Öpp ársins 2014

Árið 2014 var áhugavert að mörgu leyti og prófaði ég fjölmörg öpp og vefsíður fyrir nám mitt í Svíþjóð, fyrir mig persónulega sem og starf mitt sem kennsluráðgjafi í upplýsinga-og tæknimálum. Það eru nokkur sem standa uppúr og hafa hjálpað mér að læra meira, halda utan um greinar og myndbönd, deila með öðrum og auðvelda samstarf og skipulag.

Á árinu setti ég meira að segja eitt app í AppStore (BookRecorder) en þó ég sé stoltur af því þá kemst það ekki inn á listann minn af bestu öppum ársins 2014 þó ég mæli hiklaust með því fyrir kennara, foreldra og börnin sjálf.

Hér að neðan eru öpp ársins í engri sérstakri röð því ólíkt listanum 2013 bið ég lesendur að kjósa besta appið sitt með því að gefa öppunum “þumal upp” eða “þumal niður” neðst á síðunni.

evernote-logo

Evernote var app ársins 2013 og er klárlega eitt af öppum ársins 2014. Nú fer ég að nálgast 1000 “nótur” þar inni og geymi m.a. greinar, .pdf skjöl, minnismiða, innkaupalista, uppskriftir og hugmyndir svo eitthvað sé nefnt. Það besta við Evernote er að geta notað það þvert á öll tæki, síma og tölvur sem app eða bara á netinu með því að skrá sig inn á evernote.com. Þannig get ég nálgast nóturnar hvar og hvenær sem er.

Einn af skemmtilegri ‘fídusum’ finnst mér nú að geta deilt nótum með öðrum með því að fara í Share > Copy Public Link og deilt nótunni með öðrum sem geta þá skoðað og/eða vistað í sitt Evernote.

PodcastBanner

Podcast appið frá iTunes er einstaklega vel heppnað og einfalt í notkun. Þegar ég uppfærði í iOS 8 þá birtist það inni hjá mér og bjóst ég við að þetta væri bara enn eitt rusl appið sem maður verður að hafa í símanum sínum eins og Newsstand, Stocks, iTunes Store eða Weather svo eitthvað sé nefnt.

Síðan fór ég þarna inn og leitaði m.a. að ‘Education’ og ‘Manchester United’ og viti menn… upp komu útvarpsþættir um nákvæmlega það efni. Ég tísti líka og spurði fólk erlendis hvaða Podcöstum væri best að ‘subscribe-a’ á. Það er nefnilega snilldin, að fá að vita um leið og nýr þáttur kemur inn af því sem ég fylgi og þannig að þetta persónulegt og hentar mínu áhugasviði.

Ofan á þetta bættist síðan að Menntavarp okkar Ragnars Þórs, spjallþáttur um menntamál fór inná Podcast hjá iTunes enda tel ég Podcast vera framtíð útvarps (og jafnvel sjónvarps að einhverju leyti).

Tackk-tackk

Tackk. Ég finn oft, eða er bent á, ný öpp og vefsíður en verð sjaldan mjög spenntur því vanalega er það eitthvað sem ég hef séð áður en oftast er það þó eitthvað sem lítur bara vel út en er í grunninn gagnslaust. En öðru hvoru dett ég inná eitthvað sem er svo mikil snilld að það er ótrúlegt en það gerðist einmitt þegar ég fann Tackk. Svo mikil snilld að ég skrifaði grein um það hér.

Flest okkar hafa verið í þeirri aðstöðu að þurfa að búa til boðskort á einhvern viðburð og förum á Facebook og búum til hundleiðinlegt ‘invite’. Eða að við viljum skrifa grein á netið en erum ekki með blogg eða það á ekki beint heima á blogginu okkar og Twitter-skilaboð eru bara of stutt. Oft snúum við okkur til Word eða Photoshop fyrir þessar tilkynningar og búum til plakat en þau eru flókin og taka langan tíma… og viðurkennum það bara, þau eru oftast ljót með ljótt letur og litirnir passa ekki saman. Síðan prentum við plakatið út og hengjum upp í sjoppunni og íþróttahúsinu…. í alvöru, hver skoðar það?

Tackk virðist vera eins og hver annar bloggvettvangur og svipar til Tumblr. En þegar þú prófar þetta þá sérðu hvað Tackk er fáránlega einfalt… og þú getur búið til hvað sem er, deilt því hvar sem er, fengið þitt eigið Tackk URL and breytt/bætt þetta skjal hvenær sem er…. ólíkt plakati eða .pdf skjali.

Ég hef notað það heilmikið á árinu í alls kyns verkefni og heimasíður og mæli hiklaust með því.

google-hangouts-feature

Hangouts on AIR er viðbót við Google Hangout og verð ég að segja að er svo einfalt að það er ótrúlegt. Hangouts on AIR gerir fólki kleift að spjalla saman og senda það út í beinni útsendingu (í gegnum YouTube). Ég nefndi Google Hangout í listanum í fyrra en ‘on AIR’ hefur gert mér kleift að búa til spjallþátt á ótrúlega einfaldan hátt og er þetta tilvalið ef fólk vill senda eitthvað út í beinni útsendingu (og eiga það svo áfram á YouTube).

tweetdeck-banner

TweetDeck er nauðsynlegt app fyrir þá sem eru annað hvort með marga Twitter aðganga og/eða tekur þátt í spjalli á Twitter líkt og #menntaspjall eða einhverju hliðstæðu. Þetta hefur allavega auðveldað mér lífið mjög.

Padlet

Padlet er eitt af þessum tólum sem eru snilld þegar kemur að skipulagi og samvinnu. Í raun er það bara veggur á netinu sem hver sem er getur skrifað á (ef þú vilt) en það getur líka bara verið veggur fyrir þig. Ég þarf í rauninni ekki að útskýra meira heldur er best að þú kíkir bara á það.

Umano

Umano er app sem ég heyrði af í gegnum Podcast þátt sem ég var að hlusta á. Umano er ítalska fyrir Human/Manneskju enda ekki skrítið því þetta eru vinsælustu og áhugaverðustu fréttir og greinar hvaðanæva að, lesnar fyrir þig af alvöru manneskju. Þetta er svo mikil snilld þegar maður er að vinna, úti að ganga eða að elda svo eitthvað sé nefnt. Skráðu þig hér.

vCRRc

Nuzzel er app sem tekur saman vinsælustu fréttirnar/greinarnar sem vinir þínir á Facebook og/eða Twitter eru að tala um og deila. Það eru nokkuð mörg öpp til sem taka saman og búa til greinasafn fyrir þig en Nuzzel stendur uppúr hjá mér núna því þetta er einföld leið til þess að finna bestu greinarnar síðustu 1-24 tímana (því fleiri sem þú fylgir t.d. á Twitter því betra því þá eru greinarnar sniðnari að þér og þínum hópi).

Á Twitter eiga greinarnar til að hverfa, sérstaklega ef þú ert að fylgja nokkur hundruð eða þúsundum manna en Nuzzel tekur þetta saman og birtir á einfaldan hátt ólíkt t.d. Flipboard eða Zite þar sem þú þarft að fletta í 15-30 mínútur til þess að fara í gegnum allt efni dagsins. Með Nuzzel gera vinir þínir það fyrir þig og ég get skoðað það á einni mínútu og hent í vasann/Pocket.

pocket

Pocket er app sem er ekki hægt að sleppa. Það er ómissandi þáttur í að halda utan um það sem ég þarf að lesa. Þannig að þegar ég fer í gegnum Twitter, Zite eða Nuzzel fyrir daginn þá vista ég greinar og myndbönd í ‘vasann’ og skoða svo þegar ég hef tíma. Þetta er ómissandi tól… reyndar er það mér svo ómissandi að ég var í topp 5% af lesendunum þeirra á árinu 2014…

 

Hér getið þið kosið hvert er ykkar uppáhalds app af þessum öllum:

 

Ingvi Hrannar


Ingvi Hrannar Ómarsson

Creator | Educator | Designer | Everything I produce is work in progress | Stanford Alumni in Learning, Design & Technology Twitter: @IngviOmarsson / @IngviHrannar

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *