#Menntaspjall verður í fyrramálið kl. 11 á Twitter. Umræðuefni: Áhugaverðar nýjungar í kennslu.

Á morgun, sunnudaginn 26.janúar klukkan 11.00 verður #menntaspjall á samskiptavefnum Twitter. Fyrsta spjallið fór fram 12.janúar s.l. og tóku rúmlega 50 manns, kennarar og áhugafólk um menntamál, beinan þátt í spjallinu á meðan þónokkrir fylgdust með umræðunum.
#Menntaspjall tengir áhugasamt skólafólk um allt land, með umræðum og vangaveltum og einstaklingsmiðar endurmenntun með því að gefa fólki vettvang til þess að deila hugmyndum um kennslufræði og skólastarf. Markmiðið er að auka menntun starfsfólks um land allt og deila því sem vel er gert.
Umræðuefni næstu viku var ákveðið með kosningu í vikunni hér á vefnum og verður rætt um “Áhugaverðar Nýjungar í Kennslu” að þessu sinni.
Til þess að gera spjallið markvissara ætlum við að prófa að birta spurningarnar núna og gefa ykkur örlítinn tíma til þess að velta þeim fyrir ykkur og jafnvel undirbúa svör fyrir morgundaginn. Endilega nýtið tímann til þess að finna greinar um áhugaverðar nýjungar í kennslu, myndönd sem þið finnið og/eða myndir úr eigin starfi fyrir okkur hin að sjá og læra af. Hérna eru spurningarnar, en ekki er þó víst að allar komist að:
- 11.00 – Þátttakendur byrja á því að kynna sig.
- Q1: Segðu okkur frá áhugaverðri nýjung í kennslu sem þú hefur notað eða heyrt af. *Endilega settu inn hlekk eða mynd með.
- Q2: Hvernig lærir þú um áhugaverðar nýjungar í kennslu og hvernig deilir þú því til samstarfsfólks?
- Q3: Hvaða hindranir eru fyrir því að nota nýjungar í kennslu?
- Q4: Eru nýjungar í kennslu sem þér finnst vera þrýstingur á að nota en þú hefur litla trú á?
- Q5: Hvaða nýjung í námi og kennslu í dag telur þú að muni festa sig í sessi í skólastarfi og vægi hvers mun minnka í staðinn?
- Q6: Hvaða nýjung ertu stoltastur/-ust af í þínum skóla eða skóla barnsins þíns sem aðrir ættu að kynna sér?
Spurningunum verður varpað fram með um 10 mínútna millibili og skulu þáttakendur svara með því að setja S og númer spurningarinnar á undan, síðan svarið sitt og loks #menntaspjall á eftir. Sjá mynd:
Sögu síðasta spjalls má lesa hér, til þess að gera sér betur grein fyrir hvernig það fer fram. Munið einnig að þegar þið leitið að #menntaspjall á Twitter á morgun að velja ‘All‘ eins og myndin sýnir hér að neðan til þess að fá upp öll svör:
ATH: Ef þú hefur áhuga á að taka þátt en hefur ekki stofnað Twitter aðgang þá hef ég útbúið leiðbeiningar hér fyrir þig og eru þær neðst í færslunni.
Allir sem hafa aðgang að tölvu og nettengingu geta tekið þátt klukkan 11.00 í fyrramálið í þessu öðru formlega spjalli um menntamál með því að hafa Twitter aðgang og skrifa #menntaspjall í leitarstikuna efst.
Sameinumst í að auka umræðu um menntamál samhliða því að kynnast samstarfsfólki um allt land sem hefur ótrúlegar hugmyndir og aðferðir sem eru jafnvel ólíkar þínum eigin eða þess sem er að gerast innan þíns skóla.
Látið boðið ganga og s(k)jáumst á morgun klukkan 11.00.
Ingvi Hrannar Ómarsson (Meðstjórnandi), grunnskólakennari og nemi í Frumkvöðlafræðum við Háskólann í Lundi – www.ingvihrannar.com
Follow @IngviOmarsson
Follow @IngviHrannar
Tryggvi Thayer (Meðstjórnandi), verkefnisstjóri MenntaMiðju – www.menntamidja.is
Follow @TryggviThayer
#Menntaspjall verður fastur liður annan hvern sunnudag á samskiptavefnum Twitter klukkan 11.00 og stendur í um klukkustund. Greinar, myndir, vangaveltur, spurningar og hugmyndir má þó setja inn á Twitter undir umræðumerkinu #menntaspjall hvenær sem er. Aðeins þessi klukkutími er annan hvern sunnudag er frátekinn fyrir ákveðið umræðuefni.
Hér má sjá stutt myndband þar sem #menntaspjall er útskýrt:
Twitter fyrir byrjendur:
- Þú byrjar á því að fara NÚNA á twitter.com og búa til aðgang. Þú býrð til notendanafn og setur inn nafnið þitt og aðrir notendur geta leitað eftir notendanafninu (@) eða nafninu þínu. Skrifaðu svo lykilorðið þitt hjá þér…. ekki gleyma því!
- Þú skrifar aðeins um þig og setur inn mynd… enginn tekur einhvern alvarlega sem er með eggið sem prófíl-mynd (þ.e. myndin sem allir byrja með).
- Þú leitar að fólki til þess að fylgja. Hér er listi af áhugafólki um menntamál á Íslandi sem ég hef tekið saman.
- Þú fylgist með og skoðar það sem vekur áhuga þinn og lærir inná þetta hægt og rólega.
- ….og ferð svo að prófa þig áfram.
- Síðan kíkir þú á þennan pistil minn og skilur vonandi eitthvað í honum.
- Ekki láta það koma þér á óvart þó þú skiljir þetta ekki alveg fyrst og sjáir ekki strax hvers vegna þú ert að þessu…. Atriði númer eitt er að hræðast ekki mistök og gefa sér tíma í að skilja þetta. Það tók mig nokkra mánuði að fatta þetta og mundu að við vorum (og erum) öll byrjendur í þessu.
- Á morgun, sunnnudaginn 26.janúar klukkan 11.00 ferðu svo á Twitter.com og skrifar #menntaspjall í leitarstikuna efst og tekur þátt í umræðunni með okkur.
- S(K)jáumst annan hvern sunnudag kl. 11 (26/1, 9/2, 23/2 og svo frv.).
Ingvi Hrannar Ómarsson og Tryggvi Thayer.