#menntaspjall um kjör og starfsaðstæður kennara (27.nóv.2016)

Kjarabarátta kennara er ekki ný af nálinni. Starfskjör og starfsskilyrði kennara eru eins og úfinn sjór. Á þessum sjó sigla skólarnir frá því í byrjun ágúst fram í byrjun júní þar sem vinnutíminn er langur og álagið mikið. Öðru hverju fær flotinn á sig brotsjó, vélin bilar og bátana flatrekur. Fólkið sem stendur í landi vonar að allir um borð séu syndir og að báturinn sé nægilega vel byggður til að skila verðmætunum í land. Í bátunum er duglegt fólk sem hefur mátt þola hvert áfallið á fætur öðru og ýmis konar tímabundna erfiðleika. Loks eftir mörg ár af lélegu viðhaldi og lítilli endurnýjun í mannskap hafa kennarar fengið nóg. Óveðursský hrannast upp og fólk í landi er farið að gera sér grein fyrir að svona getur þetta ekki gengið lengur. Um þessar mundir segja kennarar unnvörpum upp vistinni og útlitið ekki gott. Allt stefnir í að á næstu árum verði skortur á menntuðum kennurum verulegur og það hefur afleiðingar sem óneitanlega vekja upp spurningar.
#menntaspjall á sunnudaginn fjallar m.a. um kjör og starfsaðsæður kennara og hvað sé til ráða að þeirra mati. Gestastjórnandi verður Þorgerður L. Diðriksdóttir.
Spurningarnar sem verða lagðar til grundvallar verða:
1. Af hverju ákvaðst þú að verða kennari/starfa í skóla?
2. Hvaða þætti í störfum kennara þarf að meta til launa?
3. Hvað þarf að gera (annað en hækka laun) til þess að halda betur í góða kennara?
4. Hvað þarf að gera (annað en hækka laun) til þess að fjölga nemum í kennarafræðum?
5. Hvaða þætti þarf að laga í starfsumhverfi og starfskjörum kennara til þess að þeir verði sáttir við stöðu sína?
Skjáumst á morgun, sunnudag, á Twitter.
Ingvi Hrannar, Tryggvi og Þorgerður