Blönduð kennsla á unglingastigi í Árskóla í COVID með Google Sites og Google Meet

Ný reglugerð um takmörkun á skólastarfi lá fyrir seint um síðustu helgi og var ljóst að gera þyrfti ráðstafanir til þess að gæta sem mest að öryggi nemenda og kennara. Nám og kennsla á unglingastigi í Árskóla var því fært bæði í stað- og fjarnám á meðan að óvissa er mikil og reglugerðir strangar.

Til þess að gefa kennurum, nemendum og foreldrum gott yfirlit á náminu og að reyna að halda úti eins góðu skólastarfi og hægt er miðað við aðstæður ákváðum við að gera einfalda heimasíðu í gegnum Google Sites í svipuðum anda og GIljaskóli á Akureyri gerði í mars/apríl.

Skipulag unglingastigs

Skipulag unglingastigs þessar vikur er með þeim hætti að nemendur koma í skólann í rúmlega 2 klukkustundir frá 8.30-10.30. Þá fara þeir heim og hefst fjarkennsla klukkan 11-12 og svo aftur 13-14.

Hér að neðan er dæmi um stundatöflu á unglingastigi sem gildir a.m.k. til 17.nóvember 2020

Google Sites sem miðpunkturinn

Í stað þess að nemendur fái endalaus ný boð um fundi á Google Meet ákváðum við að fylgja góðu fordæmi Giljaskóla og halda utan um námið á Google Sites heimasíðukerfi Google.

Á síðunni (sem má sjá skjámynd af hér að ofan) er hver árgangur með síðu og undir henni eru vinnuáætlanir (Google Docs skjal), litaherbergi, hnappur til að hitta kennara beint (Meet fundur með kennara), hópaskiptingar, leshópar (Meet), hlekkur á opinn tíma klukkan 13.00 og hnappur á hlekk í skipulagi í íþróttum svo eitthvað sé nefnt.

Með þessu móti hafa foreldrar, nemendur og kennarar einn stað til þess að hefja kennslu.

Svona sjá kennarar síðuna og geta bætt inn, breytt, lagað og komið skilaboðum áleiðis til nemenda og foreldra.

Nemendur geta smellt á mynd af hverjum kennara til þess að komast í tíma hjá honum á milli 11-14. Þannig þarf kennarinn ekki að bjóða nemendum, hann þarf ekki að opna nýjan fund og ekkert vesen. Fundirnir eru aðeins opnir þeim sem eru innan Árskóla (með netfang frá skólanum).

Það eru m.a. hlutir eins og Google Sites, Meet, Docs og fleira sem gerir Google kerfið svo fullkomið fyrir skólastarf!

Vinnuáætlun á Google Docs

Ein af undirsíðum hvers árgangs er vinnuáætlun fyrir vikuna sem bæði nemendur og foreldrar hafa aðgang að skoða og kennarar hafa aðgang að breyta. Áætlunin er svo límd í eina undirsíðu og uppfærist sjálfkrafa um leið og kennarar bæta/breyta.

Að búa til Meet fund

Með því að nota Google Sites einföldum við það hvernig nemendur nálgast kennslustundir og fundi með kennurum. En það er ekki sama hvernig fundurinn er búin til. Fyrst þarf kennari að búa til Meet fund.

Þegar þessi skjár kemur upp hafa kennarar tvo möguleika á fundi. Ef þeir skrifa ‘Nickname’ á fundinn lokast hann til frambúðar þegar síðasti þátttakandi fer af honum. Við slepptum því hins vegar og fórum beint í ‘Continue’. Þá opnast fundur sem er alltaf opinn og ekki þarf stöðugt að búa til nýja fundi.

Næst er það að afrita hlekkinn sem birtist (fundakóðann) og setja á Google Sites síðuna og birta. Þannig þarf kennari ekki að senda boð heldur hafa bæði kennarar og nemendur aðgang að fundarhlekknum á einum stað.

Hver kennari/árgangur býr til marga Meet fundi

Þegar síðan er uppsett búa kennarar til fund í Meet fyrir sig og setja hlekkinn við sína mynd þannig að nemendur komist í tíma til þeirra þegar hann hefst.

Litahópar eru síða með 6 Meet fundum og geta kennarar þannig skipt nemendum í hópa á einfaldan hátt og beint nemendum á sinn lit og svo flakkar kennarinn á milli, rétt eins og hann væri að labba á milli borða.

Einnig gerðum við Meet fundi fyrir hvern leshóp (um 3-6 nemendur í hverju hópi) annig að nemendur fara þangað inn þegar þeir eru að lesa og ræða um bókina sem árgangurinn er að lesa saman.

Einfaldara líf fyrir kennara, nemendur og foreldra

Með því að skipuleggja námið með þessum hætti einfölduðum við skipulag og yfirsýn fyrir nemendur, kennara og foreldra. Kennarar þurfa ekki að búa til fund fyrir hvern einasta tíma og deila á nemendur heldur er einn einfaldur staður fyrir nemendur að mæta í tíma, finna nýja stundaskrá og hvað á að gera hverju sinni.

Ekki var ákveðið að senda nemendur einfaldlega heim með bunka af heimavinnu heldur reynt að fara blandaða leið þar sem nemendur mæta í skólann að hluta og eru heima (í tíma) að hluta. Þannig höldum við rútínu nemenda en höldum einnig uppi kennslu utan skóla. Nemendur hafa greiðan aðgang að kennurum og yfirsýn á verkefni hverju sinni.

Kennarar hjá okkur hafa enn einu sinni sinnt starfi sínu stórkostlega. Mitt starf gengur m.a. út á að einfalda þeim vinnuna sína og gera þeim kleift að nota tæknina til þess að bæta nám nemenda. Þessi lausn hefur svo sannarlega gert það og gefið kennurum færi á að einbeita sér að námi og kennslu nemenda.

Vonandi nýtist þessi hugmynd ykkur og þökkum við vinum okkar í Giljaskóla (og Bergmanni Guðmundssyni) fyrir að deila henni til okkar og við útfærðum svo áfram eftir okkar þörfum.

Vonandi getur þú útfært þetta eftir ykkar þörfum til að gera fjarkennslu einfaldari og árangursríkari.

Ingvi Hrannar

Ingvi Hrannar Ómarsson

Creator | Educator | Designer | Everything I produce is work in progress | Stanford Alumni in Learning, Design & Technology Twitter: @IngviOmarsson / @IngviHrannar

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *