7 atriði um tækni sem eru úrelt í skóla 21.aldarinnar

Að segja: „Þetta hefur alltaf verið svona” eru ekki gild rök fyrir því að við gerum það svoleiðis áfram. Við þurfum betri rök en það. Kennarar og skólastjórnendur um allt land eru að gera frábæra hluti við oft á tíðum erfiðar aðstæður, en sumt sem enn er verið að gera og nota, þrátt fyrir nýjar lausnir, rannsóknir og hugmyndir, er ótrúlegt.
Kerfið sem við störfum í þarfnast ekki endurbóta heldur endurskoðunar frá grunni.
Ég hef tekið saman 21 atriði sem ættu að vera horfin og eru nú þegar úrelt í grunnskóla 21. aldarinnar og mun birta þau í 3 færslum á næstu 7 dögum, Atriði 1-7 snúa að tækni, 8-14 eru um skólann og skipulag og 15-21 eru um nám og kennslu. Ég vona að þetta skapi líflegar umræður um skóla og menntamál, veki athygli á því sem auðveldlega væri hægt að breyta og fá skólafólk um allt land til þess að íhuga starf sitt, starfsumhverfi, aðstæður, það kerfi sem við störfum í og hvað við getum gert til að breyta því.
1. Tölvustofur
Það að flytja heilan bekk í skólastofu með úreltum tölvunum, sem taka oft 15 mínútur að ræsa sig, einu sinni í viku til þess að vinna verkefni í ritvinnslu og flytja svo börnin í röð aftur inn í skólastofu 40 mínútum seinna er úrelt.
Upplýsingatækni á ekki að vera sér námsgrein heldur eiga tölvur og tækni eiga að vera eðlilegur hluti af námi og kennslu rétt eins og blýanturinn.
2. Einangraðar skólastofur
Skólastofur geta verið lokaðar á tvennan hátt, annars vegar þar sem ekkert foreldri, kennari eða gestur er velkominn, því hurðin er alltaf lokuð og dregið fyrir gluggana….Það stendur í rauninni: “ekki koma hér inn”. Hins vegar er hún lokuð fyrir öllum þeim fróðleik sem fyrir utan hana er, m.a. á netinu, myndböndum, bloggum, vefsíðum og með heimsóknum frá rithöfundum eða vísindamönnum svo eitthvað sé nefnt t.d. í gegnum Skype.
Tony Wagner, höfundur the Global Achievement Gap segir að: “Einangrun sé óvinur framfara”. Skólastofan á að vera opin, kennarar eiga að koma inn og læra af hvorum öðrum, foreldrar eiga m.a. að koma í heimsókn á opnari dögum (þar sem allir foreldrar eru hvattir til að heimsækja bekkinn þann daginn) og eru einangraðar skólastofur nú þegar úreltar.
3. Skólar sem eru ekki með þráðlaust net
Skólar sem eru ekki með öflugt þráðlaust net fyrir starfsfólk og nemendur eru ekki einungis að missa af stóru tækifæri í námi og kennslu heldur að ræna börnin af miklu námi og fróðleik og hindra möguleika þeirra á það að nýta sér netið á ábyrgan og skynsamlegan hátt.
Í skólum nútímans á að vera öflugt þráðlaust net svo kennarar og nemendur geti lært hvar sem er, hvenær sem er. Við þurfum að kenna þeim hvernig á að nota það en ekki láta eins og netið sé ekki til og ekki okkar mál.
4. Bann á símum og spjaldtölvum
Að setja síma og spjaldtölvur í “stofufangelsi” í stað þess að nota tækin til að efla nám og kennslu er úrelt hugsun. Tækin eru tækifæri ef við nýtum þau en truflun ef við bönnum þau. Við eigum að kenna nemendum hvernig hægt er að nota þetta og hvenær það hentar ekki. Skólar eiga að fagna tækjum og gera þau að ómissandi hluta í námi til þess að bæta nám og kennslu og að skólinn verði nær því umhverfi sem nemendur búa í utan skólans.
Símar eru ekki lengur bara tæki til þess að senda SMS og hringja… þegar þeir voru það var allt í lagi að banna þá. Nú til dags eru símarnir sem krakkarnir eru með í vasanum öflugari (e. more processing power) en allar tölvur sem NASA notaði þegar þeir sendu mann til tunglsins árið 1969.
Í dag er hægt að klippa myndbönd, taka upp útvarpsþætti, viðtöl, myndir, búa til plaköt, heimasíðu, blogga, tísta sem karakter úr bók sem verið er að lesa, eiga samræður á TodaysMeet og leita á Google til þess að svara flestum spurningum… allt í símanum. Þetta eru ekki lengur bara tæki heldur tæki-færi.
5. Tölvu”kall” með ‘Administrator’ aðgang
Ég er ekki að segja að það þurfi enginn að bera ábyrgð á tæknimálum, þvert á móti tel ég að Tækniráðgjafi með þekkingu á kennslu og skólastarfi sé besta ráðning sem hægt er að gera í skóla í dag… og helst fleiri en einn í hvern skóla. Hins vegar er tölvu”kallinn” sem er með vinnuaðstöðu í gluggalausri kjallarakompu og umkringdur gömlum tölvuskjám, hefur ‘Administrator’ aðgang að tölvunum, uppfærir forrit, heldur utan um gagnamagn á tölvupósti og heimasvæði starfsfólks og segir starfsfólki hvaða forrit það megi hafa og hver ekki… er úreltur.
Í dag þurfum við tæknisérfræðinga sem vita hvað kennarar, nemendur og starfsfólk þarf, leysir vandamál og finnur nýjar ódýrari leiðir. Þeir aðstoða fólk við að aðstoða sig sjálft, en setur ekki upp varnir svo hann sé sá eini sem geti skráð sig inn og sé ómissandi. Tækniráðgjafi skóla gefur starfsfólki ábyrgð og innleiðir nýjungar í stað þess að byggja múra.
6. Kennarar sem deila ekki því sem þeir eru að gera
Kennarar sem vinna starf sitt í hljóði án þess að blogga eða tísta um það og ræða við aðra um hugmyndir og útfærslur eru úreltir. Skólar eru ekki lengur takmarkaðir við veggina heldur er okkar starf nú einnig að miðla upplýsingum okkar á milli. Ef kennarinn er hættur að læra sjálfur á hann að hætta að kenna öðrum. Kennarar eiga að halda úti bekkjarbloggi, heimasíðu og Twitter aðgangi þar sem þeir deila því sem er að virka og fá aðstoð og hugmyndir frá öðrum kennurum um allan heim. Við þurfum að íhuga starf okkar og ræða saman um nám og kennslu því endurmenntun er ekki 3 tíma námskeið sem þú ert sendur á annan hvern mánuð heldur ævilangt ferli.
“We do not learn from experience…we learn from reflecting on experience.” -John Dewey
7. Skólar sem eru hvorki með Facebook né Twitter
Þeir skólar sem láta það nægja að halda úti heimasíðu sem þeir setja frétt á aðra hverja viku og gefa svo út fréttabréf einu sinni á önn eru úreltir.
Skólinn á að vera á Facebook til þess að deila fréttum og upplýsingum til foreldra, Twitter aðgang og umræðumerki (e.Hashtag) til þess að vera virkur í skólaumræðum, með sjónvarpsstöð á netinu sem nemendur halda úti með því að mynda viðburði í skólanum og svo framvegis. Ef skólinn gerir þetta ekki þá veit fólk ekki hvað er í gangi innan hans og þegar fólk veit ekki, þá fer það að búa til. Það besta sem skóli getur gert í því er að segja þeim frá því góða sem er að gerast, upplýsa fólk, hafa það með í ráðum og leyfa þeim að spyrja spurninga og fá upplýsingar á einfaldan hátt.
—–
Það eru vissulega mun fleiri atriði en þessi 7 sem mætti breyta varðandi tæknina en þetta eru flest atriði sem einfaldlega væri hægt að breyta á næstu dögum. Ef þú vilt hafa samband, hefur hugmynd eða ábendingu ekki hika við að hafa samband.
Áfram kennarar og starfsfólk skóla og haldið áfram að vinna ótrúlegt starf á hverjum degi.
Ingvi Hrannar Ómarsson
Grunnskólakennari og nemi í Frumkvöðlafræði við Háskólann í Lundi, Svíþjóð og áhugamaður um menntamál, tækni og skóla framtíðarinnar.
www.ingvihrannar.com
Follow @IngviOmarsson
Follow @IngviHrannar
Þú talar bara um tölvutækni… bjóst við meiru, miðað við titilinn.
Lesa greinina, ekki bara skanna – það stendur skýrum stöfum í innganginum: “Atriði 1-7 snúa að tækni, 8-14 eru um skólann og skipulag og 15-21 eru um nám og kennslu”. Flott grein hjá þér Ingvi, hlakka til að lesa restina :o)
Ég er reyndar ekki alveg sammála þessu með símana. Það eru ekki allir foreldrar sem að geta gefið börnunum sínum 50 þús kr síma
Þetta þarf ekki að vera svo dýrt. https://www.nova.is/barinn/farsimar/valinnsimi/Samsung%20Galaxy%20Pocket%20Plus/41125
Sæll
Ég er kennari, og sammála þér um flest. Hlakka mikið til að lesa framhaldið. Ég hló upphátt nokkrum sinnum við þennan lestur. Ég tek samt ekki undir útfærslu þína á atriði númer 6 nema að litlu leiti og myndi gjarnan vilja ræða frekari leiðir til að útfæra það atriði.
Kveðja
Hallur
Já, endilega. Gaman að heyra hvað þér finnst. Hvar getum við rætt þetta? Heyrðu í mér á Twitter @ingvihrannar eða e-mail ingvihrannar@me.com