Pinterest sem tæki fyrir kennara

Skólinn hefur breyst heilmikið frá því að foreldrar barnanna sem nú eru skóla sátu sjálf á skólabekk. Tíminn þar sem kennarinn stendur upp við töfluna, þylur upp staðreyndir sem börnin eiga að muna og lætur þau svo fylla inn ljósrituð vinnublöð og verkefni frá árinu 1959 er að líða undir lok. Nú er ekki ólíklegt að ef labbað sé inn í kennslustofu séu nemendur að vinna á ólíkum stöðvum í verkefnum sem henta hverjum og einum. Meiri áhersla er lögð á sköpun, samvinnu, einstaklingsmiðun og samskipti en áður. Kennarar um allt land eru að vinna frábært starf.

Sem kennari er ég alltaf að leita leiða til þess að koma til móts við alla nemendur mína, hafa krefjandi og skemmtileg verkefni sem höfða til nemenda. En allir þeir sem hafa einhvern tímann unnið við kennslu vita það að tíminn sem er áætlaður við undirbúning kennslu fer oftar en ekki í stigsfundi, starfsmannafundi, samráðsfundi, fundi með foreldrum, endurmenntunarnámskeið, laga til í skólastofunni, prenta, ljósrita, lesa tölvupósta eða fundargerðir og fleira.

Á yngsta stigi, þar sem list-og verkgreinar skipa stóran sess (stærri en stærðfræði skv. viðmiðunarstundarskrá), er mikið um stöðvavinnu/hringekju og í mörgum skólum eru stöðvar m.a. í byrjendalæsi, stærðfræði, samfélags-og náttúrufræði og öðrum greinum. Mikill tími hjá mér fór í að finna hentugar stöðvar sem voru í takt við hugmyndir mínar um nám og kennslu í nútíma skólastarfi, sem og að undirbúa þær og oftar en ekki var í sjálfboðavinnu langt fram á kvöld, stundum til 23.00, að undirbúa næsta dag.

Árið 2012 fór ég hins vegar að nota vefsíðuna Pinterest töluvert til þess að hjálpa til við hugmyndir og setti inn myndir til þess að hjálpa öðrum. Þvílík snilld!

Hvað er Pinterest?
Pinterest er í raun rafræn korktafla þar sem notendur geta fest myndir/vefsíður/hugmyndir á sína vef-korktöflu. Hægt er að búa til töflu (board) fyrir nærri hvaða viðfangsefni sem er eins og tísku, uppskriftum, brúðkaupshugmyndum, bílum, húðflúrum og ferðalögum. Möguleikarnir eru nær óendanlegir. Einn möguleikinn er að velja ‘Education‘ og hafa þá kennarar um allan heim sett inn myndir úr sínu starfi til þess að aðstoða aðra. Á bakvið flestar myndir á Pinterest er vefsíða þar sem myndin hefur verið sett á. Hins vegar er hægt að setja inn einungis mynd án þess að bak við það sé sérstök síða. Þannig að hver sem er getur tekið mynd af verkefni úr sinni skólastofu og sett á Pinterest fyrir aðra að sjá. Þetta er samvinna þar sem þú setur inn nokkrar myndir en færð þúsundir í staðinn. Margt smátt gerir eitt stórt.
Hægt er að ná í Pinterest App fyrir síma og spjaldtölvur en einnig að skoða www.pinterest.com í venjulegri tölvu.

Edu
Pinterest hjálpaði mér gríðarlega við það að finna og útfæra frábær verkefni og ég hef trú á að síðan geti hjálpað öðrum kennurum um allt land við að gera slíkt hið sama.

Hér má finna nánari útskýringu á Pinterest fyrir kennara og útfærslur í námi og kennslu.

Hér er hægt að sjá Kennslu-korktöfluna mína hér að neðan og hvet ég þig til þess að búa til þína eigin.

Follow Ingvi Hrannar Ómarsson’s board Education on Pinterest.

Gangi þér vel og vonandi aðstoðar þetta þig við að finna betri verkefni fyrir nemendur og nýta tímann þinn betur. Með því að vinna saman, setja inn eina og eina mynd af okkar starfi fyrir aðra að sjá, náum við öll betri árangi. Það er samvinna.

Ingvi Hrannar Ómarsson, grunnskólakennari og nemi í Frumkvöðlafræðum við Háskólann í Lundi.


 

bc58c3d2

together-everyone-achieves-moreMynd fengin frá: http://www.tonymcstravick.com/wp-content/uploads/2012/09/together-everyone-achieves-more.jpg

Ingvi Hrannar Ómarsson

Creator | Educator | Designer | Everything I produce is work in progress | Stanford Alumni in Learning, Design & Technology Twitter: @IngviOmarsson / @IngviHrannar

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *