Tunglið og tækni – vinnuferli með 1.-5.bekk

Fyrr í mánuðinum fékk ég nokkra daga til þess að vinna með nemendum í 1.-5.bekk á Hólum ásamt frábærum kennurum þeirra.  Viðfangsefnið var tunglið og sólkerfið okkar og bað ég kennarana (Sigurlaugu Rún Brynleifsdóttur og Guðmundu Magnúsdóttur) að senda mér markmiðin sem þau vildu vinna með í þessari vinnu enda er það grunnurinn að allri annarri vinnu okkar.

Þegar markmiðin voru ljós ræddum við saman um það hvernig við gætum dýpkað námið með tækni og hvaða verkfæri gætu komið þar inn. Þar ákváðum við að við skyldum blanda saman bókum, fræðiritum, myndböndum, sköpun, upplifunum, forritun og mælingum

Nemendur studdust m.a. við bókina Tunglið í vinnu sinni í að afla upplýsinga.

Fyrsta sem við gerðum var að prenta út allar pláneturnar og líma á gólfið í stofunni. Sólin í miðjunni og pláneturnar röðuðust síðan í kring í réttri röð. Þetta var mjög þægilegt t.d. þegar ég vildi ná nemendunum saman að ræða hvað við höfðum lært og séð og þá fóru allir á sína plánetu og settust þar.

Nemendur áttu m.a. alltaf að skrifa texta um tunglið í tengslum við íslensku og þá var miklu öflugra að hafa „farið á tunglið” eins og nemendur höfðu upplifað í gegnum sýndarveruleika. Ég skrifaði grein í Skólaþræði árið 2017 um sýndarveruleika sem þið getið fundið hér.

Sphero geimfarið

Í stærðfræði vildum við m.a. vinna með mælingar og fjarlægðir og því var tilvalið að nota Sphero forritunarkúlur til þess að nemendur þyrftu raunverulega að mæla, mistakast, prófa aftur og vinna saman.

Sphero vakti mikla lukku, eins og vanalega og einfaldaði umræðu okkar um fjarlægðir og Sphero virkaði sem geimfar sem ferðaðist á milli plánetna og varð að sama lit og plánetan þegar hún stoppaði við þar… áður en „geimfarið” hélt áfram.

Umræður um sólmyrkva og tunglmyrkva

Það mynduðust frábærar umræður þegar nemendur komu saman í kringum jörðina og tunglið og ræddu um sólmyrkva og tunglmyrkva. Til þess notuðum við einfaldlega síma/vasaljós sem virkaði sem sólin, bolta sem tungl og jörðina sem var límd á gólfið.

Að fara á tunglið

Því næst héldu nemendur á tunglið í sýndarveruleika með Google Expeditions appinu þar sem kennari sendir 360° myndir í tæki nemenda. Þau skoðuðu fótspor á tunglinu, sáu jörðina úr geimnum og mismunandi tungl eftir því hvar það er statt m.t.t. stöðu sólar og jarðar. Með því gátum við rætt um af hverju tunglið er stundum fullt, stundum hálft og svo framvegis.

Hér er myndband sem ég klippti saman í Apple Clips með Sphero og Google Expeditions vinnunni til þess að auðvelda ykkur að skilja hvað við er átt:

Gagnaukinn veruleiki (Augmented Reality)

Næsta verk var að leyfa nemendum að skoða sólkerfið okkar í gagnauknum veruleika, þar sem sími er settur í gleraugu og hann skannar kubb sem kallast ‘Merge Cube’. Kubburinn breytist (í augum nemendans í gegnum símann) í það sem kennarinn hefur valið og í þessu tilviki var það sólkerfið. Nemendur geta því skoðað, snúið og farið nær okkar fjarlægustu plánetum og valið hverja fyrir sig og skoðað nánar.

Að fara á tunglið með Grænskjá (GreenScreen) og flytja þaðan fréttir.

Nemendur skrifuðu upp texta og unnu í pörum sem fréttamenn þar sem annar var í „stúdíóinu” og spurði spurninga, á meðan hinn fór á tunglið sem geimfari og sagði frá því sem hann sá, fann og vissi um tunglið.

Þetta var síðan klippt saman í iMovie á iPad en nemendur studdust við appið GreenScreen by DoInk til þess að setja tunglið/jörðina í bakgrunninn.

Að færa plánetur inn í skólastofuna með Google Expeditions AR

Inni í appinu Google Expeditions er hægt að birta hluti í skólastofunni og skoða þær með því að ganga með tæki í kringum blað. Tækið sýnir hlut og gefur þetta okkur tækifæri á að skoða geimskots-palla, geimskip, plánetur og margt fleira.

Ef einhver efast um gildi tækni í skólastarfi þá hvet ég þig til þess að senda þessa grein á viðkomandi. Margt má segja um tækninotkun almennt og sú notkun sem foreldrar sjá hjá sjálfum sér og börnum heimafyrir tengist skólastarfi á mjög takmarkaðan hátt. Skólinn er oft eini staðurinn þar sem nemendur fá tækifæri til þess að nálgast tæknina sem verkfæri en ekki bara leiktæki. Staður þar sem nemendur sjá hve öflug þessi verkfæri eru.

Tæknin sem nemendur nota í þessum verkefnum, og hafa í vasanum allra jafna, er með öflugri örgjöfa en allar tölvur til samans sem NASA höfðu aðgang að þegar þau sendu geimfar á tunglið árið 1969.

Með verkefni sem þessu, sem tók um viku, fengu nemendur að kafa dýpra en nokkru sinni hefði verið hægt án tækni. Bók hefði aldrei getað gefið þessa dýpt og tækifæri til eins marga upplifana eða umræðna. En með því að blanda saman tækni og bókmenntum, blanda saman því áþreifanlega með því gagnvirka getur skólastarf orðið magnað. Hver veit nema einhver af þessum nemendum verði geimfari einn daginn.

Ingvi Hrannar,
skólaþróun, nýsköpun og tækniþróun í grunnskólum Skagafjarðar.

 

Ingvi Hrannar Ómarsson

Creator | Educator | Designer | Everything I produce is work in progress | Stanford Alumni in Learning, Design & Technology Twitter: @IngviOmarsson / @IngviHrannar

1 Comment

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *