Sögur “framtíðar-afa”

Árið er 2056 og ég er sjötugur afi og sit í hægindastól sem ég stýri með hugarorkunni.

Barnabörnin koma svífandi inn á einhvers konar flug-skóm og lenda rétt hjá mér.

Þau segja við mig: Afi, viltu segja okkur sögur frá því þegar þú varst lítill.

Ég horfi á þau, bið þau að setjast hjá mér. Við lokum augunum og ég hugsa til baka um 40 ár.

„Þegar ég var ungur var margt öðruvísi en það er í dag.”

 

 • Bílar voru ekki sjálfkeyrandi eins og nú heldur þurfti maður að vera orðinn 17 ára og fá bílpróf.
 • Lögreglan vann mikið við það að mæla ökuhraða og áfengismagn í fólki sem var að keyra bílana.
 • Flestir áttu bíl og sumir meira að segja fleiri en einn.
 • Bílar gengu fyrir einhverju sem kallaðist bensín og var það borað upp úr jörðinni og mengaði umhverfið og olli sjúkdómum í fólki. En í þá daga skipti það engu. Peningar og græðgi skipti meira máli en framtíð jarðarinnar sem við búum á nú. Pólitíkusar þorðu oftar en ekki að stíga nauðsynleg skref og horfðu sjaldan lengra en 1-4 ár fram í tímann.
 • Á þessum tíma var launahæsta fólkið oftast þeir sem pössuðu peningana en ekki læknar og kennarar eins og það er nú.
 • Við borguðum fyrir vörur stundum með gullpeningum og pappírs-seðlum.
 • Margir unnu í hættulegum störfum sem vélar sinna nú fyrir okkur og störf eins og að keyra bíl eða jafnvel að skanna inn vörur á búðarkassa voru raunveruleg störf í þá daga. Það var meira að segja til starf þar sem fólk gekk á milli húsa með bréf, reikninga og dagblöð (svona blöð úr pappír með fréttum gærdagsins) og setti inn til þeirra sem áttu bréfin.
 • Áramótin voru þannig að hver sem er gat keypt kínverskar sprengjur án sérstakt leyfis og leiðbeininga, drukkið áfengi allt kvöldið og stungið sprengjunum í plast-flösku, kveikt í þeim og skotið sjálfur… ekki eins og nú þar sem aðeins þjálfaðir aðilar mega eiga við slíkar sprengjur og við horfum á úr hæfilegri fjarlægð.
 • Vinnuvika var oft 40 klukkustundir eða lengri en ekki hámark 30 klukkustundir eins og hún er nú.
 • Mjög margir krakkar sem áttu erfitt í skóla voru settir á lyf því það var talið á þeim tíma að það væri eitthvað að þeim, en ekki kerfinu í kringum þau. Því fleiri börn sem voru greind með geðræna kvilla (t.d. ADHD) og sett á lyf, því meiri pening fengu skólar til þess að vinna með þau og því var hagur í því að greina sem flest og gefa lyf. Ekki eins og nú þar sem orsökin á hegðun og vanlíðan er mest til rannsóknar og unnið með betur en ekki bara afleiðingin.
 • Það voru mismunandi tímabelti í heiminum þannig að klukkan var kannski 12.00 hér en 17.00 í öðru landi… það gerði stundum erfitt fyrir þegar fólk var að ferðast á milli landa eða hafa samskipti á milli tímabelta og þurfti að kanna í hvaða tímabelti hinn væri, bæta klukkustundum við þegar það lenti einhvers staðar eftir flugferðir og svo framvegis. Ekki eins og nú þar sem það er ein alheims-klukka sem er eins. Við borðum t.d. kvöldmat þegar alheims-klukkan er 15.00 hér á Íslandi og miðnætti er hér klukkan 20.00 eins og þið vitið en miðnætti er klukkan 22.00 í Svíþjóð af því að allir eru á sama tímabeltinu… við bara gerum hlutina á mismunandi tímum.

En afi, segðu okkur aðeins frá mat, heilsu og umhverfinu í þá daga.

Já krakkar mínir, það er ekki eins og það er í dag. Ég sagði ykkur áðan að græðgi og peningar stjórnuðu heiminum í þá daga. Ekkert var gert nema að það væri þjóðhagslega hagkvæmt… jafnvel þó það væri það bara til skamms tíma.

 

 • Dýrin okkar fengu stera og alls konar sýklalyf og við eitruðum matinn með skordýraeitri þegar það var verið að búa hann til. Það varð einmitt til þess að margir í dag eru ónæmir fyrir sýklalyfjum og ástæðan fyrir því að alls kyns sjúkdómar herja á okkur nú.
 • Við bjuggum til alltof mikinn mat fyrir helming heimsins en hinn helmingurinn var við hungurmörk. Stórum hluta hverrar máltíðar var hent. Þetta er ekki eins og nú þar sem við ræktum mikið af okkar mat sjálf og hendum nær engu.
 • Matur var hitaður eða jafnvel eldaður í örbylgjuofni sem var kassi sem hitaði mat á um einni mínútu því fólk vissi ekki um afleiðingarnar og enginn gaf sér tíma í neitt enda allir að vinna langt fram eftir degi eða kvöldi.
 • Vinsælasti drykkurinn var kók og var svona svört leðja sem var ódýrari en vatnið sem selt var í búðunum.
 • Hvítur sykur var í nær öllum mat, meira að segja mat sem var merktur ‘hollur’.
 • Það var meira að segja til fólk sem reykti eitthvað sem kallast sígarettur þrátt fyrir að það væri sannað að þær gætu valdið krabbameini… Þetta var bara leyft og selt í búðum enda stýrðu peningar meiru en langtíma-hagsmunir þjóðarinnar.
 • Græðgin var svo mikil að við eyddum skógum um allan heim.
 • Á Íslandi voru meira að segja jöklar og stundum var snjór í fjöllunum. Fólk stundaði eitthvað sem hét skíði og á jörðinni lifðu dýr eins og ísbirnir og mörgæsir í sínu náttúrulega umhverfi.
 • Rusl var lítið sem ekkert flokkað og nær allar umbúðir voru einnota… en það gerði enginn neitt í því vegna þess að það kostaði minna fyrir fyrirtæki og græðgi og peningaöfl réðu og enginn hélt þeim til ábygrðar fyrir framtíð jarðarinnar.
 • Fólk henti hlutum sem voru bilaðir og voru þeir bara hannaðir til þess að virka í 1-5 ár og það var dýrara að laga hlutinn en að kaupa nýjann.
 • Plast var mikið notað og voru flestir drykkir og vorur pakkað í plast. Börn voru flest í plast-bleyjum. Þetta plast endaði að miklu leyti í sjónum og á tímabili var meira plast í sjónum en fiskar. Þess vegna eru nú plast-veiði skip sem sigla um jörðina af því að við kunnum ekki að ganga um hana þegar ég var ungur.

Vá afi. Þetta var skrítinn heimur sem þú ólst upp í.

Já, en á þeim tíma fannst fólki þetta eðlilegt. Jafnvel þó það vissi betur.

——

Ingvi Hrannar Ómarsson

Framtíðar-afi.

Ingvi Hrannar Ómarsson

Creator | Educator | Designer | Everything I produce is work in progress | Stanford Alumni in Learning, Design & Technology Twitter: @IngviOmarsson / @IngviHrannar

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *