21 atriði sem eru úrelt í skóla 21.aldarinnar

Að segja: „Þetta hefur alltaf verið svona” eru ekki gild rök fyrir því að við gerum það svoleiðis áfram. Við þurfum betri rök en það. Kennarar og skólastjórnendur um allt land eru að gera frábæra hluti við oft á tíðum erfiðar aðstæður, en sumt sem enn er verið að gera og nota, þrátt fyrir nýjar lausnir, rannsóknir og hugmyndir, er ótrúlegt.
Kerfið sem við störfum í þarfnast ekki endurbóta heldur endurskoðunar frá grunni.
Ég hef tekið saman 21 atriði sem að mínu mati ættu að vera horfin og eru nú þegar úrelt í grunnskóla 21. aldarinnar. Það er von mín að þessi atriði skapi líflegar umræður um skóla og menntamál og fái skólafólk um allt land til þess að íhuga starf sitt, starfsumhverfi, aðstæður, það kerfi sem við störfum í og hvað við getum gert til að breyta því.
1. Tölvustofur
Það að flytja heilan bekk í skólastofu með úreltum tölvum, sem taka oft 15 mínútur að ræsa sig, einu sinni í viku til þess að vinna verkefni í ritvinnslu og flytja svo börnin í röð aftur inn í skólastofu 40 mínútum seinna er úrelt.
Upplýsingatækni á ekki að vera sér námsgrein heldur eiga tölvur og tækni eiga að vera eðlilegur hluti af námi og kennslu rétt eins og blýanturinn.
2. Einangraðar skólastofur
Skólastofur geta verið lokaðar á tvennan hátt, annars vegar þar sem ekkert foreldri, kennari eða gestur er velkominn, því hurðin er alltaf lokuð og dregið fyrir gluggana….Það stendur í rauninni: “ekki koma hér inn”. Hins vegar er hún lokuð fyrir öllum þeim fróðleik sem fyrir utan hana er, m.a. á netinu, myndböndum, bloggum, vefsíðum og með heimsóknum frá rithöfundum eða vísindamönnum svo eitthvað sé nefnt t.d. í gegnum Skype.
Tony Wagner, höfundur the Global Achievement Gap segir: “Einangrun er óvinur framfara”. Skólastofan á að vera opin, kennarar eiga að koma inn og læra af hvorum öðrum, foreldrar eiga m.a. að koma í heimsókn á opnari dögum (þar sem allir foreldrar eru hvattir til að heimsækja bekkinn þann daginn) og eru einangraðar skólastofur nú þegar úreltar.
3. Skólar sem eru ekki með þráðlaust net
Skólar sem eru ekki með öflugt þráðlaust net fyrir starfsfólk og nemendur eru ekki einungis að missa af stóru tækifæri í námi og kennslu heldur að ræna börnin af miklu námi og fróðleik og hindra möguleika þeirra á það að nýta sér netið á ábyrgan og skynsamlegan hátt.
Í skólum nútímans á að vera öflugt þráðlaust net svo kennarar og nemendur geti lært hvar sem er, hvenær sem er. Við þurfum að kenna þeim hvernig á að nota það en ekki láta eins og netið sé ekki til og ekki okkar mál.
4. Bann á símum og spjaldtölvum
Að setja síma og spjaldtölvur í “stofufangelsi” í stað þess að nota tækin til að efla nám og kennslu er úrelt hugsun. Tækin eru tækifæri ef við nýtum þau en truflun ef við bönnum þau. Við eigum að kenna nemendum hvernig hægt er að nota þetta og hvenær það hentar ekki. Skólar eiga að fagna tækjum og gera þau að ómissandi hluta í námi til þess að bæta nám og kennslu og að skólinn verði nær því umhverfi sem nemendur búa í utan skólans.
Símar eru ekki lengur bara tæki til þess að senda SMS og hringja… þegar þeir voru það var allt í lagi að banna þá. Nú til dags eru símarnir sem krakkarnir eru með í vasanum öflugari (e. more processing power) en allar tölvur sem NASA notaði þegar þeir sendu mann til tunglsins árið 1969.
Í dag er hægt að klippa myndbönd, taka upp útvarpsþætti, viðtöl, myndir, búa til plaköt, heimasíðu, blogga, tísta sem karakter úr bók sem verið er að lesa, eiga samræður á TodaysMeet og leita á Google til þess að svara flestum spurningum… allt í símanum. Þetta eru ekki lengur bara tæki heldur tæki-færi.
5. Tölvu”kall” með ‘Administrator’ aðgang
Ég er ekki að segja að það þurfi enginn að bera ábyrgð á tæknimálum, þvert á móti tel ég að Tækniráðgjafi með þekkingu á kennslu og skólastarfi sé besta ráðning sem hægt er að gera í skóla í dag… og helst fleiri en einn í hvern skóla. Hins vegar er tölvu”kallinn” sem er með vinnuaðstöðu í gluggalausri kjallarakompu og umkringdur gömlum tölvuskjám, hefur ‘Administrator’ aðgang að tölvunum, uppfærir forrit, heldur utan um gagnamagn á tölvupósti og heimasvæði starfsfólks og segir starfsfólki hvaða forrit það megi hafa og hver ekki… er úreltur.
Í dag þurfum við tæknisérfræðinga sem vita hvað kennarar, nemendur og starfsfólk þarf, leysir vandamál og finnur nýjar ódýrari leiðir. Þeir aðstoða fólk við að aðstoða sig sjálft, en setur ekki upp varnir svo hann sé sá eini sem geti skráð sig inn og sé ómissandi. Tækniráðgjafi skóla gefur starfsfólki ábyrgð og innleiðir nýjungar í stað þess að byggja múra.
6. Kennarar sem deila ekki því sem þeir eru að gera
Kennarar sem vinna starf sitt í hljóði án þess að blogga eða tísta um það og ræða við aðra um hugmyndir og útfærslur eru úreltir. Skólar eru ekki lengur takmarkaðir við veggina heldur er okkar starf nú einnig að miðla upplýsingum okkar á milli. Ef kennarinn er hættur að læra sjálfur á hann að hætta að kenna öðrum. Kennarar eiga að halda úti bekkjarbloggi, heimasíðu og Twitter aðgangi þar sem þeir deila því sem er að virka og fá aðstoð og hugmyndir frá öðrum kennurum um allan heim. Við þurfum að íhuga starf okkar og ræða saman um nám og kennslu því endurmenntun er ekki 3 tíma námskeið sem þú ert sendur á annan hvern mánuð heldur ævilangt ferli.
“We do not learn from experience…we learn from reflecting on experience.” -John Dewey
7. Skólar sem eru hvorki með Facebook né Twitter
Þeir skólar sem láta það nægja að halda úti heimasíðu sem þeir setja frétt á aðra hverja viku og gefa svo út fréttabréf einu sinni á önn eru úreltir.
Skólinn á að vera á Facebook til þess að deila fréttum og upplýsingum til foreldra, Twitter aðgang og umræðumerki (e.Hashtag) til þess að vera virkur í skólaumræðum, með sjónvarpsstöð á netinu sem nemendur halda úti með því að mynda viðburði í skólanum og svo framvegis. Ef skólinn gerir þetta ekki þá veit fólk ekki hvað er í gangi innan hans og þegar fólk veit ekki, þá fer það að búa til. Það besta sem skóli getur gert í því er að segja þeim frá því góða sem er að gerast, upplýsa fólk, hafa það með í ráðum og leyfa þeim að spyrja spurninga og fá upplýsingar á einfaldan hátt.
8. Gangar
Heilmikið pláss í hverjum skóla er notað í ganga sem aðeins eru notaðir í örfáar mínútur á dag. Vanalega eru þeir troðfullir í 10 mínútur og galtómir í 40-80 mínútur.
Ef skólar væru hannaðir í kringum sameiginlegt námssvæði (svæði eins og bókasafn 21.aldarinnar, sjá nánar í atriði 16) væri hægt að sleppa göngum, allavega fækka þeim. Beinir gangar með örvum hvorum megin nemendur mega ganga eru úreltir og vannýtt svæði en samt eru nýir skólar byggðir með þá í huga.
Ef þú ert með gang hjá þinni stofu skaltu ekki hika við að nota hann sem óformlegt námsumhverfi og stækka þar með stofuna, þangað til skólarnir verða betur hannaðir án þeirra.
9. Foreldraviðtöl í 15 mínútur 2x á ári.
Sú hugmynd að það nægi foreldrum að koma í foreldraviðtal í 15 mínútur fyrir áramót og 15 mínútur eftir áramót til þess að taka við einkunnarblaði og taka í höndina á kennaranum er úrelt.
Foreldrar eiga að vera stór hluti af skólastarfinu og koma reglulega í kennslustundir. Til þess að það sé hægt er ekki nóg fyrir kennara að segja á skólasetningunni: …og svo eru foreldarar alltaf velkomnir” og gefa þeim svo aldrei raunverulegt tækifæri til þess að koma í skólann. Til dæmis er hægt að auka þátttöku foreldra með opnari dögum þar sem foreldrar fá boð frá skólanum einu sinni í mánuði um að koma á ákveðnum degi þegar þeim hentar en einnig með því að fylgjast með starfinu í gegnum bekkjarblogg, Twitter frá bekknum og fleira (atriði 6 og 7).
10. Óhollur mötuneytismatur
Mötuneyti sem líta út og starfa nánast eins og skyndibitastaðir þar sem börn og starfsfólk fá ódýran og oft óhollan, fljótlegan og/eða aðkeyptan mat er úrelt.
Nokkrir skólar, sérstaklega leikskólar, á Íslandi hafa farið í lífrænt fæði og hugsað meira um innihald matarins heldur en kostnað til skamms tíma. Sjálfur heimsótti ég skóla í Vellinge í Svíþjóð þar sem 90% af matnum var lífrænn. Í skólum eiga börn að skammta sjálf á diskinn sinn og þrífa eftir sig, jafvel vaska upp eða setja í vélina ekki vegna þess að það sparar vinnuafl í skólanum heldur vegna þess að það er hluti af uppeldi, umgengni og ábyrgð. Þar að auki ættu allir skólar að rækta sitt eigið grænmeti sem nemendur vökva og læra um sem verkefni í náttúru-og heimilisfræði. Best væri að smíða gróðurhús hjá skólanum en ef það er ekki hægt er tilvalið að setja upp nokkuð sem svipar til “windowfarm” í einhverjum gluggum skólans.
Markmið með hollum mat innan skólans er ekki einungis að gefa börnum góða næringu til þess að takast á við verkefni dagsins heldur einnig til þess að venja þau á hollt mataræði og að hugsa um hvað þau borða, eitthvað sem mun nýtast þeim allt lífið.
11. Deginum skipt í 40 mínútna lotur og einangruð fög.
Þó við þurfum að fylgja áætlun er það úrelt hugmynd að tengja ekki námsgreinar og skipta þess í stað öllum deginum niður í 40 mínútna lotur. Það er gert til þess að henta kerfinu og þannig er lífið ekki því ef þú ert að gera eitthvað sem þú hefur áhuga á gleymir þú oft stað og stund. Lífið fyrir utan skólann er ekki þannig og starf innan skólans á ekki að vera þannig heldur.
Við ættum að auka val (atriði 17) og leyfa börnum að móta sín eigin verkefni (sjá t.d. Genius Hour), jafnvel stundarskrá og bera ábyrgð á eigin námi… allavega í pínu stund á viku til að byrja með.
12. Steinsteyptar og “kaldar” skólalóðir
Skóli sem sendir alla sína nemendur í frímínútur á fyrirfram ákveðnum tíma á skólalóð sem hefur lítið af leiktækjum og afþreyingu fyrir börn er úreltur. Slíkur sparnaðar hverfur fljótt í kostnaði við aukna gæslu og ekki furða að það koma upp mörg vandamál í frímínútum á slíkum skólalóðum.
Það þarf að kenna börnum leiki (sjá m.a. Vinaliðaverkefni í Árskóla og myndband hér) og gera frímínútur ekki bara að tíma svo kennarar geti fengið sér kaffi heldur tíma sem nýtist börnum til hins ítraðsta við að efla félags- og hreyfiþroska sinn, samskipti við hvort annað og umhverfið.
13. Sameiginleg salerni og sturtuklefar
Þeir skólar sem eru hannaðir með stórum salernum og búningsklefar með sameiginlegum sturtum eru ekki byggðir með nemendur (sérstaklega unglinga) í huga. Ég hef heyrt um nemendur sem forðast klósettferðir í skólanum og sturtuferðir eftir íþróttatíma eða sund af ótta við ofbeldi, stríðni eða einelt og eiga salernin því að vera fyrir einstaklinga og sturturnar einnig. Það leysir ekki eineltisvandamál eitt og sér en það kemur í veg fyrir ýmsar uppákomur.
14. Skóli sem byrjar klukkan 8.10 hjá unglingum.
Rannsóknir hafa sýnt aftur og aftur að unglingar standa sig betur og líður betur í skólum sem byrjar seinna en oft eru það þarfir foreldra, skólans og frístundastarfs sem halda aftur af þeirri breytingu. Rannsóknir (m.a. úr The Journal of Developmental & Behavioral Pediatrics) sýna ennfremur fram á að seinkun um 50 mínútur (og lenging skóla um 30 mín. í staðinn) hefur jákvæð áhrif á nám nemenda og þátttöku í tómstundastarfi.
Það er einfalt að seinka skólabyrjun hjá unglingum til þess að mæta þessum þörfum. Kennarar gætu nýtt tímann um morguninn til undirbúnings kennslu.
15. Aðkeypt þjónusta í vefhönnun, bæklingum og veggspjöldum frá skólanum.
Þegar verið er að útbúa nýja heimasíðu, bækling, auglýsingu eða veggspjald fyrir skólann á ekki kaupa þá þjónustu (þó það eigi stundum við) og látið nemendur gera þetta. Í bestu skólum framtíðarinnar eru það þeir sem gera þetta sem raunveruleg viðfangsefni í íslensku, upplýsingatækni og myndlist/leiklist/tónlist.
16. Hefðbundið bókasafn
Skólasöfn sem innihalda einungis bækur og taflborð eru úrelt. Bækur eru nauðsynlegar en eiga ekki að vera það eina sem safnið hefur að geyma.
Skólasafn 21.aldarinnar á að vera hjarta skólans þar sem nemendur og starfsfólk koma til þess að slaka á, lesa, fá ráð um tæknimál, komast í öflugar tölvur til þess að klippa myndbönd, tónlist, prenta í þrívíddarprentara (FabLab) og forrita svo eitthvað sé nefnt. Bókasafnið (þó við þurfum nýtt orð fyrir þetta fyrirbæri) á að jafna stöðu fólks og gefa öllum tækifæri á að nota tæki og efni sem erfitt er að komast í annars staðar og er ekki til á öllum heimilum. Ef við einskorðum okkur við bækurnar þá breytast bókasöfn í raunveruleg söfn þar sem fólk kemur í heimsókn til þess að skoða allt það sem við notuðum einu sinni…. svona eins og byggðasöfn eru í dag.
17. Allir nemendur gera eins.
Bekkjarkerfi, þar sem allir gera það sama á sama tíma af því að þau eru fædd sama ár, eru úrelt. Skólakerfin voru sett upp á tímum iðnbyltingarinnar til þess að þjóna hagsmunum hennar. Þá þurfti að þjálfa fólk til þess að vinna í nálægum verksmiðjum og gera það sem þeim var sagt og átti í raun enginn að skara framúr í slíku umhverfi. Þetta á ekki við í dag því með því að setja alla í gegnum sama kerfið á sama tíma erum við að reyna að setja alla í sama mót, mót sem passar ekki þörfum nútímans, hvað þá framtíðar. Skólar eru margir hverjir ennþá settir upp sem slíkar færibanda-verksmiðjur.
Við eigum að auka val nemenda, veita börnum stuðning í því sem þau eru góð en ekki aðeins auka kennslu í því sem þau ná ekki. Nemandi sem er góður í listgreinum en undir meðallagi í dönsku fær stuðning í dönsku til þess að komast til jafns við jafnaldra sína en ekki listgreinum og fær hann ekki að vera framúrskarandi í neinu. Allir jafnir, allir eins!
Menntun á að vera einstaklingsmiðuð, nemendur eiga að vinna í hópum, þvert á árganga og sníða nám að sínum áhuga og þörfum í samvinnu við kennara, foreldra sína og samnemendur og sem betur fer eru nokkrir skólar nú þegar að vinna í þessum anda.
18. Endurmenntun starfsfólks þar sem allir fá eins
Skóli sem menntar starfsfólkið sitt með námskeiði einu sinni í mánuði þar sem allir fá eins er úrelt. Endurmenntun starfsfólks er vanalega ákveðin af skólastjórnendum en ekki starfsfólkinu sjálfu, svokallað “top-down management”. Það er auðveldast og einfaldast að allir, bæði nemendur og starfsmenn, fái bara eins menntun. Því að það að allir læri það sem þeir vilja þegar þeir vilja kostar tíma, peninga, samvinnu og gríðarlegan undirbúning.
Með tækni eins og Twitter, Pinterest, greinum á netinu, bókum, myndböndum, samvinnu og samtölum geta starfsmenn einstaklingsmiðað sína endurmenntun. Þeir skólar sem gefa starfsfólki sínu tíma og tækifæri á að mennta sig sjálft með því sem þau þurfa þegar þau þurfa eru allavega á réttri leið. (Hægt er að lesa nánar um Einstaklingsmiðaða Endurmenntun hér)
19. Nærumhverfið ekki nýtt í námi og kennslu
Þeir skólar sem nýta ekki umhverfi skólans til náms og kennslu eru úreltir. Það er ekki lengur hægt að halda því fram að nám einskorðist við skólastofuna. Með tækni dagsins er menntun alls staðar og með aukinni skjánotkun og minni útiveru en áður verða skólar að taka til sinna ráða og nota umhverfið til náms og kennslu.
20. Bækur
Ég ætla ekki að segja að skólar sem noti bækur séu úreldir því bækur eru frábærar. Þeir skólar sem einskorða sig hins vegar við bækur eru að fara á mis við ótal tækifæri sem tól eins og iBooks Author og rafbækur, sem einfalda bæði að halda utan um glósur og leita í bókum svo eitthvað sé nefnt, gefa. Þeir skólar sem ekki eru að skoða nýtingu tækninnar í námi og kennslu eru úreltir. Vissulega kostar það að setja t.d. spjaldtölvur í hendur á nemendur og verður það að vera vel unnið, þó innleiðingin til fulls taki tíma… en það er dýrara til langs tíma ef við gerum það ekki.
21. Samræmd próf notuð sem helsti mælikvarðinn á gott skólastarf
Að horfa á útkomur samræmdra prófa sem mælikvarði á það hvort skólastarf sé gott eða ekki er það vitlausasta sem við getum gert og gefur okkur þrönga sýn á menntun. Niðurstöður slíkra prófa, þó hóflega mikilvægar, mæla aðeins lítinn hluta af því sem börn eiga að læra og með því að einblína á slík próf erum við að þrengja námið (e.narrowing the curriculum). Nám á að vera heildstætt og metið útfrá mörgum hliðum. Háar einkunnir á samræmdum prófum duga ekki einar og sér til þess að telja börnin okkar menntuð og tilbúin fyrir lífið. Alfie Kohn hefur meira að segja bent á mælanleg tengsl (e.statistically significant correlation) milli hárra einkunna á samræmdum prófum og grunnra viðhorfa til náms (e.shallow approach to learning).
Í dag er heimurinn gjörólíkur því sem hann var og eru þarfir samfélagsins allt aðrar. Við erum ekki lengur aðeins að þjálfa fólk sem mun starfa í okkar samfélagi heldur einnig í alþjóðasamfélagi. Með stöðluðum prófum eins og PISA og þar með að líta á menntun útfrá þröngu sjónarhorni, eru allar þjóðir að kenna það sama. Fyrir vikið verða allir eins, svipað og í verksmiðjunum. Einfalt er, á tímum alþjóðavæðingar, að flytja störf út til einhvers sem getur gert það jafn hratt og vel, fyrir minni pening. Mikilvægustu störfin í dag eru því í skapandi greinum og iðngreinum og er mikil eftirspurn eftir starfsfólki sem getur eitthvað annað, hugsað öðruvísi og hefur fengið að rækta hæfileika sína.
Andrea Schleicher (2010) sagði eitt sinn: „Skólar verða að undirbúa nemendur undir störf sem er ekki er búið að finna upp, að nota tækni sem hefur ekki verið uppgötvuð og leysa vandamál sem hafa ekki komið upp”.
Hin hefðbundna sýn á menntun gæti hafa virkað einu sinni, en í dag er það mjög vægt til orða tekið að segja að kerfið sé bilað. Sú vegferð að búa til alþjóðlega staðla er einfaldlega til þess fallin að bæta úrelt kerfi. Niðurstöðurnar eru einmitt öfugar við þá hæfileika sem eru eftirsóttir í dag, hæfileika sem eru að mestu stjórnaðir af hægra heilahvelinu og fáir hafa. Daniel Pink (2005) hefur bent á að þessir hæfileikar séu sköpun, að segja sögur, samhygð, að geta leikið sér, búið til merkingar og setja hluti í samhengi. (e.design, story, symphony, empathy, play, and meaning).
Besta menntunin snýst um að leysa vandamál, raunveruleg verkefni og spyrja spurninga í staðinn fyrir að muna og endurtaka einangraðar staðreyndir. Árangur á fullorðinsaldri er mun meira tengdur skapandi hugsun einstaklings (e.Creativity) heldur en greindarvísitölu hans (heimild). Skólar ættu að meta nám útfrá mun víðara sjónarhorni en stöðluðum prófum og þurfum við fólk með ólíka hæfileika en ekki einungis samræmda þekkingu. Ég velti fyrir mér hvernig skólastarf myndi breytast ef samræmd próf mældu ekki aðeins stærðfræði, náttúrufræði og íslensku heldur samhygð, skapandi-og gagnrýna hugsun og samskipti. Er það slíkt próf sem þarf til þess að breyta áherslunum?
Lokaorð
Þetta eru þau atriði sem ég tel upp núna og eiga við í dag. Það er verið að bæta öll menntakerfi í heiminum en ég tel að það einfaldlega ekki nóg…. þeim þarf að umbylta og endurskoða frá grunni. Kerfið á ekki að breytast í eitthvað betra heldur eitthvað annað. Þetta er ekki auðvelt verk en eins og S.E. Phillips sagði:
Anything worth having, is worth fighting for.
Að fara gegn straumnum af því þú veist að það er rétt og eitthvað sem þarf að gera er ekki auðvelt. Margir munu efast og oftar en ekki verða nýju aðferðirnar mældar gegn gömlu aðferðunum m.a. með gömlum prófum. Ef þú ert að gera eitthvað nýtt til þess að fá aðrar niðurstöður en áður er ekki skrítið að það komi ekki vel út ef miðað er við gömlu markmiðin. Ástæðan fyrir því að við erum að gera eitthvað nýtt er ekki til þess að fá betri útkomu úr gömlu prófunum heldur til þess að fá nýjar niðurstöður í takt við nútímann.
Henry Ford sagði eitt sinn; Ef ég hefði spurt fólkið hvað það vildi, hefði það beðið um hraðari hesta.
Það er einmitt það sem við erum að gera svo oft í dag. Við erum að biðja börnin að muna meira, skrifa betur og endurtaka það sama og áður bara hraðar…eins og hesturinn sem við viljum að fari hraðar, þegar í rauninni við ættum að vera að hanna og prófa bílinn. Vissulega var bíllinn ekki fullkominn í byrjun og menntakerfið okkar verður það ekki heldur, það er ekki eitthvað sem verður tilbúið. Það er og á að vera í stöðugri þróun.
Ég er ekki með svarið að fullkomnu menntakerfi… og tel að það sé ekki einu sinni til. En ég hef trú á að ef við ræðum saman, prófum okkur áfram, rannsökum, deilum því sem við erum að velta fyrir okkur og gera og þorum að gera eitthvað annað en allir aðrir munum við komast nær því.
Ef þú vilt sjá breytingu á menntakerfinu skaltu byrja í skólastofunni þinni. Við getum ekki beðið eftir að breytingar komi annars staðar frá.
“Education can be encouraged from the top-down but can only be improved from the ground up”
– Sir Ken Robinson
Áfram kennarar og starfsfólk skóla og haldið áfram að vinna ótrúlegt starf á hverjum degi.
Ingvi Hrannar Ómarsson
Grunnskólakennari, frumkvöðull og áhugamaður um menntamál, tækni og skóla framtíðarinnar.
www.ingvihrannar.com
10/10 sammála hverju einasta orði
Frábær grein, Ingvi. Svo margt þarna sem hægt væri að gera strax, án þess að þurfa mikið fjármagn, fyrst og fremst spurning um hugarfar. Ætla klárlega að deila þessu með því fólki sem ég þekki innan menntageirans og hvetja það til dáða. Líður stundum, sem foreldri, eins og ég þurfi að “vernda” börnin mín fyrir þessu hefðbundna skólakerfi og passa að það festi þau ekki inni í kassanum, á meðan mér finnst líka eins og ég verði að tala alfarið ábyrgð á því að kenna þeim svo margt sem er nauðsynlegt í nútímaheimi, eins og sköpun, tölvufærni og umgengni um hinn stóra heim internetsins. Takk kærlega fyrir pistilinn – keep up the good work!
Er sammála flestu í þessari grein en er ekki hætta á að kennari brjóti lög um persónuvernd ef hann heldur úti bekkjarbloggi? Þú talar um að börnin eigi að skammta sér sjálf og ganga frá, sem ég er svo hjartanlega sammála ( börnin læra sín takmörk í matarskömmtum, kemur í veg fyrir offituvandamál, lærir að meta næringuna ofl. ofl. ) en í dag mega börn ekki skammta sér vegna laga og reglna um hreinlæti og hollustuhátta. Við sem kennarar viljum ekki brjóta lög en á sama tíma er erfitt að vinna gegn betri vitund. Ég held að flestir kennarar geri sér grein fyrir hvað þetta er mótsagnakennt, að eltast við PISA á kostnað listgreinanna og annarra hæfileika sem börnin gætu ræktað með sér. Þannig að þetta getur ekki byrjað í kennslustofunni heldur verður þetta að koma að ofan frá stjónrendum, með lagabreytingum og fleiru.