Tackk – Einföld og falleg leið til að skapa og deila.

 • 0
 • April 15, 2014

Ég finn oft, eða er bent á, ný öpp og vefsíður en verð sjaldan mjög spenntur því vanalega er það eitthvað sem ég hef séð áður en oftast er það þó eitthvað sem lítur bara vel út en er í grunninn gagnslaust. En öðru hvoru dett ég inná eitthvað sem er svo mikil snilld að það er ótrúlegt en það gerðist einmitt þegar ég fann Tackk.

Flest okkar hafa verið í þeirri aðstöðu að þurfa að búa til boðskort á einhvern viðburð og förum á Facebook og búum til hundleiðinlegt ‘invite’. Eða að við viljum skrifa grein á netið en erum ekki með blogg eða það á ekki beint heima á blogginu okkar og Twitter-skilaboð eru bara of stutt. Oft snúum við okkur til Word eða Photoshop fyrir þessar tilkynningar og búum til plakat en þau eru flókin og taka langan tíma… og viðurkennum það bara, þau eru oftast ljót með ljótt letur og litirnir passa ekki saman. Síðan prentum við plakatið út og hengjum upp í sjoppunni og íþróttahúsinu…. í alvöru, hver skoðar það?

Bjóðum hins vegar Tackk velkomið beint frá Cleveland, Ohio, USA. Í fyrstu virðist það vera eins og hver annar bloggvettvangur og svipar til Tumblr. En þegar þú prófar þetta þá sérðu hvað Tackk er fáránlega einfalt… og þú getur búið til hvað sem er, deilt því hvar sem er, fengið þitt eigið Tackk URL and breytt/bætt þetta skjal hvenær sem er…. ólíkt plakati eða .pdf skjali.

Screen Shot 2014-04-15 at 16.47.50

Ef þú ferð á Tackk.com getur þú, án þess að skrá þig, búið til færslu um hvað sem er… t.d. boðskort í partý, auglýsingu fyrir kökubasarinn, sagt frá skíðaferðinni þinni, skrifað hugleiðingar þínar eða hvað sem þér dettur í hug. Á aðeins nokkurm mínútum getur þú deilt síðunni með vinum og vandamönnum í gegnum Twitter, Facebook, Pinterest, Google+, LinkedIn, Tumblr, e-mail eða límt á heimasíðu… nefndu það bara. Ef þú skráir þig (sign-up) er Tackk-ið alltaf uppi á meðan Töckk sem eru gerð af óskráðum notendum eyðast eftir viku. Skiljanlega. (ATH sign-up er frítt og því ekkert því til fyrirstöðu fyrir flest okkar).

Þjónustan er svo fáránlega einföld en þetta myndband frá Tackk útskýrir það myndrænt fyrir þér.

Tackk er svo einfalt og fallegt að það er ekki hægt að klúðra því og ómögulegt að gera ljótt Tackk. Þau eru öll falleg!

Þú ættir að prófa það sjálf/-ur fyrir næsta viðburð, bloggfærslu, tilkynningu eða þegar þú ætlar að selja eitthvað.

Tackk_create_ingvihrannar

Eins og með flest vef-tól og öpp sem ég prófa þá skoða ég þau alltaf einnig frá sjónarhorni kennara og nemenda og spyr „Hvernig gæti þetta nýst nemendum og hvernig gæti þetta nýst kennurum?”

Tackk er svo mikil snilld einfaldlega vegna þess að það er svo einfalt, sem einmitt gerir það svo tilvalið til notkunar í skólum. Engin lykilorð eða skráning nauðsynleg sem er flott, sérstaklega fyrir unga nemendur sem eru ekki með netfang eða í samstarfsverkefnum eldri nemenda þar sem ákveða þarf á hvaða aðgangi verkefnið á að vera. En ég myndi samt skrá mig og nemendur mína því þá geymast Töckk-in alltaf, það er hægt að fara aftur í þau og breyta/bæta og aðgangurinn er frír.

Hérna eru nokkrar hugmyndir um hvernig hægt er að nota Tackk í skólum:

Tackk fyrir kennara:

 • Sem blogg til þess að deila þekkingu og hugmyndum og fá svör frá öðrum kennurum um land allt.
 • Kennsluáætlanir fyrir nemendur og foreldra, sem geta verið breytt og bætt þegar líður á árið (annað en .pdf skjöl) og skoðað hvar/hvenær sem er.
 • Sem síða fyrir Vendikennslu (e. Flipped Classroom) þar sem kennari getur sett myndbönd, myndir og texta um efnið sem nemendur geta skoðað hvar og hvenær sem er.
 • Samskipti við foreldra, t.d. sem bekkjarblogg eða boðskort á viðburði í skólanum eins og leiksýningar og foreldrafundi.

Tackk fyrir nemendur:

 • Sem rafræn ferilmappa til að sýna verk vetrarins.
 • Skrá niðurstöður rannsókna um eitthvað málefni/verkefni.
 • Skrifa umfjöllun um bók.
 • Skila verkefni í skólanum með myndbandi/texta/mynd eða hljóði
 • Sem vettvangur til að skrifa um málefni/Sannfærandi skrif
 • ….og svo miiiiiiklu meira.

Screen Shot 2014-04-15 at 17.42.44

Það sem gerir Tackk frábært er að hægt er að búa til Tackk á hvaða spjaldtölvu, snjallsíma eða tölvu sem er svo lengi sem tækið er tengt netinu og þú getur skoðað Tackk-ið þar líka. Þú þarft ekki að ná í neitt app eða setja neitt inn. Þetta er í alvöru fáránlega einfalt og er núna hin nýji staðall fyrir aðrar síður og hvernig þú kynnir viðburðinn þinn og býrð til lifandi (e. live) skjöl.

Takk Tackk.

Takk fyrir að lesa og vonandi hafðir þú gagn og gaman af.

Ingvi Hrannar Ómarsson,
Grunnskólakennari, frumkvöðull og tæknisérfræðingur með áhuga á framtíð menntunar.

www.ingvihrannar.com

 

 

Screen Shot 2014-04-10 at 11.10.57

One Comment

Leave a Reply

Your email address will not be published.

Likes