#menntaspjall 8.mars um þekkingarþarfir kennara á upplýsingatækni.


Áhugafólk hvaðanæva af landinu sem og utan landsteinanna, hafa nýtt annan hvern sunnudag til þess að ræða menntamál á örbloggvefnum Twitter undir umræðumerkinu #menntaspjall (Hægt er að læra á #menntaspjall á 5 mínútum hér).

Í #menntaspjall sunnudaginn, 8. mars, kl. 11-12 verður rætt um þekkingarþarfir kennara á upplýsingatækni. Umræðan tengist Samspili 2015 – UT átak Menntamiðju, fræðsluátak um upplýsingatækni í námi og kennslu sem hófst í liðinnni viku.

Það eru Tryggvi Thayer og Bjarndís Fjóla Jónsdóttir, verkefnisstjórar Samspils 2015 sem stýra spjallinu ásamt Ingva Hrannari, stofnanda #menntaspjall’s. Ör tækniþróun vekur upp áleitnar spurningar varðandi fræðsluþarfir kennara. Hvernig er best að haga fræðslu fyrir kennara svo hún mæti þörfum þeirra, nemenda og samfélagsins? Ef tækniþróun heldur áfram á þeirri braut sem verið hefur er ljóst að þekkingarþörfinni verður ekki uppfyllt með hefðbundnum námskeiðum sem byggjast á tækniveruleika líðandi stundar. Haga þarf starfsþróun kennara þannig að þeir búi yfir þeirri þekkingu og hæfni sem þarf til að halda sér upplýstum um tækninýjungar hverju sinni.

Spurningarnar sem verða lagðar fyrir þátttakendum eru:

  1. Hvað þurfa kennarar að geta gert með upplýsingatækni nú og í nálægri framtíð?
  2. Hver er helsta hindrun fyrir því að kennarar tileinki sér tækninýjungar í námi og kennslu?
  3. Ef kennarar gætu fengið hvaða tækni sem er til nota í skólastofum sínum ásamt fræðslu um notkun hennar hvað ættu þeir að biðja um?
  4. Hvernig geta kennarar haldið sér upplýstum um tækninýjungar og hvernig þær nýtast í námi og kennslu?
  5. Hvaða breytingar mætti gera á fyrirkomulagi starfsþróunar kennara til að gera þeim betur kleift að haldast í við öra tækniþróun?

Skjáumst sunnudaginn 8.mars kl.11-12.

Ingvi Hrannar, Tryggvi og Bjarndís Fjóla


Ingvi Hrannar Ómarsson

Creator | Educator | Designer | Everything I produce is work in progress | Stanford Alumni in Learning, Design & Technology Twitter: @IngviOmarsson / @IngviHrannar

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *