Apríl með 6.bekk, 5.bekk og í Sphero forritun

Eins og ég hef sagt frá í þessum 3 bloggfærslum (Janúar í 8.bekk / Febrúar í myndlist / Marsmánuður í 5.bekk) þá breytti ég áherslum í starfi mínu verulega eftir áramót þannig að nú starfa ég nær eingöngu í einum árgangi eða með ákveðnum kennara í nokkrar vikur í senn. Allt annað er auka.
Aprílmánuður fór að miklu leyti í 6.bekk í Árskóla auk þess að vera talsvert í 5.bekk í Árskóla og heil vika sem fór nær eingöngu í vinnu með Sphero (forritanleg vélmenni).
Hér er stiklað á því helsta sem gerðist þennan mánuðinn.
5.bekkur – framhald frá marsmánuði
Eftir fjörugan marsmánuð með 5.bekk gat ég ekki slitið mig alveg frá þeim því mörg verkefni voru enn óunnin úr bókinni Benjamín dúfa. Hér getið þið séð hvað gerðist í mars (Marsmánuður í 5.bekk).
Flokkun
Við héldum áfram með flokkun í náttúrufræði og gerðu nemendur myndbönd í Stop Motion þar sem þau annað hvort leiruðu lífrænan úrgang og sýndu hringrásina… eða að þau unnu með flokkun á rusli.
Hverfið í Benjamín dúfu byggt úr mjólkurfernum

6.bekkur
Í byrjun apríl færði ég mig til 6.bekkjar og vann með kennurunum þremur þar að ýmsum verkefnum. Hér er brot af þeim.
Unnið eftir markmiðum en ekki vinnubókum
Það fyrsta sem kennarahópurinn gerði var að fara saman yfir markmið vetrarins. Þau markmið settum við í Google Sheets skjal sem við höfðum öll aðgang að. Fliparnir heita eftir námsgreinum í Aðalnámskrá grunnskóla. Vinstra megin í skjalinu voru markmiðin og síðan settum við verkefnin efst. Síðan var hakað í hvaða verkefni við ætluðum að vinna og hvaða markmiðum það ynni að. Ekki nóg með að hakað væri í heldur var vægi hvers markmiðs metið í hverju verkefni.
Bók mánaðarins – Fólkið í blokkinni
Því næst ákváðum við að kaupa árgangssett af bókinni „Fólkið í blokkinni” eftir Ólaf Hauk Símonarson og vinna með hana í apríl með árganginum og nýta í sem flestum námsgreinum.
Verkefnin voru margbreytileg og komu inn á stærðfræði, íslensku, samfélagsfræði, lífsleikni, myndlist, leiklist og náttúrufræði svo eitthvað sé nefnt. Þar sem myndir segja meira en mörg orð ætla ég að setja myndasyrpu af vinnunni hér að neðan með örútskýringum.
Flipgrid
Nemendur unnu alls 6 verkefni í Flipgrid í tengslum við bókina. Þetta var m.a. umræður um gæludýr, stærðfræði þar sem þau fóru út í búð og fengu ímyndaðan 500 kall til að kaupa það sem þau vildu og áttu að reikna út heild og afgang. Síðasta verkefnið var svo að túlka eina persónu í bókinni með 30-90 sekúndna myndbandi. Enginn nemandi fékk sömu persónuna.
Orðflokkar með Markup í iPad
Þetta verkefni var hluti af því að nemendur greindu eina blaðsíðu í bókinni niður í sagnorð, nafnorð og lýsingarorð. Þau fengu senda mynd í gegnum Apple Classroom og teiknuðu inn á myndina í mismunandi litum eftir orðflokkum.
Að teikna fjall í Paper by 53
Í bókinni er m.a. talað um fjöll og unnum við því með fjall að eigin vali hvers nemanda þar sem hann rannsakaði fjallið og teiknaði það í Paper by 53 appinu.
Ferðalag í flóttamannabúðir
Í bókinni er persóna Mintola sem er flóttamaður. Hann lendir m.a. í kynþáttafordómum af Robba húsverði og varð það til umræðna við nemendur um flóttamenn, rasisma og virðingu fyrir öllum.
Við nýttum tækifærið og sendum alla nemendur í ferðalag í Sýndarveruleika í flóttamannabúðirnar í Zatari í Jórdaníu.
Hér má sjá grein eftir mig í Skólaþráðum um sýndarveruleika í skólastarfi.
Persónulýsingar
Á meðan á lestri bókarinnar stóð héldum við utan um allar persónur og lýsingar á þeim. Rituðum niður allt sem við vissum um þær og gerðum nákvæmar persónulýsingar á hverri jafnóðum. Alls um 25 persónur.
25 nemendur fengu það hlutverk að leika/túlka hverja persónu í myndbandi auk þess að teikna sína persónu á blað sem var um 12×12 cm. Hinir 12 í bekknum fengu það hlutverk að byggja blokkina á meðan.
Að byggja blokkina
Blokkin var byggð í um 190 cm hæð úr pappakössum og hver persóna (mynd) límd á sína réttu hæð. Þar sem enginn bjó voru búnir til gluggar með engri persónu í.
Nemendurnir 25 sem léku persónur æfðu, fundu búninga sem hentuðu persónuninni, léku og klipptu í Apple Clips á iPadinum
Útkoman var stórkostleg þar sem við pöruðum myndbandið með ‘HP Reveal’ við myndina og gerðum blokkina gagnvirka þar sem hverja mynd/persónu var hægt að skanna inn og birtist myndbandið ofan á teiknuðu myndinni.
Sphero forritunarvika
Heil vika í mánuðinum fór samt í það að taka á móti 2 starfsmönnum frá Sphero sem vildu kynna sér forritunarvinnu í Árskóla og í tilefni af því að ég var valinn sem 1 af 18 Sphero Heroes í heiminum, sem er þeirra æðsti hópur kennara í forritun á Sphero.
Verkefnin voru margbreytileg en ég var með 10 nemendur í 5.bekk í vikunni, 10 nemendur í 7.bekk og 9 nemendur í 8.bekk. Hér er brot af verkefnunum sem tengdust forritun, hönnun, verkfræði, samvinnu, tækni, vísindum, leiklist, myndlist og stærðfræði.
Ég get ekki skrifað allt hingað inn strax þar sem við bíðum nú eftir myndbandi frá heimsókn Sphero sem er væntanlegt á næstu mánuðum.
Dans með Sphero
Nemendur forrituðu Sphero til þess að dansa í takt. Þarna er unnið með takt, samvinnu, samskipti, sköpun, útreikninga og gleði
Speglun í stærðfræði
Nemendur forrita 2 Sphero kúlur til þess að spegla leið hverrar annarar. Þarna vinna þau með forritun, röð aðgerða, samvinnu og form.
Tindastólsmerkið með 6 Sphero kúlum.
Þar sem Tindastóll voru að fara að spila í úrslitum í körfu um kvöldið þá var tilvalið að para saman 6 nemendur og 6 Sphero kúlur og forrita Tindastólsmerkið og taka ljósmynd í ‘Long Exposure’ eða ‘Slow Shutter’ appi.
BattleBots
Eitt af verkefnunum sem við gerðum var ‘BattleBots’ þar sem nemendur fengu ‘Sphero Chariot‘, Lego, Blað, límband, grillpinna, nálar, lím og blöðru. Markmiðið: Að byggja öruggt bardagatæki með það að markmiði að sprengja blöðru annarra liða.
Markmið: Samvinna, hönnunarhugsun, að læra að keppa og þakka fyrir leik, verkfræði og að vinna með höndunum.
Sphero leikrit
Nemendur unnu 2-5 saman og völdu sér sögu sem þau lásu og skipulögðu. Síðan gerðu þau handrit, bjuggu til búninga, fundu bakgrunn í grænskjá og forrituðu Sphero kúlurnar til þess að færast í takt.
Hér að neðan má sjá stutt atriði úr Sphero-rauðhettu:
Leikstjórarnir þrír með aðalpersónurnar þrjár, Rauðhettu, úlfinn og ömmuna.
Það er óhætt að segja að þessi mánuður hafi verið líflegur og skemmtileg, skapandi vinna farið fram. Það er mín von að kennarar, nemendur og þið hafið lært af þessum mánuði og getið notað eitthvað af þessum framkvæmdabanka aprílmánaðar.
Vá hvað ég elska að vera kennari!
Takk fyrir lesturinn. Vonandi gagnast þetta þér og þínum nemendum í meira skapandi námi í takt við Aðalnámskrá grunnskóla, með eða án tækni (…helst með samt).
Heyrið í mér ef einhverjar spurningar vakna.
Ég er á Twitter @IngviHrannar
Ingvi Hrannar