Hvað frábærir kennarar gera öðruvísi.

Í ljósi átaksins ‘Hafðu Áhrif’ þar sem framúrskarandi kennarar voru verðlaunaðir fyrir störf sín fannst mér áhugavert að kynna mér aðeins og velta fyrir mér hvað það þýði að vera framúrskarandi kennari. Hvað er það sem þeir gera sem gerir þá framúrskarandi á sínu sviði. Ég fór í bókahilluna mína og náði mér aftur í bókina: What Great Teachers Do Differently – 17 things that matter the most eftir Todd Whitaker (@ToddWhitaker á Twitter) sem ég hafði lesið spjaldanna á milli árið 2012. Mér fannst við hæfi að glugga í hana aftur og stikla á stóru um atriði hennar ásamt því að bæta við mínum eigin hugleiðingum.

Hvaða kennari sem er getur keypt sér nýjustu kennslufræðibækurnar, lesið námskrána fram og aftur og bæði þeir bestu og verstu geta náð ágætis einkunnum í kennaranáminu ef þeir leggja sig fram. Það þýðir þó ekki að viðkomandi verði góður kennari þegar á hólminn er komið. Það sem skilur á millri fagmanna innan stéttarinnar (þeirra allra bestu) og áhugamannanna (þeirra verri), hvernig sem það er svo mælt, er ekki hvað þeir vita heldur hvað þeir gera.

Að tala við aðra kennara um starfið og fylgjast með hvað frábærir kennarar gera er mikilvægt fyrir báða aðila til þess að vaxa í starfi. Í dag eru ótal möguleikar við að læra um hvað aðrir eru að gera og að líta á bestu kennarana víðs vegar um heiminn og velta fyrir sér þeirra aðferðum er öllum hollt. Það er hægt að gera með heimsóknum, myndböndum, lestri og fleira. Kennarar verða að viðurkenna að við þurfum að gera betur og breyta okkar kennsluháttum í takt við þróun og þarfir samfélagsins.

1. Það snýst um fólk, ekki verkefni

Góður skóli er með gott starfsfólk. Viðhorf nemenda og foreldra til starfsfólksins skipta miklu máli um það hvernig fólk lítur á skólann og viðhorf þess til hans. Vissulega geta góð verkefni hjálpað til en án starfsfólks í stöðugri starfsþróun og með áhuga á sínu starfi þá gerist ekkert. Þó einhvern kennari noti eitthvað verkefni/forrit á áhugaverðan og árangursríkan hátt þýðir það ekki að allir geti það. Þegar við færum eitt yfir alla verður fólk að hafa vald yfir því hvernig það notar það og mótar það að sínum þörfum. Það skiptir í raun ekki máli hvað þú gerir heldur hvernig þú gerir það.

2. Að gera miklar kröfur

Bestu kennararnir gera miklar kröfur en þeir lélegu setja margar reglur en þeir verstu einbeita sér að afleiðingum þess þegar reglurnar eru brotnar. Bestu kennararnir setja viðmiðin strax og fylgja einföldum viðmiðum allt árið. Það getur annað hvort verið:

  • Sýndu virðingu.
  • Vertu undirbúin/-nn.
  • Vertu á réttum tíma.

-eða-

  • Berðu virðingu fyrir sjálfum þér.
  • Berðu virðingu fyrir öðrum.
  • Berðu virðingu fyrir skólanum.

3. Ef þú segir eitthvað skaltu standa við það

Eins og góðir þjálfarar þurfa kennarar að meina það sem þeir segja (nema þeir uppgötvi að það sé kolrangt… þá breyta þeir og biðjast afsökunar).

Ein leið sem kennarar nota þvi miður of oft er að hóta að hringja heim þegar nemendur haga sér illa. Það gæti haft áhrif strax en ekki langvarandi áhrif. Það er miklu betra bara að hringja heim og tala við foreldra um vandamálið því í fyrsta lagi gefur það okkur möguleika að segja frá okkar hlið fyrst og nemendur vita að við hótum ekki bara heldur tökum á málunum.

4. Forvarnir í stað hefndar

Þegar nemandi hagar sér illa sjá framúrskarandi kennarar til þess að sú hegðun eigi sér ekki stað aftur. Rifrildi við nemanda endar alltaf á einn veg… kennari tapar, því um leið og það hefst þá höfum við tapað. Í öllum samskiptum nemanda og kennara þarf að minnsta kosti einn að vera fullorðinn og það er best að það sé kennarinn.

5. Miklar væntingar – en fyrir hvern?

Kennarar haf miklar væntingar til nemenda en þeir bestu hafa enn hærri væntingar til sjálfs síns. Lélegir kennarar hafa miklu meiri væntingar til annarra heldur en þeirra sjálfra og kvarta yfir því hvað allir aðrir eru ómögulegir.

6. ‘Hver?’ er breytan

Framúrskarandi kennarar vita að þeir eru breytan í stofunni. Ef eitthvað gengur illa hjá þeim skoða þeir hvað þeir geti gert betur, þeir lélegu benda á nemendurna, foreldra þeirra, aðra kennara eða skólastjórann. Velgengni hefst með því að horfa á okkur sjálf og hvað við getum gert betur… ekki með því að bíða eftir að allir aðrir breytist.

7. Einbeittu þér að nemendum fyrst.

Við þurfum að hafa breiða sýn á það sem við gerum og horfa lengra en dagurinn í dag í því sem þeir gera. Bestu kennararnir spyrja sig: Er þetta það besta fyrir nemendur mína? ef svarið er JÁ þá halda þeir áfram. Þeir verstu spyrja sig: Er þetta það besta fyrir mig?

8. Tíu dagar af tíu.

Eitt af því helsta sem góðir kennarar gera er a þeir búa til jákvætt andrúmsloft í kringum sig og skilja mikilvægi þess að hrósa. Framúrskarandi kennarar bera virðingu fyrir öllum, nemendum og starfsfólki og gera það alla daga. Það er hægt að treysta á þá að þeir geri það 10 daga af 10.

9. Settu tóninn

Við þurfum að setja tóninn og nemendur og aðrir sem vinna með okkur ætlast til þess að við gerum það. Framúrskarandi kennarar eru jákvæðir og tala vel um aðra. VIð þurfum að setja jákvæðan tón og smitum þar með aðra. Það er ekki alltaf auðvelt en það er þess virði.

10. Gerðu betur þó þú haldir að þú þurfir það ekki.

Frábærir kennarar leggja hart að sér að halda samböndum sínum við nemendur, starfsfólk og foreldra í góðu lagi. Það tekur tíma en er þess virði.

11. Hæfileikinn að hunsa

Framúrskarandi kennarar hafa þann einstaka hæfileika að hunsa hegðun. Það þýðir ekki að þeir taki ekki eftir, því þeir vita alveg hvað er í gangi. Þeir kunna hins vegar, af reynslu, hvaða málum þarf að taka á strax og hver megi bíða. Þeir sýna einnig mikla sjálfsstjórn sem nemendur spegla ósjálfsrátt. Þetta er erfitt og hef ég séð marga reynda kennara ná góðum tökum á þessu.

12. Ekkert uppúr þurru

Einn af hornsteinunum góðs kennara er að fátt gerist uppúr þurru. Allt sem er gert hefur tilgang og ef það gengur ekki þá íhugar hann vel hvað fór úrskeiðis, hvað hann getur gert betur og lagar það.

13. Byggðu allar ákvarðanir á besta fólkinu

Það getur vel verið að við kennum ‘miðju-hópnum’ og miðum allt við þau. Framúrskarandi kennarar miða hátt og spyrja sig að þessum þremur spurningum:

  • Hver er tilgangurinn?
  • Mun þetta hjálpa til að ná því?
  • Hvað mun besta fólkinu finnast?

Það eru mistök að einbeita sér endalaust að fólkinu (starfsfólki eða nemendum) sem standa sig verst. Við þurfum að spyrja besta fólkið og fá svör frá þeim… það er vonlaust að spyrja hina. Láttu þá bestu hafa áhrif og það mun hafa góð áhrif á alla aðra.

14. Í öllum aðstæðum, hverjum líður best og hverjum líður verst?

Hvernig nemendur haga sér endurspeglar það sem við búumst við af þeim. Þegar tveir erfiðustu nemendur skólans labba saman ganginn þegar þeir eiga að vera í tíma er líklegt að við spyrjum þá/þær hvað þau séu að gera hér og af hverju þær/þeir séu ekki í tíma. Hins vegar ef tveir bestu nemendur skólans labba saman ganginn er líklegt að þeim sé mætt með góðu viðmóti og brosi. Best er að koma fram við báða hópana eins og þau séu að gera rétt. Bestu kennararnir miða sínar ákvarðanir við þá bestu og búast við að allir séu góðir og geri sitt besta.

15. Settu þig í þeirra spor

Nemendur eru jafn misjafnir og þeir eru margir. Framúrskarandi kennarar geta sett sig í spor annarra. Þeir eru fyrirmyndir nemenda sinna í framkomu og námi og búast við því besta. Þeir stefna á það að vera kennarinn sem þeir vildu að börnin sín væru með.

16. Hvað með þessu samræmdu próf?

Bestu kennararnir láta ekki hluti eins og samræmd próf, sem eru ekki markmið menntunar, trufla sig í því sem skiptir öllu máli. Félagslegi hlutinn, sjálfstraust, hegðun, ábyrgð, sköpun, samskipti, samvinna og gagnrýnin hugsun skiptir miklu meira máli þó það sé ekki mælt fyrr en börnin fara að standa á eigin fótum.

17. Það er ‘kúl’ að þykja vænt hvort um annað

Það að faðmast, hjálpast að og búa til samfélag í skólastofunni skiptir miklu meira máli en hvernig nemendum gengur á skriflegum prófum. Það á ekki að undirbúa börn fyrir skrifleg próf heldur próf lífsins. Menntunin á að snúast um að vinna með öðrum, bera virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum og gera sitt allra besta.

“I’ve learned that people will forget what you said, people will forget what you did, but people will never forget how you made them feel.” – Maya Angelou

Að vera kennari og vinna í skóla er magnaðasta starf sem til er. Það er krefjandi en gleðjandi. Duglegasta og klárasta fólk sem ég þekki eru kennarar og ég er stoltur af því að vinna í skóla.

Ingvi Hrannar
www.ingvihrannar.com



Stytting og þýðing á ‘What Great Teachers Do Differently – 17 Things That Matter The Most’ eftir Todd Whitaker (@ToddWhitaker á Twitter).

 

https://www.youtube.com/watch?v=VXCl2fMsdTU

https://www.youtube.com/watch?v=lWXwziQEa8w

Ingvi Hrannar Ómarsson

Creator | Educator | Designer | Everything I produce is work in progress | Stanford Alumni in Learning, Design & Technology Twitter: @IngviOmarsson / @IngviHrannar

3 Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *