YEVVO – Lífið í beinni

Fyrir nokkrum dögum birtist appið YEVVO, hugarfóstur þriggja frumkvöðla frá Ísrael, í AppStore eftir að hafa verið í Beta (tilrauna-) útgáfu í nokkra mánuði. Innan við ár er síðan fyrirtækið var stofnað en það hefur fengið rúmlega 4 milljónir dollara frá fjárfestum síðan þá sem segir ýmislegt um þær vonir sem bundnar eru við það.

Í stuttu máli er YEVVO, með hraðara neti alls staðar, næsta kynslóð samfélagsmiðla sem nú snúast ekki lengur bara um að deila heldur líka að taka þátt. Ímyndaðu þér að þú getir, hvenær sem er, sýnt beina útsendingu í háskerpu af því sem þú ert að gera, fyrir alla sem vilja horfa, hvar sem er í heiminum. Það er YEVVO. Myndböndin eru hrá, óútreiknanleg og aldrei endursýnd… svolítið eins og lífið sjálft. Annað hvort ertu með eða ekki.

YEVVO: unpredictable. raw. no re-runs. just like life. 

Hvað_er_YEVVO_2
Viðmót YEVVO er nokkuð gott og aðeins fyrir iPhone/iPad. Þegar þú hefur sett upp aðgang er hægt að smella á ‘Go Live’. Um leið sendir appið tíst á Twitter (og jafnvel facebook ef þú vilt) um að þú sért ‘í beinni’ og getur hver sem er smellt á hlekkinn.

YEVVO prufa frá skrifstofu okkar í morgun.
YEVVO prufa frá skrifstofu okkar í morgun.

YEVVO er samfélagvefur þar sem notendur fylgja hverjum öðrum, geta átt samskipti þar inni og skrifað athugasemdir beint í myndbandið þitt en þeir sem smella á hlekkinn í tölvunni geta “aðeins” séð það. Myndböndin eru öllum opin því ef samskiptin á netinu eiga að vera á milli tveggja með myndbandi er betra að nota Skype, FaceTime eða Google Hangout.

Það sem er áhugavert er að YEVVO útsendingar eru ekki endursýndar. Annað hvort varstu með eða ekki, þó ég hafi heyrt að það verði jafnvel boðið uppá 5 sekúndna “flashback” í næstu uppfærslum appsins fyrir þá sem misstu af.

Það eru margir möguleikar með appi eins og YEVVO en við eigum það oft til að ná bara í öpp og nota án þess að hugsa um hætturnar og ábyrgðina sem fylgja.

Áhættur:

Ég hef mestar áhyggjur af börnum, en ég bendi á það að YEVVO er ekki leyfilegt yngri en 14 ára.

 1. Hægt að horfa á stream frá hverjum sem er og er aldrei að vita hvað viðkomandi ákveður að taka uppá.
 2. Hver sem er getur horft á þitt myndband og skrifað athugasemd.
 3. Þó svo að myndbandið sé í beinni útsendingu og ekki sýnt aftur er ekki þar með sagt að einhver áhorfandi sé ekki að taka það upp með svokölluðu ’Screen Recording’. Það er einföld aðgerð úr hvaða heimilistölvu sem er og veistu aldrei hvort verið sé að taka þig upp eða ekki.
 4. Þegar þú ert að senda út myndband beint gefur þú öllum sem horfa upplýsingar um þína staðsetningu. Myndband af þér í útlöndum með fjölskyldunni er vísbending um að heimilið þitt sé mjög líklega mannlaust núna, sem óprúttnir aðilar gætu nýtt sér ef þeir vilja.

Ég talaði fyrir nokkru um SnapChat og benti á að það að eyða aðganginu hjá barninu væri ekki nóg heldur þurfa foreldrar að ræða við börnin sín og fylgjast vel með því sem þau eru að gera því forritið héti SnapChat í dag og eitthvað annað á morgun. Sá dagur er kominn og hef ég trú á að þetta sé hið nýja SnapChat. Það góða við þetta er að foreldrar geta alltaf séð hvað börnin eru að sýna á þessu, en það slæma er að þau vita ekki hvað barnið hefur horft á. Það er nauðsynlegt að foreldrar setji sig inn í netnotkun barna sinna og setji skýr mörk. Gott er t.d. ná í YEVVO (ef börnin gera það), fylgja börnunum sínum þar (þá færðu skilaboð um leið og þau eru í beinni útsendingu og getur stillt inn) og nauðsynlegast að ræða um hætturnar sem leynast á slíkum miðlum. Umræður um notkun er nauðsynleg, hvað er eðlilegt að taka upp og hvað ekki og hvað eigi að gera ef þau fái óviðeignadi athugasemd, skilaboð eða jafnvel símtal frá einhverjum sem er að horfa. Á www.saft.is er ábendingahnappur og svo skal hringja beint í lögrelguna í alvarlegum málum.

Möguleikar: 

Ég sé heilmarga möguleika í notkun YEVVO og hér eru nokkrar hugmyndir.

 1. Hið nýja sjónvarp í beinni útsendingu og getur hver sem er byrjað t.d. á spjallþætti. Sem dæmi gæti Gísli Marteinn fært þáttinn sinn á sunnudögum heim í stofuna hjá sér með iPhone símanum.
 2. Fréttastöðvar og fréttablöð geta tekið viðtöl og sýnt frá viðburðum beint, t.d. stórfréttum eins og jarðskjálfta eða eldgosi.
 3. Hægt er að sýna beint frá opinberum viðburðum og íþróttaleikjum án mikils tilkostnaðar.
 4. Íþróttamiðlar geta tekið viðtöl við leikmenn að loknum leik og birt í beinni.
 5. Frægir einstaklingar (og/eða alþingismenn) geta svarað spurningum fólks í rauntíma.
 6. Skólar geta sent út beint frá árshátíðum til ömmu og afa barnanna í öðrum landshluta.
 7. Bein útsending frá skemmtilegum viðburði, tónleikum, brúðkaupi, málverkasýningu eða falhlífarstökki svo eitthvað sé nefnt.

Hvað_er_YEVVO
YEVVO er ný kynslóð af samskiptavef, eitthvað annað og öðruvísi. Það er öðruvísi á þann hátt að YEVVO er líkara raunverulegum samskiptum þar sem við erum mannleg og gerum mistök. Getum ekki Photoshop-að, strokað út heldur sýnum svipbrigði, beitum röddinni og notum líkamstjáningu til þess að koma skilaboðum áleiðis, segjum ekki alltaf réttu hlutina og leiðréttum okkur. Við gerum mistök og það er gott.

En við skulum muna að samskipti á netinu geta verið varasöm. Alveg eins og sundlaugar geta verið hættulegar, sérstaklega fyrir ung börn. Þess vegna kennum við þeim að synda, látum þau hafa kúta til að byrja með og förum alltaf með þeim í sund þangað til við treystum þeim að spreyta sig sjálf í lauginni en höfum þó augu með þeim. Við ættum að gera það sama með tæknina.

Ég hef trú á að YEVVO geti orðið mjög skemmtilegt tæki ef við notum það rétt en eins og með alla tækni tekur það okkur tíma að nota það rétt og svo virðist vera að um leið og við séum að ná tökunum á einhverju þá komi eitthvað nýtt.

Velkomin í framtíðina.

Ingvi Hrannar Ómarsson
Grunnskólakennari, áhugamaður um tölvur og tækninotkun og nemandi í M.Sc. Frumkvöðlafræði við Háskólann í Lundi, Svíþjóð.Til þess að lesa meira um samskipti á netinu bendi ég á greinina Raunveruleg samskipti í flóknum netheimi. Auk þess mæli ég með að allir, sérstaklega foreldrar, kynni sér góða og gagnlega heimasíðu Saft.

Hér getur þú séð öll nýjustu YEVVO myndbönd í heiminum:

Ingvi Hrannar Ómarsson

Creator | Educator | Designer | Everything I produce is work in progress | Stanford Alumni in Learning, Design & Technology Twitter: @IngviOmarsson / @IngviHrannar

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *