Samfélagsmiðlar og sundlaugar


Facebook, Twitter, Instagram, Youtube, Tumblr, Snapchat, Pinterest, Kik, Yik-Yak, WhatsApp og ég gæti haldið nær endalaust áfram. Þetta eru allt heiti sem hafa sprottið upp á síðustu árum og er varla til það foreldri eða kennari á Íslandi sem hefur ekki heyrt um að lágmarki helming af þessum samfélagsmiðlum og varla til sá unglingur sem hefur ekki heyrt um flesta, ef ekki alla og líklega mun fleiri til. Hvernig börn og unglingar eiga samskipti í dag hefur gjörbreyst á síðasta áratug. Þau eru í símunum sínum og á netinu og þetta er ekkert að fara breytast til baka enda engin ástæða til, þetta eru nýjar leiðir til samskipta og svona hafa samskipti þróast allt frá hellamálverkunum.

Allir foreldrar vilja að börnin sín eigi góð samskipti við aðra og einangrist ekki.

Mega foreldrar ráða því hvernig börnin þeirra eiga samskipti? Já, að vissu leyti. En það þýðir ekki að hvernig þau höfðu sjálf samskipti við fjarlæga vini sína á yngri árum (og jafnvel enn) með símtölum og bréfaskriftum sé hentugasta leiðin fyrir börn á 21.öldinni.

Í kjölfarið af aukinni tækninotkun hafa hætturnar breyst og gefur þeim sem illt ætla fleiri tækifæri til þess að nálgast börn. Fæstir foreldrar eru á þeim miðlum sem börnin þeirra eru á. Börnin eru jú mörg á Facebook eins og foreldrarnir en þar fer meirihluti rafrænna samskipta unglinga hins vegar ekki fram heldur á miðlum sem við flest kunnum ekki eins sinni nöfnin á.

Margir foreldrar standa skiljanlega ráðþrota við þessu og sjá þá einu leið færa að banna alla samskiptamiðla þangað til barnið nær löglegum aldri til þess að skrá sig þarna sjálft inn. Algengast er að aldurstakmörk á slíkar síður (eins og Facebook, Instagram og SnapChat) sé 13 ára en nokkrir samfélagsmiðlar eins og Vine og Tinder eru með 17 ára aldurslágmark.

En rétt eins og samfélagsmiðlar eru með aldurstakmörk eru sundlaugar það einnig í öryggisskyni. Á Íslandi er 10 ára aldurstakmark áður en börn mega fara í sund án fylgdar með fullorðnum. Ég ætla að vona að engum detti í hug að banna barninu sínu að fara með sér í sund því það sé svo hættulegt og að fyrsta sundferð barnsins sé ekki án eftirlits á 10 ára afmælisdaginn… því það er ekki líklegt til þess að enda vel. Það er ástæða fyrir því að börn fara í sundkennslu í skólanum og foreldrar fara með börnunum sínum í sund, setja á þau kúta, kenna þeim sundtökin og byrja í grunnu lauginni áður en farið er dýpra.

Ég vona líka að 13 ára afmælisdagur barnsins þíns verði heldur ekki fyrsti dagurinn sem það fer inn á samfélagsmiðla… því það er heldur ekki líklegt til þess að enda vel.

Kjartan Ólafsson hefur bent á í rannsóknum sínum að  öruggast sé að banna samfélagsmiðla enda litlar líkur að barnið lendi í aðstæðum sem það ráði ekki við á netinu. Kjartan bendir ennfremur á að öruggasta leiðin til þess að ekki verði keyrt á barnið þitt sé líklega að læsa það inni og leyfa því ekkert að vera í umferðinni. Það er öruggasta leiðin en líklega ekki sú skynsamlegasta.

Að mínu mati er besta leiðin er að byrja snemma, kenna börnunum grunntökin, rétt eins og í sundinu. Foreldrar eiga að fara með þeim þarna inn, gefa þeim aðgang undir eftirliti og vera með lykilorðið að Instagram, Facebook og/eða SnapChat barnanna. Samhliða því þurfa foreldrar að skrá sig á þessa miðla og leyfa barninu aðeins að fylgja sér, hinu foreldrinu og jafnvel ömmu og afa. Setjst svo reglulega með þeim, ræða málin og fara yfir hvað þau eru að senda, hvað þau eru að fá sent, þakka fyrir þau góðu skilaboð sem þú hefur fengið frá þeim (t.d. að láta vita hvar þau séu, hvenær þau komi heim ofl.) og ræða um ábyrga notkun.

Ef við bönnum allt þangað til barnið er nógu gamalt til þess að skrá sig inn sjálft þá munum við ekki hafa stjórn og geta aðstoðað þau við að læra grunntökin. Vissulega er margt slæmt sem gerist á samfélagsmiðlum en ekki má gleyma að það er miklu meira gott sem gerist þar heldur en slæmt. Það er nauðsynlegt að setja sameiginleg viðmið og gildi um notkunina en mikilvægast að öllu er hæfilegt traust, góð samskipti við barnið ásamt fræðslu um notkunina.

Með von um ábyrga netnotkun bæði barna og fullorðinna en aðallega góð samskipti þeirra á milli því þau eru lykilatriði.

Ingvi Hrannar, kennsluráðgjafi í upplýsinga-og tæknimálum við grunnskóla Skagafjarðar.

www.ingvihrannar.com


Ingvi Hrannar Ómarsson

Creator | Educator | Designer | Everything I produce is work in progress | Stanford Alumni in Learning, Design & Technology Twitter: @IngviOmarsson / @IngviHrannar

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *