Við erum að éta börnin okkar

Stephen Mintz bendir á í bók sinni ‘The Prime Of Life: A History of Modern Adulthood’ að ungmenni í dag hafa það, á nær alla hefðbundna mælikvarða, betra í dag en nokkru sinni áður. Glæpatíðni er lægri, færri ungmenni reykja, einkunnir eru betri og fleiri útskrifast úr námi nú en nokkru sinni fyrr.

Mintz heldur áfram og segir að þau hafa það betur á allan þann hátt sem við getum auðveldlega mælt en hafi það verra á mörgum af þeim sviðum sem raunverulega skipta máli: Ungmenni sýna einkenni þunglyndis fyrr, sjálfsvígum hefur fjölgað, mörg ungmenni sýna einkenni ofálags og virðast einnig mörg hver eiga mjög erfitt að mynda náin sambönd.

Þessar rannsóknir Stephen Mintz komu upp í huga mér í vikunni þegar ég var að skoða nýútkomna stundartöflu 16 ára nemanda á 1.ári við Menntaskólann á Akureyri.

Svona lítur stundartaflan fyrir vorönnina út:

Stundartafla nemanda á 1.ári við Menntaskólann á Akureyri. 8.15-16.30 alla daga, engin valfög, engar listgreinar, 5 mín. á milli kennslustunda og heimavinna í ofanálag.

 

Nokkrir hlutir sem ég stoppaði við:

 • Kennsla hefst 8.15 alla daga og lýkur 16.30 (nema á föstudögum þegar henni lýkur kl. 14.35).
 • Ekkert einasta valfag er á stundartöflunni.
  • Þrátt fyrir að markmið okkar hljóti að vera að hjálpa börnum að finna sitt áhugasvið og sína styrkleika fá þau ekkert að segja um hvað verði kennt.
 • Hér eru engar list-né verkgreinar.
 • Á bilinu 11.55-16.30 voru ekki einu sinni frímínútur og nemendur hafa aðeins 5 mínútur til þess að koma sér á milli kennslustunda
  • …og þar af leiðandi lítið rými til samskipta á milli kennslustunda. Raunveruleg samskipti í raunheimum þar sem þú sest niður eru jú mikilvægari en 5 mínútur til þess að skoða ‘snöppin’ á hlaupum.
 • 3×50 mínútur í ‘heilsu’ sem er staðsett í öðru húsi og aðeins 5 mínútur gefnar í næsta tíma…
  • Kannski til þess að ungmennin hlaupi á milli kennslustunda og bæti þannig upp skort á hreyfingu og íþróttakennslu.
 • Ofaná þetta bætist síðan heimavinna í nær öllum fögum í hverri viku.
  • Nema í íþróttum… sem er kannski eina fagið þar sem ætti að vera heimavinna í…

Ég byrjaði á því að tísta áhyggjum mínum til Menntaskólans (@menntaskoli) en ákvað svo að 140 stafir væru bara ekki nóg.

Því skrifaði ég þetta stutta blogg. Það snýst um það hvernig við erum að éta börnin okkar.

Orðskýring:

Eating your youngs: In any society, organization, family, etc., it is normal and expected that the senior members will foster, teach, and bring up their replacements, heirs, children. When a system becomes perverted by greed or a sense of immortality, senior members of an organization can see younger members as a threat instead of a future. As a result they may sabotage the development of their juniors or even find ways to eliminate them altogether, eat or kill their young, destroying the future of the organization in favor immediate, short-term, personal gain.

Miðað við þessa stundartöflu hér að ofan virðist lítill tími vera til samskipta á skólatíma, frítími nær enginn og frístundir mæta afgangi.

Skólakerfið er einfaldlega að segja að menntun eigi sér helst stað innan kennslustofunnar. En sannleikurinn er sá að hefðbundinn skóli og raunverulegt nám eiga ekkert alltaf saman.

Svo virðist sem stefnan sé að geðheilsa, hreyfing, sköpun og frítími ungs fólks eitthvað sem megi missa sín og mikilvægara sé að halda ungmennum við “efnið” í lokuðum kennslustofum fram undir kvöldmat.

Það fer ekkert á milli mála í mínum huga að það er slæm hugmynd að troða námsefni framhaldsskólanna, sem áður tók að jafnaði um 4 ár að ljúka, í 3 ár með þeim formerkjum að það dragi í einhvern hátt úr brottfalli.

Það má vel vera að þeir veiti framúrskarandi sálfræðiþjónustu til þess að bregðast við álagi á nemendur og vanlíðan… en hreyfing, hollur matur, frítími, fá að gera mistök, að eltast við áhugamál sín og tími með vinum og fjölskyldu er betra en nokkur sálfræðitími (og kostar reyndar mun minna).

Skóli getur verið frábær þegar jafnvægi er til staðar. Jafnvægi á milli bóknáms og verknáms, hreyfingar og slökunar, samvinnu og einveru, þess að taka á móti þekkingu og skapa sína eigin svo eitthvað sé nefnt.

Til þess að einstaklingur þroskist, finni sig og sína hillu þarf hann tíma til þess, ólíkar upplifanir og rými til þess að gera mistök.

“Running into a pole is a drag, but never being allowed to run into a pole is a DISASTER.”

-Daniel Kish

Ég þakka fyrir að hafa fengið tíma og rými til þess í því formlega námi sem ég hef lokið til þessa, fékk að prófa mismunandi hluti, taka minn tíma, hafði rými til að mistakast og sýnt það traust að eiga frítíma í það sem ég vildi. Það besta sem ég gerði á árunum 16-20 ára gerðist heldur ekki inni í skólastofu heldur utan hennar.

Við þurfum að vakna og rétta stefnuna af áður en við étum öll börnin. Raunveruleg menntun er svo miklu meira en það sem gerist bara innan fjögurra veggja skólastofunnar.

Ingvi Hrannar,

kennari, áhugamaður um skólamál og framtíð barnanna okkar.

@IngviHrannar
@IngviOmarsson

Ingvi Hrannar Ómarsson

Creator | Educator | Designer | Everything I produce is work in progress | Stanford Alumni in Learning, Design & Technology Twitter: @IngviOmarsson / @IngviHrannar

5 Comments
 • Dóttir mín var í High school í Massachusetts í eitt ár , árið sem átti að vera hennar fyrsta í menntaskóla. Í skólanum henndar voru 1600 nemendur af fjölmörgum þjóðernum og 37 tungumál eru töluð í skólanum. Í flestum bóklegum fögum er hægt að velja hefðbundinn áfanga eða “honors” áfanga sem var í raun tvöfaldur hraði á náminu. Fjölmörg valfög voru í boði, mörg þeirra í verkgreinum t.d. var hægt að læra matreiðslu ýmissa þjóða. ´Þess utan er mikil áhersla lögð á skólaíþróttir og mikil samkeppni um að komast í “varsity” liðin í hinum ýmsu íþróttagreinum. Næðist það ekki voru samt miklir möguleikar til íþróttaiðkunar í “junior varsity” og freshmen liðum. Foreldrar eru í miklum samskiptum við skólann, fá reglulega upplýsingar um gengi nemenda og eru reglulega boðnir í skólann við ýmis tækifæri. Það var töluvert erfitt að byrja í nýjum skóla og læra á nýju tungumáli og þegar í ljós kom að námið gekk ekki sem skyldi var sett upp plan fyrir hana, aukatímar og aðstoðarkennarar, því markmiðið hjá þessum skóla er ekki að taka inn nemendur með góðar einkunnir heldur útskrifa nemendur með góðar einkunnir. Hún kom svo heim til Íslands og lauk stúdentsprófi frá ónefndum skóla þar sem hún strögglaði töluvert en það vakti ekki sérstakan áhuga kennaranna hennar eða skólans. Nú er hún aftur komin til Massachusetts í háskóla þar sem hún fær mikinn stuðning vegna ADHD sem hún greindist með eftir að hún kom heim í fyrra sinnið, námsumhverfið er ótrúlega styðjandi og hvetjandi og hún er alsæl. Fyrsta árið í háskóla fer almennt í að taka almenna áfanga á meðan fólk er að finna út úr því hvað það vill læra. EInhvern veginn upplifi ég kerfið þarna miklu manneskjulegra þrátt fyrir að þarna ríki mikil samkeppni meðal nemenda, sérstaklega í High school, því allir vilja komast í bestu skólana. Nemendur finna að þeir og nám þeirra skiptir máli, þeir eru ekki bara tölur á blaði. Stundaskráin sem þú vísar í hér finnst mér ómanneskjuleg og ég stórefa að sá sem fer í gegnum framhaldsskólann með þessum hætti finnist námið skemmtilegt , ráði hann við það, eða hafi rými fyrir ástundun tómstunda, sem eins og þú nefnir eru líka partur af því að læra 🙂

 • Mjög góð og þörf ábending. Af einhverjum ástæðum eru umræður um grunnforsendur skólakerfisins nánast engar. Það þarf að fara “aftur að teikniborðinu” með kerfið í heild sinni. Það þjónar ekki nemendum, ekki kennurum, er algerlega úr tengslum við atvinnulif og samfélag..og er þar að auki fáránlega dýrt og óhagkvæmt. Kerfið er í raun að ýmsu leyti beinlínis skaðlegt. Ég bendi öllum sem hafa áhuga á að hrista upp i sjálfum sér og öðrum að kíkja á skóla sem heitir Sudbury Valley School í USA til að sjá dæmi um skóla sem nálgast menntun með rótækt öðruvísi aðferðum. Ég hef sjálfur skrifað um þetta, við litlar undirtektir. http://sigginobb.blogspot.is/2015/02/menntakerfi-byggir-ureltum-og-skalegum.html

  kveðja:
  Sigurður Ólafsson

 • Gæti ekki verið meira sammála. Þetta þarf að vera meira en aðeins grein. Þessir krakkar hafa svo engan samanburð og fáar raddir sem tala fyrir þeim.
  Ég get ekki ímyndað mér hvernig framtíð við stöndum frammi fyrir ef fólk kann ekki að eiga samskipti og að njóta tilverunnar.

 • Hvet þig og aðra til að skoða námskrááætlun Menntaskólans við Sund, þar var breytt í lotukerfi með símati og 3ja anna kerfi. Engin stór lokapróf lengur í nýja kerfinu. Mér heyrist að flestir séu nokkuð sáttir þar. Menntaskólar landsins mættu kannski horfa til breytinga sem þar farið í. Má kannski nefna um leið að mötuneyti skólans er í höndum veitingastarins Krúsku.
  Annars margt gott í pistlinum þínum, takk fyrir að skapa umræðuna.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *