#menntaspjall 11.janúar um Menntabúðir (EdCamp)

Áhugafólk hvaðanæva af landinu sem og utan landsteinanna, hafa nýtt annan hvern sunnudag til þess að ræða menntamál á örbloggvefnum Twitter undir umræðumerkinu #menntaspjall (Hægt er að læra á #menntaspjall á 5 mínútum hér).
Þátttakan hefur verið framar vonum og var verkefnið tilnefnt til Foreldraverðlauna Heimilis og skóla s.l. vor.
Fyrsta #menntaspjall á nýja árinu verður á Twitter á sunnudaginn, 11. janúar, kl. 11-12. Að þessu sinni verður umræðuefnið Menntabúðir og er gestastjórnandi Bjarndís Fjóla Jónsdóttir (@bjarjons) sem stýrir UT-torgi hefur skipulagt fjölda menntabúða fyrir hönd UT-torgs í samstarfi við MenntaMiðju og Rannsóknarstofu í UT og miðlun.
Spurningarnar verða (þó allar komist líklega ekki að):
1. Hvernig hafa menntabúðir gagnast ykkur í kennslu og starfsþróun?
2. Hvað hafa menntabúðir fram yfir aðrar leiðir til símenntunar og starfsþróunar?
3. Hvernig mætti hvetja kennara til aukinnar þátttöku í menntabúðum?
4. Hvernig mætti nota menntabúðir til að miðla þekkingu og reynslu milli landsvæða?
5. Hvernig mætti tengja menntabúðir betur við starfsþróun kennara í einstökum skólum?
6. Hvaða hindranir eru fyrir því að menntabúðir gagnist sem leið til símentunar og starfsþróunar fyrir kennara?
Á menntabúðum kemur fólk saman til þess að miðla af eigin reynslu og þekkingu og afla sér fróðleiks frá öðrum þátttakendum. Menntabúðir stuðla að tengslamyndun og samvinnu fólks sem er að þreifa sig áfram með nýtingu nýrrar tækni og miðla í skólastarfi. Menntabúðir eru áhrifarík leið til að skapa jafningjaumhverfi þar sem þátttakendur læra saman og prófa sig áfram með ýmis áhugaverð viðfangsefni.
Ed Camp from True Life Media on Vimeo.
Skjáumst á sunnudaginn, 11.janúar kl.11.00 á Twitter.
Ingvi Hrannar, Tryggvi og Barndís Fjóla