Er kominn tími á nýtt starfsheiti kennara?


Á tímum mikilla breytinga í samfélaginu er óumflýjanlegt að skólarnir, sem eiga að endurspegla samfélagið, breytist einnig. Hlutverk kennara er að breytast og snýst í mörgum skólum ekki lengur um að vera stjarnan á sviðinu sem hellir þekkingu sinni yfir til nemenda sem taka bara við henni gagnrýnislaust og endurtaka svörin á prófi. Við eigum að skapa aðstæður þar sem allir nemendur geta blómstrað og leyfa þeim að finna svörin sjálf, en helst að öllu vilja finna spurningarnar sjálf.

Hlutverk kennarans á að vera og verður á næstu árum eitthvað sem ég kalla “Lead Learner” (en vantar aðstoð við að finna gott íslenskt orð yfir það) og er breyting á sýn okkar á kennarastarfið sem við upplifðum sjálf sem nemendur á yngri árum. ‘Lead Learner’ viðurkennir að hann viti fæst (og stundum minnst) en er tilbúinn að læra. Þorir að prófa sig áfram, gerir mistök, prófar aftur, hlustar á aðra og er fyrirmynd fyrir nemendur um að nám sé ævilangt og einstaklingsmiðað ferli.

„Ef kennari er hættur að læra á hann að hætta að kenna!”

Starfsfólk skólanna, og þá meina ég allt starfsfólkið, á að vera að læra alla daga með nemendum. Við erum fyrirmyndir um það hvað við viljum sjá nemendur okkar gera og hvernig þau eiga að læra. Ég er ekki að tala um að mæta bara á fyrirlesturinn sem allt starfsfólkið er sent á einu sinni á önn um forvarnir gegn einelti, eða fundinn um skráningu á Mentor sem allir voru skikkaðir að mæta á heldur að læra það sem þú hefur áhuga á, þegar þú hefur áhuga á og velta því fyrir þér, ræða og þora að prófa. Sýna nemendum hvað það er að vera nemandi en ekki bara segja þeim það. Ef starfsfólkið sjálft er aldrei á bókasafninu að lesa, hvernig er hægt að búast við að nemendur sæki þekkingu þangað? Hvaða fyrirmyndir hafa þau í náminu? Ef það eru ekki við, hverjir þá?

Ég legg til að við hefjum leit að nýju starfsheiti fyrir kennara, starfsheiti nær danska orðinu ‘Lærer’ því ég tel að það sé nær okkar nýju starfslýsingu og því sem við erum að stefna. Ekki lengur einhver sem kennir nemendum 21.aldar um efni 20.aldar með aðferðum 19.aldar heldur fyrirmynd um að nám sé ævilangt ferli sem tekur aldrei enda.

Hugsum það saman og takk fyrir að lesa.

Ingvi Hrannar Ómarsson,
Grunnskólakennari og frumkvöðull með áhuga á framtíð menntunar.

www.ingvihrannar.com

Mynd fengin frá: https://apps.carleton.edu/reason_package/reason_4.0/www/images/903908.jpg

Ingvi Hrannar Ómarsson

Creator | Educator | Designer | Everything I produce is work in progress | Stanford Alumni in Learning, Design & Technology Twitter: @IngviOmarsson / @IngviHrannar

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *