#menntaspjall um samræmd próf 30.nóv. kl.11

Áhugafólk hvaðanæva af landinu sem og utan landsteinanna, hafa nýtt annan hvern sunnudag til þess að ræða menntamál á örbloggvefnum Twitter undir umræðumerkinu #menntaspjall (Hægt er að læra á #menntaspjall á 5 mínútum hér).
Þátttakan hefur verið framar vonum og var verkefnið tilnefnt til Foreldraverðlauna Heimilis og skóla s.l. vor.
Sunnudaginn, 30. nóvember, kl. 11-12 verður rætt verður um samræmd próf en þau eiga sér langa sögu á Íslandi og hefur verið deilt um þau nær samfellt síðan þau voru fyrst lögð fyrir nemendur fyrir um 85 árum. Á undanförnum árum hafa verið gerðar töluverðar breytingar á fyrirkomulagi samræmdra prófa en varla er hægt að segja að sátt um þau sé í sjónmáli. Í umræðum um samræmd próf má segja að þar togast á ólíkar grunnhugmyndir um eðli menntunar og hlutverk menntastofnana og eru því fáir sem ekki hafa skoðun á þeim.
Spurningar sem lagðar verða fyrir eru:
1. Hvers konar mynd af stöðu nemenda gefa samræmd próf í grunnskólunum?
2. Hvernig er unnið með niðurstöður samræmdra prófa í skólanum þínum?
3. Ef ný samræmd próf væru gerð í dag hvernig fyrirkomulag ætti að vera á þeim?
4. Ef hætt yrði að leggja fyrir samræmd próf frá og með morgundeginum hvaða áhrif hefði það á menntun?
5. Hvaða hæfni ættu samræmd próf að meta sem þau gera ekki í núverandi mynd?
Skjáumst á sunnudaginn kl.11 (30.nóvember) á Twitter.
Ingvi Hrannar, Tryggvi