldrei hrædd við að spyrja spurninga, skiljum mikilvægi góðrar framkomu, erum skipulögð og auðmjúk.
Growing Up:
Eftir að hafa kennt í allavega 5 ár ertu rólegri en þú varst fyrst. Þú hefur fundið þína rödd og ert sjálfsöruggari. Lífð er ljúft. En núna ertu komin á krossgötur. Þú hefur það sem þarf til þess að slappa aðeins af. Þú ert eldri, jafnvel að ala upp þína eigin fjölskyldu. Nú þarftu að taka ákvörðun. Þú getur bara “tjékkað” þig út, margir kennarar gera þetta. Þeir koma upp venjum, kenna eftir námskránni, fá skammarlega lágan launaseðil og fara heim klukkan 16.00 í síðasta lagi.
En eftir allavega 5 ár í kennslu eiga kennarar það til, góðir kennarar meira að segja, að nenna ekki að sækja sér endurmenntun. Endurmenntun er svo miðuð að nýjum kennurum, ekki okkur. Þú hefur heyrt þetta allt áður, ert þreytt/-ur, vilt bara komast heim og finnst leitt að neistinn sem þú hafðir einu sinni er að hverfa. Þú veist að þú kemst í gegnum næsta dag án þess að spyrja spurninga, reyna eitthvað nýtt því það gæti mistekist. Spurningin er; ætlaru að halda áfram að gera það sem þú gefur gert undanfarin 5 ár og gera það næst 2 áratugina eða ætlar þú að reyna á sjálfan þig og halda áfram að vaxa? En þú getur tekið seinni leiðina. Þú ert tilbúin að tengjast nemendum þínum á hátt sem þú náðir ekki áður. Þú átt í reynslubankanum leiðir til þess að ná til nemenda sem þú hafðir ekki náð til áður. Þú ert kominn á einn mest spennandi stað á ferlinum. Það er kominn tími til að vaxa úr grasi sem fagmaður og kennari.
Raunveruleg mistök eru að reyna aldrei neitt nýtt.
Eitt af því sem ég get bent á er að nemendur þurfa að vita að truflandi hegðun þýðir að þau verða skilin eftir. Ekki i reiði heldur vegna þess að bekkurinn hefur verk að vinna og mega ekki við því að vera trufluð. Aldrei sýna reiði eða kaldhæðni þegar þú leyfir barni ekki að vera með í verkefni. Brostu, haltu ró þinni og haltu áfram vinnunni. Enginn nemandi á að halda að hann hafi stjórn yfir þínum tilfinningum, hann stjórnar ekki kennslunni þinni heldur ÞÚ!
Ég leyfi nemendum oft að segja sína skoðun á þeim reglum sem við höfum í skólastofunni. Börnum er ekki illa við ákveðna kennara, en þau fyrirlíta ósanngjarna kennara. Þegar börn fá að taka þátt í að móta reglurnar eru þau líklegri að halda sig innan þeirra.
Eitt af því best sem þú getur gert fyrir nemenda er að leyfa honum að stjórna sínum eigin örlögum. Ef við neyðum þau til þess að gera allt sem við segjum í skólanum, hvernig vitum við þá að þau geri það sem þau þurfa til að ná árangri þegar við erum ekki þar? Innbyggðu í þau að góðir hlutir taki tíma.
Þegar þú mælir nemendur, vertu þá viss um að þú sért að meta hann miðað við fyrri árangur. Ekki aðra nemendur!
Þegar þú öðlast meiri reynslu sem kennari áttu að biðja um mikla hjálp. Hægt og rólega skaltu finna það fólk sem getur hjálpað þér á hátt sem þú getur ekki sjálfur. Við höfum öll not fyrir aðstoð.
Master Class:
Reynsla og þroski hjálpa framúrskarandi kennurum að vinna betur (e. work smarter). Reyndir kennarar þurfa samt ekki að vera fastir í sama farinu þó þeir séu að kenna í 30 ár. Margir vilja “vinna sig upp” og verða stjórnendur og er það allt í lagi. En ef við hefðum hundruðir eða þúsundir frábærra kennara sem vildu bara vera í skólastofunni og kenna þá myndi það gera meira fyrir menntun barnanna okkar en nokkur nýjung í kennslu, kennslubók eða aðferð.
Það er yndislegt að vera eldri kennari. Dagarnir þar sem ég hafði áhyggjur af því að þurfa að stoppa slagsmál, vera viss um að fara yfir alla þætti námskrárinnar eða bara þrauka í daglegu amstri starfsins eru á enda. Það er ákveðið sjálfsöryggi sem skín af slíkum kennurum sem vita hvað þeir ætla sér að gera og hvernig. Lífið er gott.
En það er erfitt verk að vera kennari, líkamlega og andlega, og er það viljandi sem ég hef ekki kennaraborð í stofunni. Ég sest aldrei niður. Ég er labbandi allan daginn. Þú þarft að vera í góðu líkamlegu formi til þess að kenna. Leggðu bílnum, hjólaðu, labbaðu, farðu í ræktina, spilaðu íþrótt. Allt þetta, hvort sem þú trúir því eða ekki, gefur þér MEIRI orku. Sofðu nóg, slökktu á sjónvarpinu og farðu að sofa. Borðaðu nóg af grænmeti og ávöxtum. Taktu það með þér í skólann til þess að hafa næga orku.
En það að hreyfa sig, hvíla sig og borða rétt er ekki nóg til þess að vera góður kennari. Þú verður að eiga þér félagslíf. Sumir kennarar vinna brjálæðislega margar stundir í viku og eiga ekkert líf utan skólans. Margir þessara kennara yfirgefa skólann eftir örfá ár. Þetta er nefnilega ekki hægt. Gott félagslíf þýðir að þú stendur þig betur í starfinu, kemur glaðari í vinnuna og gefur frá þér jákvæða strauma.
Það sem dregur kennara helst niður er samt ekki líkamlegi eða félagslegi þátturinn heldur kerfið sjálft!
Á hverju ári koma fram nýjungar í námi og kennslu sem eru sögð munu gjörbylta öllu en ekkert breytist og nýju aðferðirnar eru ekkert öðruvísi en þær gömlu. Allt má breytast svo lengi sem ekkert breytist. Alvöru kennarar vita að góð kennsla er ekki byggð á námskránni eða nýjustu kennslubókinni. Að viðurkenna það að kerfið er gallað og við getum ekki bjargað öllum hjálpar okkur að halda geðheilsunni. Margir hafa gleymt því hvernig góð kennsla lítur út og sorglegt að sjá marga sem standa í “breytingum” á skólakerfinu með því að hvetja kennara til þess að undirbúa nemendur undir samræmd próf. Slík próf hafa lítið að gera með árangur í framtíðinni og ekkert að gera með ánægju og gleði í framtíðinni. Að uppgötva að þessi leið er röng og samræmd próf eru takmörkuð sýn á takmarkaða getu hjálpar kennara að halda geðheilsunni og sjá hvað er raunverulega mikilvægt.
Frábær kennsla snýst ekki um kennara sem talar heldur nemendur sem gera. Börn eiga ekki að taka próf um Hamlet heldur leika leikritið. Þau ættu ekki að vera í Guitar Hero heldur spila á raunverulegan gítar. Þau ættu ekki að læra um sögu heldur að upplifa hana og með þinni hjálp munu þeir komast á spjöld hennar. Nemendur þurfa frábæra kennara nú meira en nokkru sinni og af því þau þurfa okkur þá er mikilvægt að þú haldir líkamlegri, félagslegri og andlegri heilsu þinni góðri, því hún er löng leiðin að árangri.
-Rafe Esquith
———
Ég hafði mjög gaman af þessari bók. Hún segir hlutina eins og þeir eru. Sérstaklega hafði ég gaman af fyrsta hlutanum því hann talaði til mín. Kannski eftir nokkur ár verður það miðjukaflinn og undir lok ferilsins verður best að lesa síðasta hlutann. Það sem er gott við þessa bók er að hún er auðlesin og heldur lesandanum vel.
Ég mæli með henni fyrir alla kennara og er jafnvel hægt að velja þá hluta sem maður vill lesa og henta hverju sinni. Að sjálfsögðu á ekki allt í henni við íslenskan raunveruleika þar sem hann kennir sama bekknum, sama “prógrammið” í 30 ár. Einnig er nokkuð um ofbeldi og glæpi í hverfinu, margir innflytjendur og börnin öruggari í skólanum en á nokkrum öðrum stað og því mæta sumir sjálfviljugir klukkan 6.30 og eru til 17.00.
En bókin er góð og ég sé ekki eftir tímanum sem fór í að lesa hana.
Hægt er að kaupa hana hér:
Ingvi Hrannar Ómarsson