Skuggadagur skólastjórnenda 2022

Í skólastarfi eru það (stundum því miður) allra jafna fullorðnir (stjórnendur eða kennarar) sem taka ákvarðanir fyrir hönd notendanna (nemenda). Við verðum oft blind fyrir því hve vandamálin raunverulega eru, hvaða tækifæri liggja um allt.

Í námi mínu við Stanford háskóla í Bandaríkjunum heyrði ég af verkefni sem Stanford d.school og IDEO skipulögðu með skólastjórnendum um bandaríkin sem kallast ‘Shadow a student‘ og hef síðan þá langað til að gera slíkt á Íslandi.

Verkefnið byggir á því að skólastjórnendur verði nemandi í skólanum sínum í einn dag sjái skólann með augum nemenda, setji sig í spor þeirra og noti hönnunarhugsun til þess að bæði koma auga á en einnig reyna að leysa vandmál/verkefni sem þau höfðu ekki áður tekið eftir.

Hönnunarhugsun (e.Design thinking) er ferli sem hægt er að nota til að finna og leysa vandamál og leita fjölbreyttra lausna með því að setja sig í spor notandans og skilja þarfir frá hans sjónarhorni. Þetta er ekki einfalt, og of oft gleymum við sjónarhorni notandans í ákvörðunum okkar.

Ef við getum ekki sett okkur í spor annarra til þess að skilja þeirra upplifun, munum við aldrei getað fundið og lagað það sem raunverulega skiptir máli.

-Ingvi Hrannar

Ég er með þá hugmynd að við setjum upp slíkan dag fyrir íslenska skólastjórnendur, hvort sem það er í leik-, grunn-, framhalds- eða háskóla fyrir skólastjóra, aðstoðarskólastjóra, deildarstjóra, jafnvel fræðslustjóra um land allt eða hvern sem kemur að ákvörðun um nám nemenda á Íslandi.

Ég legg til að við gefum okkur viku til þess að framkvæma verkefnið 10-17.maí og hittumst svo 17.maí kl.14.30 til þess að deila upplifuninni.

Ef þú, kæri skólastjórnandi, hefur áhuga á að vera með í þessari fríu starfsþróun hvet ég þig til að skrá þig hér: https://forms.gle/TTFih7kAX6eCz6479 og ég hef samband með nánari upplýsingar.

Ef áhugi er á þessari tilraun þá mun ég útbúa allt efni og gera handbók fyrir ykkur til þess að prenta út og fylgja í ferlinu, setja upp netfundinn okkar þar sem við ígrundum og klára allt skipulag í kringum verkefnið.

Það er mín von að dagur sem þessi hjálpi skólastjórnendum að finna mikilvæg tækifæri til að bæta upplifun nemenda taka betri ákvarðanir, og bæta skólann með hagsmuni og leiðarljós nemenda í huga.

Ertu til?

Ingvi Hrannar

Ingvi Hrannar Ómarsson

Creator | Educator | Designer | Everything I produce is work in progress | Stanford Alumni in Learning, Design & Technology Twitter: @IngviOmarsson / @IngviHrannar